16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

40. mál, Kvikmyndasjóður Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það er spurt hvenær vænta megi frv. um Kvikmyndasjóð Íslands. Ég skal svara þessu þannig, að ég geri ráð fyrir því að unnt verði að leggja frv. fram sem heitir Frumvarp til laga um Kvikmyndastofnun, Kvikmyndasjóð og Kvikmyndasafn. Ég vona að takast megi að leggja þetta frv. fram áður en mjög langt um líður.

Eins og fram kom hér hjá hv. fyrirspyrjanda var frv. undir þessu heiti samið af sérstakri nefnd sem fyrirspyrjandi tilgreindi hverjir sátu í. Því miður reyndist þetta frv. ekki ógallað þegar það var skoðað rækilega og það hefur orðið að fara nokkuð vel ofan í sumar greinar þess. Auk þess hefur frv. verið sent ýmsum aðilum til umsagnar og menn hafa haft eitt og annað út á það að setja. Síðustu umsagnir voru jafnvel að berast núna alveg síðustu daga. Þó að það sé að vísu rétt að það er rúmt ár síðan nefndin sem heild skilaði af sér — reyndar skilaði minni hl. nefndarinnar áliti löngu síðar, þegar komið var fram í mars á þessu ári, ef ég man rétt — hefur raunin orðið sú að þetta hefur tekið nokkurn tíma. Það er alls ekki vandalaust að fara með þetta mál og koma því farsællega fyrir. En ef við á annað borð flytjum frv. um þetta verður það að vera vel úr garði gert, m.a. hvað snertir framkvæmd. Þess vegna varð ekki hjá því komist að fara nokkuð vel ofan í einstakar greinar þess. Nú tel ég samt að þessari endurskoðun á frv.-drögunum sé að verða lokið. Þau hafa gengið í gegnum endurskoðun á vegum menntmrn. og reyndar fjmrn. einnig. Ég vona því að hægt verði að bera frv. fram innan skamms. Það verður ekki óbreytt að sjálfsögðu, eins og hér hlýtur að koma fram, frá því sem það var lagt fyrir mig fyrir ári eða svo, heldur hlýtur að verða á því einhver breyting. Ég fer ekki nánar út í það nú, enda varla við því að búast að við höfum hér efnislega umr. um málið. En ég vona að frv. geti séð dagsins ljós áður en langt um líður.