18.10.1982
Neðri deild: 3. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

3. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Því er stundum haldið fram að mörlandinn sé bæði hvatvís og nýjungagjarn, og það á stundum við. Við erum stundum fljótir að tileinka okkur nýja tækni, fljótir að gleypa við nýjungum, fljótir að ná tökum á þeim, jafnvel að ná þeim tökum á þeim að við gerum ýmsa hluti betur en aðrar þjóðir í tæknilegum skilningi. En að öðru leyti búum við við þá þversögn, að þetta fámenna gróskumikla þjóðfélag er að sumu leyti ákaflega íhaldssamt í allri sinni gerð.

Mér kemur af þessu tilefni í hug, að fyrir nokkrum árum spunnust miklar umræður um íslenski skólakerfi. Menn ræddu um að það væri staðnað í úreltum formum. Það var „hírarkískt“ skipulagt og fólk var aðgreint lárétt og lóðrétt, menn töluðu jafnvel um stéttaskiptingu. Svokölluðu bóklegu námi var gert hærra undir höfði en verklegu námi, sem enn er galli á kerfinu. Þá eru ýmsar blindgötur í kerfinu, ekki greiðar samgönguleiðir af einni námsbraut á aðra.

Þá gerðist það, að lærðir skólafrömuðir uppgötvuðu að einhver framúrstefnupólitík í skólakerfi í Svíþjóð væri í því fólgin að afnema þetta kerfi, koma á áfangakerfi, koma á einhverju sem héti samræmdur skóli. Þarna átti að opna blindgötur, skapa krossleiðir, hætta að sundra fólkinu í skólakerfinu og skipa þeim í einhverja hefðbundna bása og gera þetta að einni lífrænni heild.

Í þessum umræðum vakti einn lærður skólafrömuður athygli á því, að skólinn sem slíkur væri mjög íhaldssöm stofnun. Hann hafði fyrir sér einhverjar tölur um það af rannsóknum, ég held á bandarísku skólakerfi, að um hálf öld hefði liðið frá því að hugmynd hefði öðlast almannafylgi meðal skólamanna þangað til hún væri framkvæmd að l/3 hluta í skólakerfinu. M.ö.o.: hann komst að þeirri niðurstöðu að skólinn væri rammíhaldssöm stofnun.

Nú gerum við okkur allt aðrar hugmyndir um verkalýðshreyfinguna. Verkalýðshreyfingin er nærri því byltingarafl í vitund sumra. Þar eru blóðrauðir bolsar, menn með stóran rauðan klút, og menn gera sér þær hugmyndir um verkalýðsforingja að þetta séu menn sem boða róttækar hugmyndir, gagngerar umbætur, uppstokkun á þjóðfélaginu. (HBI: Og horaðir.) Og ...? (HBI: Ég sagði horaðir.) Eru þeir til líka? Ég ætlaði ekki að leggja út af umræðum þingskrifara um holdafar verkalýðsforingja. Ég held að það skipti ekki meginmáli. Líkingin er þarna milli skólakerfis og verkalýðshreyfingar, milli hinna íhaldssömu stofnana.

Ég hygg að reynslan kenni okkur að auðvitað var verkalýðshreyfingin róttæk á vissu skeiði. Ég hika jafnvel ekki við að segja að hún hafi verið í bernsku sinni og á unglingsárum róttækasta aflið í baráttu fyrir mannréttindum á Íslandi. Skipulag hennar og starfshættir mótuðust auðvitað af þjóðfélagsveruleikanum, sem ríkjandi var þegar verkalýðshreyfingin náði hér að festa rætur. Sá þjóðfélagsveruleiki var tiltölulega fábreytilegur. Atvinnuskiptingin var fábreytt. Menn voru verkamenn, menn voru sjómenn og menn voru iðnaðarmenn og skipuðu sér í félög eftir því. Ég hirði ekki um að fara langt út í sögu, en það er staðreynd að fyrstu og öflugustu félögin voru meðal hinna skólagengnu og iðnlærðu.

