16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega undirstrika það sem hér hefur komið fram í þessari umr. og vekja á því athygli og þá sérstaklega orðum hæstv. viðskrh. þar sem hann talar um að það ætti að gefa kaupfélögunum ráðrúm til að þróa þetta skipulag. Það er kannske vert að spyrja um hvort hann hafi kannske farið eitthvað á fjörur til þeirra í sambandi við þau svör sem hann hefur hér gefið.

Þá er það líka athyglisvert, sem kemur fram hjá honum og raunar fleirum hv. framsóknarmönnum sem hér hafa talað, að þeir hafa látið í það skína að viðskiptin af bænda hálfu við kaupfélögin væru með þeim hætti að kaupfélögin ættu í erfiðleikum með að fjármagna þau. Ég leyfi mér að mótmæla þessu. Mér er það alveg ljóst, að hagur íslenskra bænda stendur ekki með neinum blóma um þessar mundir og það vita allir jafn vel, þeir sem hér eru inni, að hann hefur farið mjög niður á við hin allra síðustu ár. Samt sem áður er ég óhræddur, eftir því sem hægt væri, að láta fara fram könnun á því hvernig reikningsleg staða bændanna í þessu landi er við kaupfélögin. Ég veit það vel að hún er með þeim hætti m.a. á Austurlandi að það þarf ekki að sækja fjármagn út fyrir þau til að fjármagna þann rekstur sem þar gengur í gegn. Það mætti m.a. athuga fyrir hverju afurðalánin, sem þau eiga að fá núna á haustdögum, hafa verið veðsett.

Inn í þessa umr. verða menn að taka þá spurningu og þá þau svör, vegna hvers bændur, sem hafa tekið upp nýjar búgreinar, hafi bein bankaviðskipti og hver sé ástæðan fyrir að rekstrar- og afurðalán til þeirra þurfi ekki að ganga í gegnum kaupfélögin. Nú liggur sú skipan fyrir að svo er ekki. (Forseti hringir.) Ég er rétt að ljúka máli mínu, herra forseti.

Í þriðja lagi komu hér fram ákaflega mikilvægar upplýsingar h já hv. þm. Ólafi Þórðarsyni, þar sem hann sagði að hinn hái sláturkostnaður stafaði af því að það hefðu verið gerðar svo strangar heilbrigðiskröfur. Er þá svo að skilja, að nú liggi fyrir og hægt sé að fá svör um hvernig sláturkostnaðinum er deilt upp. (SvH: Hefur það ekki verið?) Það hefur ekki verið á þessu hausti.