16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

261. mál, beinar greiðslur til bænda

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. hefur beint til mín fsp. í fimm liðum um beinar greiðslur til bænda. Þann 16. febr. s.l. fóru fram umr. um þetta mál á Alþingi í framhaldi af sams konar fsp., sem hv. þm., Eyjólfur Konráð Jónsson, lagði þá fram. Til þess að sem minnst verði um endurtekningar á þeirri umr. sem fram fór 16. febr. leyfi ég mér að vísa til hennar að svo miklu leyti sem hægt er að komast hjá endurtekningu.

1. liður fsp. er svohljóðandi: „Hvað liður athugunum þeim sem landbrh. hefur látið gera til að tryggja framgang ályktunar Alþingis frá 22. maí 1979 um beinar greiðslur til bænda?“

2. liður fsp. hljóðar svo: „Hvenær er ætlun ríkisstj. að nýjar reglur um greiðslu útflutningsbóta og niðurgreiðslna, sem tryggi að fjármunir nýtist betur, komi til framkvæmda.“

Vegna þessara tveggja fsp.-liða, sem fjalla að hluta um sama efni, vil ég leyfa mér að rifja upp texta þál. um beinar greiðslur til bænda, en hann er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að settar verði reglur um rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins, sem tryggi að bændur fái í hendur þá fjármuni, sem þeim eru ætlaðir, um leið og lánin eru veitt.

Jafnframt láti ríkisstj. fara fram athugun á því, hvernig heppilegast sé að koma við breytingum á greiðslum útflutningsbóta og niðurgreiðslna, þannig að þær nýtist betur.“

Hér er spurt um efni sem lúta að seinni hluta ályktunarinnar.

Sem kunnugt er er framleiðslu- og sölukostnaður landbúnaðarafurða greiddur á þrjá vegu. Í fyrsta lagi með því verði fyrir landbúnaðarafurðir sem neytandinn lætur af hendi við búðarborðið, í öðru lagi af þeim fjármunum úr ríkissjóði sem varið er til niðurgreiðslna og niðurfærslu verðlags og í þriðja lagi með útflutningsbótafé úr ríkissjóði, þegar á vantar að lögákveðið verð náist, sem á að mæta að fullu framleiðslu- og sölukostnaði landbúnaðarafurða sem fara á erlenda markaði.

Í ályktun Alþingis frá 29. maí s.l. er kveðið á um að ríkisstj. láti fara fram athugun á því hvernig heppilegast sé að koma við breytingum á greiðslum útflutningsbóta og niðurgreiðslna þannig að þær nýtist betur. Að sjálfsögðu er ekki þar með sagt, þó að í könnun sé ráðist, að hún leiði til jákvæðrar niðurstöðu. Engrar könnunar þyrfti við væri það fyrir fram vitað.

Ég vil endurtaka hér það, sem ég nefndi í umr. um þetta mál í febr. s.l., að með lögum um breytingu á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarafurðum o.fl. frá 18. apríl 1979 voru gefnar heimildir til að greiða niðurgreiðslur úr ríkissjóði til bænda sé það hagkvæmt. Bændasamtökin hafa kannað þessa möguleika, en ekki séð færari leið til að bæta hag bænda eða ná fram öðrum ávinningi með beinni ráðstöfun niðurgreiðslufjár en með því fyrirkomulagi sem nú gildir. Einnig nefndi ég við þá umr., að kannað var í árslok 1980 af fulltrúum bænda, fjmrn. og landbrn. hvort mögulegt væri að greiða beint til bænda þann hluta búvöruverðs sem er tilkominn vegna orlofs bænda, hjúsfreyju og aðstoðarfólks við búreksturinn. Þessi athugun leiddi til neikvæðrar niðurstöðu. Athugun leiddi í í jós ýmsa annmarka. Þessir voru helstir:

1) Tekið yrði upp tvöfalt kerfi til að koma fjármunum til bænda fyrir afurðir þeirra.

2) Ættu fjármunir að greiðast fyrir fram væri eftir að finna út hvað hverjum ber. Ábúðarskipti jarða eru mörg á ári, bústofn skiptir um eigendur, menn draga við sig búskap eða auka vegna annarra starfa, erfitt er að draga mörkin og ákvarða hverjir teljist bændur og fjölmörg önnur atriði koma til úrlausnar, e.t.v. án þess að úr verði leyst.

3) Yrðu þessir fjármunir ekki greiddir fyrir fram er jafnauðvelt að fela þeim sem tekur við afurðum bænda, þ.e. sláturleyfishafa, að koma þeim til skila og að hugsa sér annað kerfi við hlið hins til þess að sjá um uppgjörið. Líklegt er að tvöfalt kerfi yrði seinvirkara.