Í stórum dráttum búum við við þetta kerfi enn þann dag í dag. Nú er ég ekki að ræða um inntak eða hugmyndir eða starfshætti, ég er að tala um þetta skipulag. Síðan er liðinn langur tími. Það þarf ekki að tíunda það nákvæmlega að íslenski þjóðfélag hefur tekið algjörlega stakkaskiptum. Við búum við miklu flóknari þjóðfélagsveruleika, miklu flóknari starfaskiptingu. Það má segja sem svo, að menn sjái litið fram í tíðina, en við vitum að við erum á þrepskildi ákaflega örra breytinga.

Verkalýðshreyfingin var nú ekki alveg blind á það, að sá skipulagsrammi, sem henni var búinn af frumherjunum í öndverðu, hæfði henni kannske ekki alla tíð. Þessi flík var farin að standa á beini. Hún var jafnvel farin að koma í veg fyrir að þau markmið, sem hún setti sér, næðust. Þess vegna er það, að fyrir u.þ.b. aldarfjórðungi var það niðurstaða á Alþýðusambandsþingi að þar voru samþykktar einróma álitsgerðir nefndar sem lagði til að skipulagi Alþýðusambands Íslands, verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, yrði gjörbreytt í grundvallaratriðum. Þetta mál fékk mikla umfjöllun og var rækilega skoðað. Það var milliþinganefnd starfandi. Menn leituðu upplýsinga frá nágrannalöndunum. Hingað kom danskur starfsmaður verkalýðshreyfingarinnar, vann hér nokkuð lengi með nefndinni og flutti mikinn fróðleik. Sett var saman grg. og tillögur um skipulagsmál Alþýðusambands Íslands og frá því gengið árið 1960. Síðan er liðinn fast að aldarfjórðungur. Og staðreyndin er sú, að þrátt fyrir þessa gæfulegu umfjöllun í byrjun er svo komið að hreyfingin sjálf hefur látið þessar tillögur, sem hún lýsti einróma fylgi við, sofna svefninum langa í aldarfjórðung, heilan aldarfjórðung. Ég vitnaði til þess dæmis um skólakerfi, að það liði jafnvel hálf öld frá því að hugmynd næði almennu samþykki þangað til hún kæmist til framkvæmda að litlum hluta. Nú er spurningin: Þurfum við enn að biða í aldarfjórðung, þarf að líða hálf öld þangað til verkalýðshreyfingin sjálf, forustumenn hennar, trúnaðarmenn hennar fara að vinna að því í alvöru að koma á því skipulagi sem þeir hafa sjálfir sí og æ og endurtekið lýst sig fylgjandi og lýst sem bráðnauðsynlegu og aðkallandi?

En er heimilt að setja um þetta lög? Þetta er kannske hið stóra deilumál. Auðvitað væri æskilegast að hér þyrfti ekki að setja nein lög. Auðvitað væri æskilegast að þessi mál hefðu eðlilegan framgang innan hreyfingarinnar sjálfrar, væru þar afgreidd með lýðræðislegum hætti og framkvæmd. En ég segi fyrir mína parta að ég met þau rök gild, sem flutt voru hér um hinar sögulegu staðreyndir, að hér var sett löggjöf á sínum tíma um samskiptareglur aðila á vinnumarkaði, um samningsrétt o.fl., um kjaramál. Þó að verkalýðshreyfingin hafi að stórum hluta brugðist hart við á þeim tíma vitna nú margir verkalýðsleiðtogar til þessarar löggjafar sem eins konar „Magna Carta“, sem eins konar réttindaskrár, sem sé svo alfullkomin að henni megi ekki breyta þó að hún hafi verið sett á árinu 1938, þ.e. fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldar, áður en mesta breytingaskeið, sem orðið hefur í Íslensku þjóðfélagi, rann upp. Verkalýðsleiðtogar vitna oft til þess, að verkalýðshreyfingin sé fyrst og fremst samstaða fólks; að hugsjón hennar sé að efla samstöðu þeirra sem hafa ekki annað að selja á vinnumarkaðnum en sitt eigið vinnuafl og það sé styrkur samtakanna að skipuleggja þetta fólk í eina heild, virkja kraft þess, en sundra því ekki. Það er kannske kjarni málsins. Núverandi skipulag, samkv. álitsgerð samþykktri af Alþýðusambandsþingum, er þess eðlis að það sundrar fólkinu á vinnustöðunum í stað þess að sameina það.

