16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

40. mál, Kvikmyndasjóður Íslands

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég læt í ljósi ánægju mína yfir því, að þess sé senn að vænta að umrætt frv. verði lagt hér fram. Ég saknaði þess satt að segja að í þeirri skrá sem hæstv. forsrh. lagði fyrir stjórnarandstöðuna fyrir skömmu var þetta frv. ekki að finna. En ég geri ráð fyrir að það hafi fallið niður fyrir vangá.

Ég get ekki tekið undir með hv. síðasta ræðumanni, að ráðh. sé stætt á því að flytja sem stjórnarfrv. mál sem hann er efnislega andvígur. Ég held því að um þá leið hafi ekki verið að ræða hjá hæstv. menntmrh. Hann hafi ekki getað flutt frv. eins og nefndin skilaði því nema hann gerði það um leið að sínu máli og hefði þá orðið að biðja aðra hvora nefndina, annað hvort menntmn. Ed. eða Nd. að flytja málið. En það snertir nú ekki kjarna þessa máls.

En ég vil segja það sem mína skoðun, eins og raunar kemur fram í minnihlutaáliti sem ég skilaði vegna samningar þessa frv., að í því voru mörg álitamál sem ég taldi að þyrftu frekari skoðunar við. Ég vænti þess að frv. verði þannig úr garði gert af hendi hæstv. menntmrh. að um það náist sæmileg samstaða hér á þinginu.