16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlunin að hefja einhverja eldhúsdagsumræðu um samvinnufélögin og starfsemi þeirra og þýðingarlaust í þessu falli fyrir hæstv. viðskrh. að drepa málum á dreif með því að ræða um vefarana frá Rockdale, fara út í þá sálma. Það er allt annað mál.

En það er eitthvað meira en lítið að þegar menn hafa aðstöðu til þess að skrifa önnur eins bréf og ég vitnaði til. Það er misskilningur að ég hafi lesið upp eitt eða neitt hér. Bréfið er heima hjá mér. Ég get sótt það. Það er eitthvað meira en lítið að þegar svo háttar til með virðulega bændastétt, að það er hægt að bjóða henni upp á það að send séu umburðarbréf á hvert einasta heimili í heilli sveit eins og Vopnafirði, feitri og fallegri sveit, og þeim tilkynnt að þeir séu ekki fjár síns ráðandi að því leyti, að þeir geti aðeins fengið að taka út fyrir náð og miskunn vörur til heimilis síns hjá viðkomandi kaupfélagi, sem þeir eiga allar sínar afurðir inni hjá. Það er eitthvað meira en lítið gagurt við þessa skipan mála.

Svo kenna menn því um að þetta sé dýrt og einhverjir bankastjórar, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. ber hyldjúpa virðingu fyrir, höfuð þvo hann af því að þeim hentar þetta ekki og telja honum trú um það að þetta sé óframkvæmanlegt. Ætli það væri ekki hægt að láta þessa 30 menn, sem á að fara að ráða til þess að afgreiða erlendan gjaldeyri hjá Búnaðarbanka Íslands, hafa þetta í hjáverkum? Við getum kannske hugsað okkur það, 30 manns, sem á að ráða þar af því að þeir eiga að fá erlend gjaldeyrisviðskipti. Það er eins og heil Framkvæmdastofnun, sem ýmsum þykir nú ærið nóg, sem á að ráða þar til viðbótar í bankakerfið til þess að afgreiða erlendan gjaldeyri, sem er víst nóg af um þessar mundir í þessu landi. (Gripið fram í.)

Auðvitað er þetta hægt. Þetta er spurning um vilja og þetta er spurning um það hvort hin virðulegasta stétt þessa þjóðfélags, bændastéttin, á að halda fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Hæstv. ráðh. sagði: „Mér ber skylda til að fara að þessari samþykkt Alþingis.“ Og þá er að koma sér að verki, hæstv. ráðh.