Þetta mál, sem hér er flutt, er ekki nema lítill hluti af þessari heild. Það er í raun og veru ekki um annað en að ryðja úr vegi lagalegri hindrun; að heimila að fólk, þar sem tiltekinn lágmarksfjöldi er á stórum vinnustöðum, geti myndað vinnustaðafélög. Það leysir út af fyrir sig ekki málið. Það getur verið spor í rétta átt og þó kann það að vera álitamál hverjar afleiðingarnar yrðu í reynd, ef menn eru að hugsa um endurskipulagningu verkalýðshreyfingarinnar í anda samþykktar Alþýðusambandsþings. Þetta er partur af heild. En miklu meira máli skiptir, að mínu mati, hver verða örlög hinnar aldarfjórðungsgömlu samþykktar Alþýðusambandsþingsins sjálfs.

Herra forseti. Mig langar til þess að vitna örfáum orðum í rökstuðning, sem fram kemur í þessari aldarfjórðungsgömlu álitsgerð fyrir því að breyta skipulagi Alþýðusambands Íslands. Í kafla sem nefnist „Skipulag, kostir þess og gallar“ eru gallarnir tíundaðir. Á það er bent, að verkalýðsfélögin í landinu eru orðin ótrúlega mörg. Þau eru fámenn og þau eru fjarri því að geta veitt meðlimum sinum þá þjónustu sem nauðsynleg er, aðstoð við samningsgerð, við það að leita réttar síns í öllum þeim frumskógi reglugerða, lagasetningar og stofnana sem forustumenn verkalýðshreyfinga eðlilega þurfa að leita til fyrir hönd sinna umbjóðenda. Til þess var vitnað þá, að Alþýðusambandið skiptist í 161 félag, og hefur fjölgað síðan. Flest þessara félaga voru sárafámenn. Aðeins fimm félög töldu yfir þriðjung allra meðlima Alþýðusambandsins á þeirri tíð. Tæplega 90 félög höfðu færri en 100 félagsmenn. Þar af voru mörg þeirra með sárafáa meðlimi.

Samningsrétturinn samkv. gildandi reglum liggur hjá þessum félögum. Reynslan er auðvitað sú, að þau framselja þennan samningsrétt til stærri félagsheilda. Engu að síður fundu menn til þess, að þessi skipulagsrammi væri ekki æskilegur. Í fyrsta lagi, eins og vitnað var til í upphafi, er mönnum þarna sundrað í félög eftir starfsgreinum. Verkamenn eru sér, ófaglærðir eru sér, sjómenn eru sér, verkakonur sér og allir hinir iðnlærðu faghópar síðan sér.

