17.11.1982
Efri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

80. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig u m að segja örfá orð í tilefni þessa frv. og þeirrar ræðu sem hæstv. sjútvrh. flutti hér áðan. Sannleikurinn er sá, að tilraunin með Eldborgina og ekki síður hversu góðan stuðning það mál hefur fengið er sannarlega ánægju- og þakkarvert og vænta má þess einnig að framhald verði þar á, eins og hæstv. ráðh. kom inn á.

Hann minnti á þann ágæta skipstjóra Magna Kristjánsson, sem hefur verið óþreytandi að benda á möguleika okkar í kolmunnaveiðum og vinnslu þeirra afurða. Hann hefur manna skýrast bent á hvílík búbót öðrum hefur reynst þessi fisktegund. Annar ágætur Norðfirðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Sigurjón Arason, hefur svo, m.a. í samstarfi við Magna, bent á möguleikana í vinnslu þessara afurða sérstaklega til manneldis og sameiginlega hafa þeir hvatt til þess, eins og hæstv. ráðh. kom reyndar inn á, að átak yrði gert til að fá úr réttmæti þessara fullyrðinga skorið. Þeir hafa með réttu bent á reynslu annarra og markaðsmöguleika fyrir kolmunnamarning, bæði til manneldis og til gæludýrafóðurs einnig, samhliða því að þeir hafa bent á aðrar verkunaraðferðir til herslu og frystingar. Á undanförnum þingum hef ég að þeirra áeggjan og með þeirra rökum flutt um það þáltill. að vinnslustöð yrði reist eða komið á fót eystra með þessa hagnýtingu í huga.

Í erindi, sem Björn Dagbjartsson flutti á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í fyrra í Neskaupstað, benti hann réttilega á, að sú eina fiskafurð sem við gætum vænst af verulegrar aukningar í verðmætum í framtíðinni væri kolmunninn og þar lagði hann einmitt aðaláherslu á svipaða vinnslu og verið er að gera tilraun með á Eldborginni nú, þó að hann reiknaði auðvitað með að ef sú reynsla yrði góð yrði þar verulegt framhald á.

Tilraunaveiðar til bræðslu hafa ekki, eins og komið var inn á, gefið þá raun er menn höfðu vænst, en nú er aðeins að vænta þess að betri árangur verði af þessari tilraun og aðgerðum í kjölfar hennar, ef vel tekst til.

Ég hef satt að segja oft undrast tómlætið í kringum þetta mál hér á þingi og litla áherslu annarra á þessu máli úti í þjóðfélaginu, einkum meðal útvegsmanna, en vonandi er þar úr að rætast. Ég bendi á að miðað við reynslu Færeyinga, að ekki sé nú minnst á Rússa, hljótum við með markvissum aðgerðum að geta náð árangri sem gerir hvoru tveggja að skapa einhverjum hluta flotans ný og aukin verkefni, svo sem fram hefur komið hér reyndar, og um leið afla dýrmætra gjaldeyristekna.

Ég veit að það er margt ógert í þessu máli og margt sem á eftir að koma betur í ljós. Þar er t.d. um að ræða markaðsmálin, sem auðvitað eru í nokkurri óvissu, markaðsöflun, vegna þess að aðrar þjóðir hafa þegar haslað sér þar duglega völl, ef þessi tilraun heppnast og ef af fullri alvöru verður unnt að ganga til þess að veiða kotmunnann í stórum stíl svo sem aðrar þjóðir hafa gert. Og þá vona ég svo sannarlega, að til viðbótar við þá aðstöðu, sem sköpuð verður til vinnslu í skipunum og ég geri ekki lítið úr, verði þess ekki langt að bíða að einnig verði full þörf á þeirri vinnslustöð eystra sem gæti alhliða sinnt hvers konar tiltækri meðferð þessarar afurðar. Verði svo hafa þeir Magni og Sigurjón og fleiri góðir menn, sem þarna hafa að starfað, ekki til einskis barist. Þess vegna hlýt ég að lýsa því yfir hér, að ég met sérstaklega og þakka stuðning ráðuneytisins, því að hvort sem líður lengri eða skemmri tími þar til vonir þeirra verða að raunveruleika, sem þeir telja fyllilega raunhæfan og studdan gildum rökum, þá er eitt víst, að þarna eru möguleikar sem verður að huga að eins myndarlega og kostur er.

Þetta skref á aðeins að vera hið fyrsta, ef vel tekst til, því eins og þeir trúi ég staðfastlega á að hér sé um mikinn framtíðarauð að ræða, sem við eigum svo sannarlega ekki að láta aðra hirða frá okkur rétt við okkar eigin fiskveiðilögsögumörk. Þess vegna segi ég það enn og aftur, að það ber að fagna þessu frumkvæði. Það ber að styðja þetta frv., sem auðveldar þessa tilraun, og sækja svo markvisst fram í framhaldinu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef að þessu máli verður vel staðið heppnast þetta. Þá getur það varla annað en heppnast miðað við reynslu annarra.

Eins og hæstv. ráðh. kom inn á kemur svo Magni Kristjánsson skipstjóri vonandi enn inn í myndina rækilega með nýtt og gott skip, sem vonandi reynist farsælt til þessara veiða og verkunar þessarar dýrmætu afurðar sem við verðum að reyna að ná tökum á.

En ég gat ekki stillt mig um að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir mikinn stuðning í þessu máli og sérstakan velvilja, og er greinilegt að hann hefur gert sér fulla grein fyrir því að þarna er um framtíðarmál að ræða, sem varðar miklu að vel takist til um og við eigum sem allra fyrst að taka þátt í.