4) Beinar greiðslur á orlofi til bænda reyndust samkvæmt athugun dýrari fyrir ríkissjóð til áhrifa á verðlagsþróun. Upp kom mikil óvissa um skiptingu fjármagnsins milli einstaklinga og ekki séð eftir hvaða leiðum ætti að fara þannig að allir mættu við una.

Þá vil ég minna á, sem fram kom í framsöguræðu hv. fyrirspyrjanda, að athugun var gerð af Stéttarsambandi bænda á þeim möguleika að greiða bændum af niðurgreiðslufé 25% framleiðslukostnaðar upp að 500 ærgilda búi í nautgripum og sauðfé, en eftir það jafnar greiðslur til hvers bónda. Niðurstöður þessarar athugunar eru birtar sem fskj. VI. með till. til þál. um stefnumörkun í landbúnaði á þskj. 77, sem hv. fyrirspyrjandi er meðflutningsmaður að. Samkv. þessari athugun er talið að verð hvers mjólkurlítra yrði 84 gkr. hærra en við niðurgreiðslu mjólkurverðsins til neytenda, eins og það var þegar könnun var gerð, og verð á kindakjöti 486 gkr. hærra. Þessar niðurstöður eru í samræmi við aðrar athuganir sem gerðar hafa verið á beinum peningagreiðslum til bænda úr ríkissjóði. Verðlagsáhrif verða minni og útsöluverð hærra. Þessar niðurstöður hafa því miður komið þannig úf ítrekað og þessa hefur áður verið getið.

Annar möguleiki er að greiða niður aðföng til búrekstrar eða fjármagnskostnað. Rétt er að minna á í því sambandi að árið 1975 rúmlega tvöfaldaðist framleiðslukostnaður áburðar vegna hækkunar orkuverðs og var þeirri hækkun dreift á tvö ár með því að ríkissjóður tók á sig helming verðhækkunar fyrra árið. Sá annmarki var á þessari niðurgreiðslu að fleiri nutu hennar en bændur því eins og kunnugt er fer áburður til fleiri notenda en bænda. Þótti ekki framkvæmanlegt að takmarka niðurgreiðslu á verði áburðar við bændur eina. Sömu vandamál mundu koma upp við niðurgreiðslu á kjarnfóðri og fjármagnskostnaði í landbúnaði, en þessir tveir rekstrarliðir eru þeir einu sem hugsanlega mætti lækka í verði til landbúnaðarins með beinum niðurgreiðslum.

Á hinn bóginn má ekki horfa fram hjá því, hvaða áhrif lækkun verðs á þessum liðum búrekstrarins gæti haft á framleiðslu í landbúnaði. Enginn vafi er á því, að veruleg verðlækkun áburðar, kjarnfóðurs eða fjármagnskostnaðar, t.d. með niðurgreiðslu vaxta, mundi leiða af sér aukna notkun þessara rekstraraðfanga og um leið aukna framleiðslu. Nægir þar að nefna hver áhrif kjarnfóðurgjalds á notkun kjarnfóðurs og mjólkurframleiðslu urðu þegar það var lagt á með brbl. í júní 1980, en hvort tveggja dróst verulega saman, svo sem kunnugt er. Væri í það ráðist að greiða niður áburð, kjarnfóður eða fjármagnskostnað hjá bændum má gera ráð fyrir aukinni framleiðslu og fjárfestingu á sama tíma og lagt er kapp á að halda nokkru jafnvægi framleiðslunnar við markað og markaðsaðstæður.

Þá vil ég að lokum minna á, að svo virðist stundum hafa gleymst í þessari umr., ef greitt væri niðurgreiðslufé úr ríkissjóði beint til bænda í stað þess að það komi sem greiðsla fyrir afurðir þeirra, að niðurgreiðslur á verði landbúnaðarafurða hafi verið meðal þeirra stjórntækja sem notuð hafa verið til að hamla gegn verðbólgu. Niðurgreiðslur hafa þess vegna verið auknar eða úr þeim dregið eftir því hvernig horft hefur í efnahagsmálum. Það kynni að valda erfiðleikum í slíku kerfi ef stjórnvöld tækju þá ákvörðun að draga úr niðurgreiðslum, sem mundi þá koma mjög óþægilega við.