Alþýðusambandsmenn kvörtuðu mjög undan því, að heildarþing Alþýðusambandsins, sem er valdamikil samkoma og þarf að ráða ráðum verkalýðs. hreyfingarinnar í heild. væri óhæfilega fjölmennt. Það væri svo fjölmennt að það væri í raun og veru varla til þess bært sakir fjölmennis að ræða málefni hreyfingarinnar ítarlega eða afgreiða þau með eðlilegum hætti. Í raun og veru þyrfti Alþýðusambandsþing að vera með svipuðum hætti og Búnaðarþing, sem situr drjúgan part úr árinu. Búnaðarþing er nú ekki mjög fjölmennt. Það nýtur hins vegar ótvíræða ríkulegri þjónustu af hálfu ríkisvaldsins. Það mun vera kostað af ríkinu og eiginlega lítið á það sem ríkisstofnun. Sem betur fer er nú ekki svo komið fyrir verkalýðshreyfingunni að hún sé orðin deild í félmrn., ekki enn a.m.k. En þetta var umkvörtunarefnið, að þarna er saman kominn ægilegur fjöldi fólks víðs vegar af landinu úr ýmsum starfsgreinum og fjölmennið er slíkt, að málabúnaður verður raunverulega að mötun frá toppnum og niður úr, þau fást ekki rædd.

Þriðja atriðið, sem var tíundað sem megingalli, var að vinnustaðir, ekki síst hér í þéttbýlinu, verða smám saman fjölmennari og þar starfa saman á einum vinnustað í einu fyrirtæki menn sem vinna ólík störf, hafa ólíka faglega menntun, en tvístrast í mörg verkalýðsfélög. Þeir hafa allir að vissu leyti sameiginlegra hagsmuna að gæta, en þeim er sundrað. Oft er nefnt þetta fræga dæmi frá Flugleiðum, þar sem félögin sem við er að semja eru tæplega 40. Auk þess stendur á prenti í bók, sem nefnd er „Hvernig kaupin ganga á eyrinni“, að samningarnir sjálfir, sem verið hafa í gangi fyrir þetta fyrirtæki, hafa farið yfir 500. Ég tek ekki ábyrgð á þeim tölum, enda farið með eftir minni, en þetta dæmi nægir og þetta er ekkert einsdæmi. Að vísu mun þetta vera hrikalegt dæmi, en dæmin eru mörg hin sömu.

Á stærri vinnustöðum er það ekkert óalgengt að starfsfólkinu sé tvístrað í þetta 10–15 félög, hvert um sig með sinn samningsrétt. Að vísu er það svo í flestum tilvikum, að samningsréttur er framseldur og samið í heildarsamflotum, en engu að síður vitum við að þetta skipulag er kjörið til að brjóta niður það, sem á að vera æðsta boðorð launþegahreyfingarinnar. sem er „solidaritet“, samstaðan. Þetta er skipulag sem hentar ákaflega vel fámennum forréttindahópum, sem hafa sterka samningsaðstöðu á markaðnum einmitt vegna fámennisins og geta í krafti þess lamað heilu atvinnuvegina. Þeir breyta kjarabaráttunni úr því að vera togstreita við vinnuveitandann í skæruhernað við félaga sína.

Spurt er: Er þetta einkamál hreyfingarinnar sjálfrar? Flm. spyr: Hvað er hreyfingin? Hreyfingin eru þúsundirnar, á sjötta tug þúsunda. Einhvern veginn hygg ég að allur þessi mikli fjöldi, sem auðvitað á hér hagsmuna að gæta, hafi ekki verið mikið til kvaddur til þess að fjalla um þessi mál. Þessi mál hafa verið í höndum forustumanna, nefnda og ráða. Það skortir mikið á að þessum málum hafi verið skírskotað til vinnustaðanna.

Það er orðið umkvörtunarefni og það er orðið hættulegt fyrir verkalýðshreyfinguna í heild þegar það ástand er orðið venjulegt og þykir óviðráðanlegt, að þjóðfélagið búi við það í hverri einustu viku allan ársins hring að einhver hópur skeri sig út úr, setji fram kröfur, gangi út af vinnustöðum, ekki síst einmitt ýmsir hópar opinberra starfsmanna, sérhæfðir hópar, sem hafa sterka samningsaðstöðu, brjóti niður allt sem heitir kjarasamningakerfi, skapi ævinlega ný og ný fordæmi, ýti undir sífelldan samanburð og sífelldan skæruhernað á vinnumarkaðnum, sem er í því fólginn að hóparnir eru að bera sig saman, breyti kjarabaráttunni í skæruhernað innbyrðis. Skipulag sem ýtir undir slíkt, elur á slíku, er slæmt. Það er aldarfjórðungur frá því að Alþýðusambandsþing samþykki einróma að þetta skipulag eigi að leggja niður.

