16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

261. mál, beinar greiðslur til bænda

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég held að hæstv. landbrh. þyrfti nú frekar að endurskoða sínar upplýsingar en ég. Ég sagði frá þeim gögnum sem ég vitnaði til. Vill hæstv. landbrh. endurtaka það sem hann sagði eða vill hann vefengja niðurstöður búreikninga í þessum efnum?

En gerum samanburð á málflutningi. Hæstv. landbrh. ber saman kjarnfóðurnotkun tveggja ára. Annað þessara ára, þegar kjarnfóðurnotkunin fór upp í 84 þús. tonn, eins og hann réttilega sagði, var og er eitt allra kaldasta og erfiðasta ár sem hefur gengið yfir þetta land á þessari öld. En við hliðina á því kom svo aftur eitt hið allra besta sumar og gott árferði. Skyldi það ekki hafa áhrif á hvað er notað af fóðri í þessu landi og þá sérstaklega af kjarnfóðri. Þetta ætti hæstv. landbrh. að vita, og ég veit reyndar að hann er ekki í nokkrum vafa um áhrif slíks sem þessa.

En svo það sé alveg skýrt sem ég átti við í sambandi við að kjarnfóðurgjaldið falsaði útborgunarverðið, þá er það að sjálfsögðu staðreynd og það vita allir menn, að það er ekki notað, þó að heimildirnar stefni til þess, til að stjórna landbúnaðarframleiðslunni. Það er notað til þess að færa á milli fjármagn. Það er notað til verðmiðlunar. Það er allt annað en framleiðslustjórn er.