Öll þau atriði, sem ég hef nefnt hér að framan og komið hafa fram við könnun eða liggja í augum uppi við athugun þessa máls, mæla gegn því að breytt sé frá því fyrirkomulagi sem hefur verið tíðkað við ráðstöfun niðurgreiðslufjár og útflutningsbóta. Erfitt er að segja fyrir um, hvort hér kunni annað að koma upp að breyttu vísitölukerfi og breyttri ráðstöfun niðurgreiðslufjár til áhrifa á það kerfi. Ég gat þess þegar ég svaraði sambærilegri fsp. á fyrra ári, að þá yrði ástæða til að gera sérstaka athugun á þessu máli að nýju. (Forseti hringir.) Herra forseti, því miður er fsp. í fimm liðum og ég á nokkuð eftir af svari mínu. — Þriðji liður fsp. hljóðar svo: „Hefur verið athugað hvernig heppilegast væri að afnema „kvótakerfið“ samhliða beinum greiðslum til bænda?“

Af því sem ég hef rakið hér að framan má ljóst vera, að engir þeir möguleikar, sem fram hafa komið við könnun á beinum greiðslum til bænda, hafa þótt færa bændastéttinni ávinning, ef framkvæmdar yrðu, og jafnvel fremur hið gagnstæða. Af því er ljóst, að engar hugmyndir hafa verið uppi í þá átt sem fsp. gengur. Hins vegar hef ég skrifað bændasamtökunum og óskað eftir tilnefningu frá þeim í nefnd til að kanna möguleika á að taka upp svæðisbundna stjórnun framleiðslu í landbúnaði í stað þess kvótakerfis sem hefur verið í uppbyggingu og mér hefur þótt hefta um of frelsi einstakra bænda til athafna á jörðum sinum. Hvort þeir möguleikar finnast verður starf nefndarinnar að leiða í ljós.

Í 4. tölul. fsp. er spurt, hvort það sé ætlun ríkisstj. að viðhalda bæði ,kvótakerfi“ og fóðurbætisskatti hversu erfitt sem árferði verður í landbúnaðinum.

Ég hef að nokkru leyti svarað þessari fsp. með því sem ég áður sagði um það kvótakerfi sem verið hefur í uppbyggingu. Vissulega getur það verið bændum þungbært að standa frammi fyrir því að hafa vel upp byggð bú og mega ekki nýta framleiðslugetu búsins að eigin ósk. Að vísu er sams konar dæmi að finna um allt í atvinnulífi okkar, þar sem framleiðslugetan og afköst atvinnutækjanna bera markaði eða náttúrlegar takmarkanir auðlinda, svo sem fiskistofna, ofurliði. Þó tel ég að betra sé að stilla framleiðslu í hóf, á hvern hátt sem gert er, en kosta til framleiðslu á vörum sem ekki finnst markaður fyrir. Því hefur hvort tveggja, kjarnfóðurgjaldið og kvótakerfið, bætt hag hjá bændum, en ekki skert hann miðað við þá kosti á móti að framleiðsla hefði orðið miklu meiri en seljanleg hefði orðið.

Ég vil rifja upp við hv. fyrirspyrjanda, að heimilt er samkv. reglugerð nr. 491 frá 30. sept. 1981, sem fjallar um innheimtu gjalds á innflutt kjarnfóður, að endurgreiða gjaldið að hluta eða öllu leyti eða fella það niður hjá bændum. Niðurfelling eða endurgreiðsla má fara fram eftir svæðum, en skal vera komin til vegna harðæris, uppskerubrests eða til að auka framleiðslu þeirrar búvöru sem skortur er á. Þetta hefur lítillega verið framkvæmt.

Að tillögu Framleiðsluráðs landbúnaðarins hef ég heimilað að greiða bændum mánuðina nóvember til og með mars 1983 35 aura á hvern lítra innveginnar mjólkur og mjólkur sem seld er beint frá bændum til neytenda. Þessi ráðstöfun er gerð til að hvetja til aukinnar mjólkurframleiðslu þessa mánuði vegna hinna árstíðabundnu sveiflna í mjólkurframleiðslunni, sem stundum hafa gert mjólkurskort á vissum svæðum hér á höfuðborgarsvæðinu yfirvofandi þennan tíma ársins svo þyrfti með ærnum kostnaði að flytja mjólk um langa vegu.

Í 5. lið fsp. er spurt þannig: „Hvernig hefur reynslan orðið af framkvæmd „kvótakerfisins“?

Þessari spurningu svaraði ég hv. fyrirspyrjanda allítarlega í febrúarmánuði s.l. Fátt nýtt hefur komið fram á þeim mánuðum, sem síðan eru liðnir, sem breyta því svari sem þá var gefið, og of skammt er um liðið frá því að þetta fyrirkomulag var tekið upp til að hægt sé að segja fullkomna reynslu af því. Hins vegar hef ég ákveðið að fela nefnd þeirri, sem ég sagði frá áðan að ætti að kanna möguleika á svæðisbundnu framleiðsluskipulagi, að gera úttekt á þeirri reynslu sem fengin er af framkvæmd kvótakerfisins og eftir að þeirri úttekt (Gripið fram í.) lýkur liggja væntanlega fyrir gleggri svör um kosti og galla þessa skipulags og hugmyndir að úrbótum með fyrirkomulagsbreytingu, en auðvitað eru ýmsir gallar þessa skipulags ljósir.