17.11.1982
Efri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

72. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 64 frá 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Þegar lög þessi voru sett mörkuðu þau tímamót í rannsóknum í þágu íslenskra atvinnuvega. Þær rannsóknir höfðu um árabil fyrst og fremst þróast hjá Atvinnudeild Háskólans, sem sett var á stofn í tengslum við Háskólann 1937, en var síðan undir yfirstjórn Rannsóknaráðs ríkisins sem sett var á fót 1939. Deildir þær sem þar þróuðust sprengdu fljótlega af sér bæði það húsnæði og fleira, sem þeim var ætlað á háskólalóðinni, og dreifðust þá um bæinn. Því þótti nauðsynlegt árið 1965 að athuga það skipulag frá grunni, og alveg sérstaklega var markmiðið með lagasetningunni 1965 að tengja þessar stofnanir viðkomandi atvinnuvegum langtum betur en áður var.

Þá voru deildir Atvinnudeildar Háskólans gerðar að sjálfstæðum stofnunum og sömuleiðis rannsóknastofa Fiskifélags Íslands. Þessar stofnanir hafa síðan þróast á þennan veg í samstarfi við Rannsóknaráð ríkisins, sem hefur síðan haft meira með heildarskipulagningu, áætlanagerð og samræmingu á rannsóknastarfseminni að gera.

Ein af þeim stofnunum sem þá var breytt úr deild við Atvinnudeild Háskólans í sjálfstæða stofnun er Hafrannsóknastofnunin. Hafrannsóknastofnunin hefur síðan eflst mjög. M.a. er gert ráð fyrir í frv. til fjárlaga í ár að verja til starfsemi hennar 60 millj. kr. Hafrannsóknastofnunin er eins og að líkum lætur langsamlega stærsta og umfangsmesta rannsóknastofnun landsins.

Undanfarin ár hafa verið nokkrar umræður um nauðsyn þess að breyta lögum um Hafrannsóknastofnun og taka þá mið af þeirri reynslu sem fengin er á tímabilinu frá 1965, taka einnig tillit til þeirrar þróunar sem orðið hefur í sjávarútvegi og skipuleggja stofnunina í samræmi við vöxt hennar og viðgang. Þess vegna skipaði ég í ágúst s.l. nefnd til að athuga rekstur og skipulag Hafrannsóknastofnunarinnar. Frv. það sem hér liggur fyrir er samið af nefndinni. Í nefndinni eiga sæti Jón L. Arnalds ráðuneytisstjóri, sem er formaður, Geir Gunnarsson formaður fjvn. Alþingis, Jón Jónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Magnús Pétursson hagsýslustjóri, Már Elísson fiskimálastjóri og Vilhjálmur Lúðvíksson framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins.

Nefndin gerði till. um þær lagabreytingar sem hér eru lagðar fyrir og eru þær fluttar einróma af nefndinni. Helstu nýmæti í þessu frv. eru þau sem nú skal talið: Í frv. er ákveðið að við stofnunina skuli starfa tveir aðstoðarforstjórar. Þetta ákvæði á sér nokkra sögu. Þegar á árinu 1975 var rætt um að gera breytingar á stofnuninni í þessa átt, með því að setja á stofn starf útgerðarstjóra, sem hefði á hendi daglega stjórn fjármála vegna reksturs rannsóknar- og leitarskipa. Þá var hugmyndin að starfslið stofnunarinnar, sem vinnur að útgerð og rekstri skipanna, þar með taldar áhafnir skipanna, heyrðu undir útgerðarstjóra. Þessi hugmynd var mikið rædd m.a. af stjórn stofnunarinnar og sérfræðingum og gerð voru drög að frv. til laga í þessa átt. Ekkert varð meira úr þessari hugmynd þá, en þó var þegar á árinu 1975 ráðinn sérstakur maður til að annast ráðningu skipshafna og hafa á hendi umsjón og varðveislu tækja. Starfar sá maður enn að þeim viðfangsefnum.

Fyrir nokkrum árum voru svo ráðnir með ráðherra — bréfi tveir aðstoðarmenn forstjórans, sem jafnframt voru deildarstjórar ákveðinna rannsóknadeilda stofnunarinnar. Þessir aðstoðarmenn forstjóra hafa sjálfkrafa tekið við störfum forstjóra í fjarveru hans og annast þá rekstur og stjórn stofnunarinnar, að svo miklu leyti sem forstjóri hefur falið þeim það. Þeir eru því í raun og veru fulltrúar forstjóra og aðstoða hann við daglegan rekstur.

