16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við kaupfélögin og bændurna. Hvað eru kaupfélögin bændastéttinni? Jú, bændurnir hafa langsamlega flestir, þó ekki undantekningarlaust eins og við vitum, því að mönnum er frjálst hvort þeir ganga í kaupfélag eða ekki, þeir hafa undantekningarlítið viðskipti sín við kaupfélögin. Þeir hafa myndað félagsskap um innkaup til búanna og til daglegra þarfa annars vegar. Hins vegar eru svo sölumálin, sem eru nátengd. Þeir hafa myndað með sér félagsskap um að standa saman að slátrun og verkun afurða. Þetta eru í aðalatriðum tengslin þarna á milli.

Ég er mjög hissa á því að hv. þm. Karvel Pálmason, af því að hann er nú jafnaðarmaður, skuli hefja hér ádeilur á kaupfélögin og telji þau vera eitthvert helsi um háls bænda. Þetta vita allir, sem kunnugir eru starfsemi kaupfélaganna og í bændastéttinni, að er alger ranghverfa. Ég er ekki að halda því fram og mun ekki halda því fram, að það sé ekki hægt að gagnrýna ýmislegt í rekstri kaupfélaganna. Að sjálfsögðu er það hægt og er gert. Ég hef verið á aðalfundum Kaupfélags Héraðsbúa, svo að ég nefni þar um dæmi. Þar eru harðar deilur, þar er gagnrýni og menn ræða um sitthvað það sem miður fer. Það er fjarri mér að álíta að ekki sé ástæða til að gagnrýna ýmislegt í fari kaupfélaganna. En það haggar ekki hinu, að kaupfélögin eru að mínu mati alveg hiklaust ein styrkasta stoð bændastéttarinnar. Það er svo alveg rétt hjá hv. þm. Halldóti Blöndal að bændurnir eru kannske styrkasta stoð kaupfélaganna í mörgum tilvikum. En vegna þess að við erum komnir kannske dálítið frá því umræðuefni, sem hér var verið að spyrja um og svara, þá skal ég ekki hafa fleiri orð um þetta nú.