Reynslan síðan sú samþykki var gerð er vissulega þess eðlis, að hún hefur styrkt röksemdir þeirra framsýnu manna, sem lögðu þessar tillögur fyrir ASÍ-þing upphaflega, og fengu þær samþykktar. Reynslan er nefnilega sú, að í þessum frumskógi hafa fámennustu hóparnir, hópar sem hafa mjög sterka samningsaðstöðu, njóta jafnvel sérstakra forréttinda, sýnt það og sannað að þeir geta notað aðstöðu sína til þess, ekki síst þegar harðnar á dalnum, þegar lítið er til skiptanna, að skara eld að sinni köku, tryggja sína hagsmuni, en gera það þá raunverulega á kostnað þeirra fjölmörgu sem verri hafa aðstöðu og eru skildir eftir síðastir. Þetta er niðurstaðan. Þetta er reynslan af heildarkjarasamningum, stóru samflotunum, allan s.l. verðbólguáratug. Margar aðferðir hafa verið reyndar. Hvað eftir annað hefur því verið yfir lýst fyrir samninga að tryggja beri hag þeirra sem skarðastan hlut bera frá borði. En það hefur ekki tekist. Ef forustumenn Alþýðusambandsins hefðu borið gæfu til þess að fylgja eftir eigin samþykktum, eyða tortryggni, tregðu og andstöðu gegn þessum skipulagsbreytingum og komið á því skipulagi að sameina fólkið án tillits til sérgreina, án tillits til fagmenntunar í heilu atvinnuvegunum, þá vaknar sú spurning: Væri ekki líklegt að þá hefði tekist betur að koma til skila raunverulegri jafnlaunapólitík, að draga úr launamismun, að koma í veg fyrir þá þróun, sem er orðin í vaxandi mæli og nærri því að verða regla, að opinberar upplýsingar um kaup og kjör, um raunverulaga greidd laun, er ýmist ekki að hafa eða ekkert á þeim að hyggja vegna þess að greiðslurnar fara fram raunverulega undir borðið?