Nú er í þessu frv. gert ráð fyrir því að lögfesta þessar stöður, en þó þannig að einungis annar aðstoðarforstjórinn sé vísindamaður á sviði hafrannsókna, en hinn aðstoðarforstjórinn verði fjármála- og rekstrarstjóri stofnunarinnar.

Ég sagði áðan að Hafrannsóknastofnun hefði vaxið fiskur um hrygg. Er ætlað til hennar verulegt fjármagn. Hér er orðið um rekstur á stóru fyrirtæki að ræða. Því er talið nauðsynlegt að ráða sérstakan mann með menntun og sérþekkingu á sviði stjórnunar og rekstrar. Hér er m.a. um að ræða umfangsmikinn skiparekstur og mikla veltu fjármagns. Ég nefndi að á frv. til fjárlaga nú er áætlað að stofnunin fái 60 millj. kr. Stofnunin gerir út fjögur rannsóknaskip auk leiguskipa. Meira en helmingur af fjármagni stofnunarinnar rennur til skiparekstursins. Þessum manni er einnig ætlað, auk þess sem hann fjallar um þennan rekstur, að annast gerð fjárveitingabeiðna stofnunarinnar, útgjaldaáætlana, kostnaðaráætlana rannsóknarleiðangra í samvinnu við forstjóra og samræma starfsemi deilda og útibúa með tilliti til sem bestrar hagkvæmni og nýtingar. Þá er eðlilegt að fjármálalegur forstjóri annist starfsmannahald stofnunarinnar, uppáskrift reikninga og annað reikningshald og fjárreiður sem ekki er í verkahring Skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna. Allar beiðnir um meiri háttar útgjöld þurfa samt að samþykkjast fyrir fram af forstjóra.

Það er mikill ábyrgðarhluti að ekki sé til staðar á stofnuninni maður, sem alfarið helgar sig fjármálum hennar, sérstaklega rekstri skipanna, og hafi til þess þekkingu og menntun. Með þessu er ekki verið að kasta nokkurri rýrð á þau störf sem vísindamenn hafa unnið við rekstur þessara skipa. Aðeins er um það að ræða að talið er eðlilegt að vísindamenn beini kröftum sinum að og helgi sig einvörðungu vísindastörfum og létti að sama skapi af sér fjármálarekstrarvafstri, enda má segja að þessi tvö störf séu um margt ólík og fari ekki vel saman.

Þá er rétt að nefna í þessu sambandi að nefnd, sem samgrn. setti á fót í október 1981 til að endurskoða reglur um rekstrardeild ríkisskipa, hefur nú skilað áliti. Nefndin leggur til að rekstrardeildin verði afnumin og lögð niður. Það er lagt til að fjárvarsla og bókhald Hafrannsóknastofnunar verði að öllu leyti hjá Skrifstofu rannsóknastofnunar atvinnuveganna. Eftirlit með viðhaldi og viðgerðum skipa Hafrannsóknastofnunar verði framkvæmt undir yfirstjórn stofnunarinnar sjálfrar. Jafnframt tekur nefndin fram að hún telji að stefna beri að samstarfi milli Hafrannsóknastofnunar og Skipaútgerðar ríkisins um skipaeftirlit, m.a. með ráðningu sameiginlegs starfsmanns. Ef þetta nál. verður framkvæmt, þ.e. rekstrardeildin lögð niður og ný reglugerð þar að lútandi gefin út, þá flyst að sjálfsögðu hluti af starfi rekstrardeildarinnar til Hafrannsóknastofnunar. Verður þá enn meiri nauðsyn á því að þar sé sérstakur aðstoðarmaður forstjóra sem annast fjármál og rekstur. Ég tek það fram í þessu sambandi að hvort sem verður, þá er þörfin þar mikil. Ég get skotið því hér inn að ég hef lagt umrædda skýrslu fyrir ríkisstj. til meðferðar og verður fjallað um hana þar á næstunni.

Það skal tekið fram að um þetta frv. hafa verið haldnir fundir með starfsfólki Hafrannsóknastofnunar. Þar hefur komið fram að margir á stofnuninni eru andvígir hinni nýju stöðu aðstoðarforstjóra. Í því sambandi er rétt að taka fram að gert er ráð fyrir að þessi staða aðstoðarforstjóra, sem annast skal fjármálalegan rekstur stofnunarinnar, þar á meðal skiparekstur og starfsmannahald, heyri alfarið undir aðalforstjóra. Nú er fjármálastjóra ætlað að aðstoða hann við daglegan rekstur stofnunarinnar, eins og aðstoðarforstjórar gera, en þá að sjálfsögðu á sviði fjármálastjórnar.

