16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 11. landsk. þm. beindi til mín spurningu óbeint, eftir að tími hans til ræðuhalda hér var út runninn, og ég neyðist til að gefa mér örlítinn tíma til að svara henni.

Ég hef þá þekkingu, ekki að ofan frá neinum skrifborðsherrum, hvað heilbrigðiseftirlitið kosti í sláturhúsakröfum. Ég hef það beint frá sveitunum sjálfum og þeim mönnum sem um þessi mál fjalla heima fyrir. Mér hefur borist bréf að vestan vegna sláturhúsamála. Þar er ég spurður þessarar spurningar: Telur þm. ekki eðlilegt, úr því svo mjög lá við að knýja landbrh. til þess að veita umrætt sláturleyfi, ef hann verður kjörinn á þing í næstu kosningum, að veita Rauðsendingum og Barðstrendingum sláturleyfi á sínum fyrri sláturstöðum, Gjögrum og Skjaldvararfossi á næsta hausti, ef sótt verður um slíkt, og láta húsið á Patreksfirði standa ónotað?

Það kostaði þessa aðila stórfé að fara í það að byggja nýtt sláturhús vegna þess að heilbrigðiskröfurnar heimtuðu að það yrði gert. Það er hægt að fá allar upplýsingar um þann kostnað hjá hv. 4. þm. Austurl., sem jafnframt gegnir annarri stöðu, og við vonum að þar komist engin pólitík að. Þar liggur umsókn um stuðning við þessa byggingarframkvæmd, lánsumsókn vegna þess hvílíkur fjárhagslegur baggi hún hefur verið á þeim aðilum sem að henni standa. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að níðast á þolinmæði forseta.