16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

40. mál, Kvikmyndasjóður Íslands

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Nefnd sú sem hér hefur komið til umr. og starfaði vel sumarið 1981 skilaði af sér drögum að frv. haustið 1981 eða fyrir 14 mánuðum síðan. Nefndin starfaði undir forustu Indriða G. Þorsteinssonar rithöfundar eins og hér hefur komið fram. Með því að standa hér í ræðustól á Alþingi og segja að nefndin hafi ekki unnið sómasamlega, eins og það er orðað, held ég að hæstv. menntmrh. sé að slá eitt Íslandsmetið til í sínum mátflutningi og störfum í rn. Málið er auðvitað það að þessi drög voru fullfrágengin. Og hæstv. ráðh. verður að forláta þó að sá óstaðfestur grunur kunni að manni að læðast, að hér sannist það sem Einar Benediktsson sagði, að vilji er allt sem þarf, en það sé hann sem hafi skort að þessu sinni.

Ég vil svo, herra forseti, minna á að í janúar 1980 var flutt frv. um Kvikmyndasjóð. Það var ekki um kvikmyndasafn eins og hér er einnig. Það frv. var samið í menntmrn. og gerði ráð fyrir tveimur meginreglum. Sú fyrri var að innlend kvikmyndagerð, sem er eitthvert þróttmesta sóknarafl íslenskra lista um þessar mundir, yrði fjármögnuð með skatti á erlendar kvikmyndir, sem mér finnst nú satt að segja vera nokkuð skynsamleg leið, jafnvel þótt kvikmyndahúsin kvarti yfir sköttum. Í annan stað, herra forseti, er þar gert ráð fyrir svokallaðri „sólarlagsaðferð“. M.ö.o., þetta stæði ekki nema til fjögurra ára til reynslu. Þá féllu lögin úr gildi, þyrfti að endurnýja þau. Málinu var vísað til ríkisstj. Nefndin var skipuð. Hún skilaði af sér. Síðan eru liðnir 14 mánuðir. Það er, herra forseti, 10 mánuðum of mikið.