Það er líka skýrt tekið fram í 14. gr. að forstjóri hafi á hendi daglega stjórn stofnunarinnar og umsjón með rekstri hennar, þannig að þar er ekkert af forstjóra tekið í þessu sambandi. Og það er tekið fram að forstjóri ákveði starfssvið sérfræðinga og annars starfsliðs. Það er því alls ekki verið að taka ráðin af vísindamönnum heldur aðeins að tryggja að umsjón með fjármálum og rekstri stofnunarinnar sé fyrir komið með ábyrgum og forsvaranlegum hætti.

Þá skal tekið fram að lagt er til í frv. að forstjóri og aðstoðarforstjórar verði skipaðir til fimm ára í senn.

Í frv. er að sjálfsögðu fjallað um stjórn stofnunarinnar og gert ráð fyrir því að skipun hennar verði óbreytt en hún fái aukið hlutverk. Eins og ég gat um áðan var ekki síst að því stefnt með lögunum frá 1965 að tengja rekstur rannsóknastofnananna viðkomandi atvinnuvegi, m.a. með skipun stjórnar sem í sitja fulltrúar frá atvinnugreininni. Þetta hefur að ýmsu leyti tekist vel. Engu að síður er það skoðun mín að ástæða sé til að endurskoða verkefni stjórnarinnar, einmitt til að tryggja enn betur en verið hefur þetta samstarf. M.a. er stjórninni ætlað að taka ákvarðanir um meginatriði í stefnu og starfi stofnunarinnar og gera tillögur um starfs- og fjárhagsáætlanir og tillögur til ráðh. um skipun ráðgjafarnefndar og deildaskiptingu stofnunarinnar. Ennfremur er gert ráð fyrir að stjórnin staðfesti skipaáætlun stofnunarinnar svo og reikninga hennar. Stjórninni er þannig veitt aukin hlutdeild í mótun skipulagsins, sérstaklega deildaskipulagsins og skipun ráðgjafarnefndar, og verður vikið að því.

Í 18. gr. gildandi laga er kveðið á um að til að framkvæma verkefni stofnunarinnar skuli skipta starfseminni í fjögur verksvið. Nú starfar stofnunin hins vegar í níu mismunandi deildum auk fjögurra útibúa, skipareksturs og skrifstofuhalds. Samkv. frv. er gert ráð fyrir að stofnuninni skuli skipta í deildir með ákvörðun ráðh., að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar. Með þessu er leitast við að tryggja frekari sveigjanleika í starfsemi stofnunarinnar, betri nýtingu á mannafla, tækjum og fjármunum í stað þess að deildir myndist í tengslum við áhuga og sérsvið einstakra vísindamanna. Að frumkvæði nefndarinnar hafa þegar farið fram umræður með sérfræðingum stofnunarinnar um núverandi deildafyrirkomulag og framtíðarskipan þessara mála. Þessar umræður eru á byrjunarstigi, en verði frv. að lögum má gera ráð fyrir nokkurri breytingu á deildaskipulagi frá því sem nú er.

Eins og ég nefndi áðan er stjórninni ætlað að gera tillögur um skipan ráðgjafanefndar sem frv. gerir ráð fyrir að ekki verið bundið í lögum eins og nú er. Ráðgjafarnefndin var sett á fót til þess að skapa enn betri tengsl og á breiðari grundvelli við hinar ýmsu hagsmunagreinar í sjávarútvegi. Það verður að segjast eins og er að þetta hefur ekki tekist sem skyldi. Starfsemi ráðgjafarnefndarinnar hefur oft þótt vera nokkuð handahófskennd, eða við skulum segja ekki nægilega markviss og í nægilega miklum tengslum við starfsemi stofnunarinnar annars vegar, áætlanagerð, leiðangra og þess háttar, og hins vegar óskir og vilja atvinnugreinarinnar. Með þeim ákvæðum, sem hér er lagt til að sett verði í lög, er ætlunin að ráða bót á þessu. Ég er þeirrar skoðunar að ráðgjafarnefndin geti sinnt og eigi að sinna mjög mikilvægu hlutverki.

Eins og ég nefndi, þá er stjórninni ættað að gera tillögur til ráðh. um skipun nefndar hverju sinni. sem fskj. með frv. eru birt drög að erindisbréfi fyrir ráðgjafarnefnd stofnunarinnar, þar sem er að finna tillögu að lista yfir þá sem tilnefna skulu fulltrúa í nefndina til fjögurra ára í senn. Það skal tekið fram að til þessa bréfs hefur út af fyrir sig ekki verið tekin endanleg afstaða. En tillagan er sett hér fram til athugunar fyrir hv. sjútvn.

