16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Níels Á. Lund:

Herra forseti. Það voru orð hv. síðasta ræðumanns hér á Alþingi sem gerðu útslag á það að ég stíg hér í pontu. Ummæli hans, að kaupfélögin væru að setja bændur á klafa hjá sér, sýna einungis að viðkomandi hv. þm. veit ekkert um kaupfélögin, skilur hvorki uppbyggingu þeirra eða eðli né neitt í þá áttina. Það ofbauð mér svo að ég ákvað að fara hér upp og fræða hann lítils háttar.

Kaupfélögin starfa eftir svonefndum Rochdale-reglum, samvinnureglum, sem m.a. kveða á um það að öllum einstaklingum er frjáls aðild að félögunum. Það er enginn skyldugur til að vera í kaupfélagi frekar en hann vill. Þetta ætti hv. þm. að vita. Einnig segir svo í 2. gr. þessara laga, að í hverju félagi er lýðræðisleg stjórn, þ.e. að hver maður hefur eitt atkv. án tillits til verslunar við félagið, fjármagns eða annars slíks. Þetta tryggir jafnrétti af fremsta megni. Síðan hefur það gleymst verulega í þessari umr., eins og hv. þm. Egill Jónsson minntist m.a. á áðan, fyrir hverja afurðalánin hafa verið veðsett. Það er nefnilega þannig að kaupfélögin eru í eign þeirra manna, sem í kaupfélögunum eru, og þeim hlýtur að vera í sjálfsvald sett hvernig þeir ráðstafa sínum eigum. Langflest íslensku kaupfélögin eru svonefnd blönduð félög, sem eru með margs konar þjónustu í þá átt að bæta aðstöðu þeirra manna og tryggja byggðafestu þeirra sem á kaupfélagssvæðinu eru. Kaupfélögin fara eftir vilja hvers og eins, eins og við ættum að vita, og það sem kaupfélögin gera er einungis vilji þeirra félagsmanna sem í kaupfélögunum eru. (Forseti hringir.) Ég hefði viljað, herra forseti, hafa miklu lengri tíma til að ræða um kaupfélagsskapinn og eðli kaupfélaganna, byggðafestu þeirra og fleira, en til þess gefst enginn tími í svo stuttum fsp.-tíma eins og hér er. Og í raun og veru ætti ekki að ræða þessi mál á þeim grundvelli sem þegar hefur þó verið farið út í.