16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Karvel pálmason:

Herra forseti. Mér sýnist að hér sé enn eitt dæmi þess að það skiptir í raun og veru ekki máli hvað Alþingi samþykkir, ályktar eða ákveður. Í allt of mörgum tilfellum, eins og t.d. hér, er ekkert eftir því farið af framkvæmdavaldinu. Það er auðvitað spurning, og ég hef vakið á því athygli hér áður, það er spurning hversu lengi Alþingi ætlar að sætta sig við slík vinnubrögð. Hér eru gerðar samþykktir og ályktanir, sem hæstv. ráðh., í þessu tilfelli viðskrh., ber auðvitað að fara eftir, en eigi að síður er allt slíkt virt að vettugi. Það er kafli út af fyrir sig og krefst miklu lengri tíma en í umr. um fsp. að ræða stöðu bænda, samspil kaupfélaga og samvinnuhreyfingarinnar og annað slíkt. En ég held að það sé engin tilviljun, ekkert einsdæmi, það sem hv. þm. Sverrir Hermannsson vitnaði til hér áðan að væri að gerast í Vopnafirði. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar, að kannske sé mesta bilið innan bændastéttarinnar milli þess fátækasta og hins sem er best megandi. Ég hygg að það sé hægt að finna innan bændastéttarinnar sárustu fátæktina á Íslandi. En það er líka hægt að finna þar mjög vel setta einstaklinga efnalega séð. Staðreyndin er held ég sú, að bændastéttin, allt of stór hópur bændastéttarinnar er álíka reyrður á klafa kaupfélaganna eins og verkamenn og sjómenn voru um það bil sem verkalýðshreyfingin var að hasla sér völl á Íslandi. Menn eru í kladdaúttekt hjá kaupfélaginu. Það er ótrúlega stór hópur, að ég hygg, innan bændastéttarinnar sem er einmitt með þessum hætti bundinn á klafa kaupfélaganna og samvinnuhreyfingarinnar. Og það er spurning hvenær hinn almenni bóndi innan bændasamtakanna hristir þennan klafa af sér eins og verkamenn og sjómenn gerðu á sínum tíma þegar þeir hösluðu sér völl innan verkalýðshreyfingarinnar.