Þetta er mál sem varðar verkalýðshreyfinguna sjálfa og þetta er mál sem varðar þjóðfélagið í heild: Hvar á samningsrétturinn að liggja? Ég hef alveg mótaðar skoðanir á því og það vill svo til að þær fara alveg saman við það álit, við þær samþykktir sem fram koma í grg. og tillögum um skipulagsmál Alþýðusambands Íslands og beðið hafa framkvæmdar í aldarfjórðung. Ég hef ekkert við það að athuga að samningsrétturinn liggi í einstökum félögum. En ég tel það vera lykilatriði að skipulag Alþýðusambandsins sé þannig, að þeir sem starfa saman og eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í einum og sama atvinnuveginum séu í sameiginlegu félagi á vinnustaðnum, án tillits til sérmenntunar. Þeir myndi síðan sameiginlegt atvinnuvegasamband, sem geti farið með samningsrétt, ef þeir svo kjósa. Þetta er mikilvægt til þess að stuðla að launajafnrétti. Þetta er líklegri leið til þess að draga úr launamisrétti og hvers kyns neðanjarðarstarfsemi í sambandi við kaup og kjör. Þetta er rétt leið til þess að raga úr eilífum skærum á vinnumarkaðnum og til þess að auka samábyrgð fólksins á vinnustöðunum og í atvinnuvegunum. Þetta er leiðin til þess að draga vígtennurnar úr forréttindahópunum, sem skeyta ekkert um hinn mikla breiða fjölda, sem verri aðstöðu hefur. Þetta er fyrsta skrefið í átt til þess að verkalýðshreyfingin geti sjálf gert með siðferðilegum rétti auknar kröfur um aukið lýðræði á vinnustöðum og í fyrirtækjunum. Þeim kröfum verður ekki komið til skila á vinnustöðum, þar sem launþegum sjálfum er skipt upp í 10–20–30 félög, sem öll keppa innbyrðis og skara eld hvert að sinni köku. Þetta er líka leiðin fyrir verkalýðshreyfinguna sjálfa til þess að ráða bót á ýmsum félagslegum meinsemdum sem hana hafa hrjáð í allt of ríkum mæli á undanförnum árum. Þetta er leiðin til þess að losa um sjálfskipaða fámennisstjórn og smákóngaveldi. Þetta er leiðin til að draga úr forræði pólitískra flokka yfir verkalýðsfélögunum og verkalýðshreyfingunni, sem er brýnt mál. Auðvitað er margt í starfi verkalýðshreyfingarinnar hápólitískt, en þar með er ekki sagt að hún eigi að vera ambátt eða senditík pólitískrar flokksforustu einhverra flokka, sem gera tilkall til þess að vera þar allsráðandi. Þess vegna er það brýnt, að verkalýðsleiðtogar, þeir sem valist hafa til trúnaðarstarfa í þessari hreyfingu, dragi það ekki í annan aldarfjórðung að koma þessum bráðnauðsynlegu og aðkallandi umbótum til skila. Þeir eiga að beita sér fyrir því að vinna bug á tregðulögmálinu. Þeir eiga að setja smákóngunum stólinn fyrir dyrnar. Þeir eiga að gera þá kröfu, að flokkapólitíkin og flokksræðistilhneigingin víki í hreyfingunni. Og þeir eiga að vinna bug á þeim andstæðum sem eru milli dreifbýlis og þéttbýlis, sem vissulega gætti upphaflega í andstöðu við þessa tillögu.

En það er enn spurt: Má lögfesta? Ég spyr enn: Ef svo fer að hraði snigilsins verður enn ráðandi á þá að bjóða mönnum upp á að bíða þolinmóðir eftir því að ekkert gerist í nýjan aldarfjórðung, fram yfir aldamótin 2000? Við höfum ekki tíma til að bíða miklu lengur. Má ég vitna til fordæmis úr því fyrirmyndarríki sósíaldemókratís og verkalýðshreyfingar á Norðurlöndum sem heitir Svíaríki. (Forseti: Fundartími styttist nú mjög, 2 mínútur.l Já, það dugar. — Þar gerðist það árið 1938 að sósíaldemokratísk ríkisstjórn lagði fram frv. í sænska þinginu, þar sem settur var með lögum rammi utan um samskipti aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega út frá samningsréttarmálum. En þessi lög áttu ekki að taka gildi fyrr en innan tveggja ára og því aðeins áttu þau að taka gildi að ekki hefði í millitíðinni tekist samkomulag af frjálsum og fúsum vilja milli verkalýðshreyfingar og annarra aðila vinnumarkaðarins um að haga starfsháttum og skipulagi á þann veg að samningsrétturinn yrði í atvinnuvegasamböndum og samningar færu fram á sama tíma. Það tókst. Það tókst þegar búið var að loka báða aðila inni ég held svo skipti nokkrum vikum. Þeir rétt sluppu með samkomulag þegar upp var staðið. Það mátti líkja þessu við páfakjör.

Ef engin hreyfing fæst á þetta mál verður ekki hjá því komist að löggjafarvaldið láti sig það varða að þjóðfélagið leysist ekki upp í eilíft „anarkí“ og skæruhernað fámennra forréttindahópa um kaup og kjör. Það er verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar að leysa málið. Hún hefur mótað rétta stefnu. Það er æskilegt að hún leysi málið sjálf. En við höfum ekki tíma til þess að bíða í hálfa öld í viðbót.