16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

270. mál, endurbygging Egilsstaðaflugvallar

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt þó að Austfirðingarnir spyrji um flugvöllinn sinn á Egilsstöðum. Sérkennilegur flugvöllur dálítið og þó að hann sé svona langt inni í landi er hann líklega einn lægsti flugvöllur sem til er á landinu, nema kannske á Ísafirði og Siglufirði, aðeins 60 fet frá sjávarmáli eða 20 metra. Ég kannast aðeins við þær áætlanir sem voru gerðar hér um árið um flugvöll á Snjóholtinu. Hann hafði vissulega talsverða kosti, en einnig galla, sem líklega reynast meiri þegar betur er skoðað, auk þess sem hann er lengra frá Egilsstöðum, eina 5–6 km, og býður upp á ýmsa erfiðleika.

Þannig er með flugvöllinn á Egilsstöðum, að þar er orðið sæmilegt aðflugskerfi. Aðflugið er nokkuð krókótt að vísu og æskilegra væri auðvitað að hægt væri að taka upp beinna aðflug og öruggara. Ég tel að þegar menn meta þessa kosti, líklega tvo, sem helst koma til greina, að endurgera flugvöllinn sem fyrir er, sjálfsagt með talsverðum kostnaði, jarðvegsskipti og fleira, eða þá að fara á Lagarfljótsbakkana, þá yrði helsta atriðið, sem ætti að ráða því hvaða möguleiki verði valinn, auðvitað kostnaðarþátturinn, sem hlýtur að vega býsna þungt. En fyrir utan hann tel ég að aðflugsþátturinn og sérstaklega lágmörkin eigi að koma næst, þ.e. að vera í fyrstu röð þegar kostnaðinum sleppir, því að þannig er auðvitað eins og annars staðar háttað að stundum er býsna lágskýjað og erfitt að lenda t.d. á vellinum með þeim tækjum sem nú eru þarna fyrir austan, en væri líklega í allmörgum tilfellum hægt að lenda við Lagarfljótsbakkana þó að það sé erfitt núna.

En mig langar til að spyrja að lokum, herra forseti, aðeins einnar spurningar: Til hvers eru menn að velta vöngum yfir því að þarna eigi stórar þotur að geta lent? Það hlýtur að auka kostnaðinn óhóflega mikið miðað við gagnsemi.