Þegar hafa komið fram ábendingar um fleiri aðila í þessa nefnd og verður ákvörðun um skipun hennar tekin á sinni tíð, ef frv. verður að lögum. Ráðgjafarnefndinni mundi verða falið langtum víðtækara starfsvið en áður, t.d. að fjalla um starfsáætlanir og rannsóknarverkefni stofnunarinnar og gera tillögur um verkefnaval og starfshætti. Samkv. erindisbréfinu skal hún koma saman eigi sjaldnar en tvisvar á ári, vor og haust, en oftar eftir þörfum. Að vori skal nefndin fjalla um starfsáætlun stofnunarinnar og skulu einstök verkefni hennar vera lögð fyrir nefndina til umsagnar. Að hausti skulu helstu niðurstöður af starfi stofnunarinnar skýrðar og sagt frá verkefnunum sem lokið er. Lögð skulu fyrir drög að nýjum verkefnum og leitað ábendinga eða tillagna nefndarinnar um ný verkefni, sem tekin verði upp í starfsáætlun og lögð fyrir til umsagnar að vori. Nefndin getur rætt og gert tillögur til stjórnar stofnunarinnar um allt er lýtur að stefnumótun, starfsháttum og verkefnavali stofnunarinnar, svo og samskiptum hennar út á við. Þessi verkefni ráðgjafarnefndarinnar verða, svo sem áður gat, sett í erindisbréf.

Gert er ráð fyrir að skipunartími núverandi ráðgjafarnefndar renni út í árslok 1983, þannig að í ársbyrjun 1984 verði skipuð ný ráðgjafarnefnd svo sem hér hefur verið lýst. Eins og heyra má af þessari upptalningu minni er ráðgjafarnefndinni ætlað miklu víðtækara svið heldur en núverandi ráðgjafarnefnd hefur fengið í raun, þó að segja megi að núverandi ráðgjafarnefnd hafi verið frjálst að skoða hver þau mál sem hún óskaði. En ætlunin er að ná með þessu langtum betri tengslum við atvinnuvegina. Þá er rétt að geta þess að markmið Hafrannsóknastofnunar, sem eru skilgreind í 7. gr., eru nokkuð breytt frá því sem nú er. Það er ekki óeðlilegt þegar þess er minnst, að hlutverk Hafrannsóknastofnunar hefur breyst mjög mikið á undanförnum árum. Á fyrri árum var það eitt meginhlutverk stofnunarinnar að finna fiskstofnana og beina flotanum til veiða, en á síðari árum hefur hlutverkið langtum meira færst í það sem við getum kallað að vernda fiskstofnana gegn ofveiði, þ.e. rannsóknir og athuganir sem lagðar eru til grundvallar þeim tillögum sem stofnunin síðan gerir til stjórnvalda um fiskveiðistefnu á hinum ýmsu sviðum.

Í 7. gr. er tekið fram hvaða verkefni stofnunin skuli hafa á hendi. Um þessi verkefni hefur verið mjög ítarlega fjallað, m.a. í sambandi við gerð langtímaáætlunar Rannsóknaráðs ríkisins, og að sjálfsögðu hafa sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar komið þar mjög við sögu. Um markmiðin, eins og þau eru skilgreind nú, er því breið samstaða.

Þá er gert ráð fyrir í 16. gr. frv. að sett verði sérstök ákvæði um útibú stofnunarinnar og er það nýmæli. Lögð er áhersla á að útibúin geti nýst fleirum en Hafrannsóknastofnuninni einni, t.d. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og öðrum rannsóknar- og eftirlitsstofnunum, eftir því sem tækifæri gefst. Forstöðumenn útibúa heyra samkv. frv. beint undir forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar.

Ég vil taka það fram að mér sýnist rétt að þegar hv. sjútvn. fær frv. til umfjöllunar sendi hún það starfsmannafélagi Hafrannsóknastofnunar, forstjóra og stjórn hennar til umsagnar. Nefnd sú sem frv. samdi hefur að vísu, eins og fram hefur komið, haft umræðufundi um efni frv. með sérfræðingum stofnunarinnar. Enn fremur er formaður stjórnar og forstjóri stofnunarinnar í nefndinni, en ég tel þó eðlilegt að fá formlega umsögn þessara aðila svo og annarra hagsmunaaðila í sjávarútveginum.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.