17.11.1982
Efri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

89. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það sem nú er til umr. fjallar um þrjú atriði í lögum um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. í 1. gr. er lagt til að 7. gr. laga nr. 4 frá 1980 verði breytt og orðist eingöngu þannig: „Lög þessi öðlast þegar gildi“. Þessi lög frá 1980 fjalla um ýmis atriði Aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins, m.a. um verðjöfnunardeild hans, og í 7. gr. laganna segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi og taka til afla sem landað er á árunum 1980 og 1981.“ M.ö.o., þótt lögin séu í fullu gildi, þá er í raun og veru fallin niður heimild fyrir verðjöfnunardeild Aflatryggingasjóðs til að greiða á afla sem landað er eftir 1981.

Það verður að segjast eins og er að þetta hefur farið fram hjá mönnum bæði í stjórn Aflatryggingasjóðs og í sjútvrn. Er nauðsynlegt að leiðrétta þetta, enda hefur enginn aðili gert ráð fyrir því að inn í deildina streymdu tekjur en ekki væri heimilt að greiða úr henni, eins og þetta er í raun og veru nú. Lagt er til að úr þessu verði bætt með því að fella niður siðaðri hluta 7. gr., sem ég vísaði til áðan og fjallaði um að ákvæði laganna taki til afla er landað var á árunum 1980 og 1981.

2. gr. frv. fjallar um breytingu á lögum, sem sett voru í fyrra, eftir að hér var fjallað um það á tveimur þingum, og er um greiðslu bóta til grásleppuveiðimanna þegar um aflabrest verður að ræða. Í 2. gr. laganna frá 1982, 1. mgr., segir svo: „Ef afli grásleppubáts er minni en 10 tunnur eða tilsvarandi samanlagt andvirði grásleppuafurða, verður ekki um bótaskyldu að ræða.“ Ég vil geta þess, að þetta var að sjálfsögðu sett til að koma í veg fyrir að bótaskylt yrði til aðila er stunda grásleppuveiðar nánast sem gaman. Nú er hins vegar komið í ljós að aflabrestur er svo mikill fyrir Norðurlandi mest öllu, að fjölmargir grásleppukarlar, sem stunda grásleppuveiðar jafnvel sem aðalbúgrein eða a.m.k. aukabúgrein, fá ekki bætur ef þetta ákvæði stendur óbreytt.

Ég get getið þess sem dæmis, að grásleppukarl einn á Skagaströnd, sem stundað hefur þessar veiðar árum saman, fékk í sumar 29 grásleppur í 29 róðrum. Svo mikill var þessi aflabrestur.

Því er lagt til að greinin hljóði þannig: „Ef afli grásleppubáts er minni en 10 tunnur eða tilsvarandi samanlagt andvirði grásleppuafurða, verður ekki um bótaskyldu að ræða, nema um mjög alvarlegan aflabrest á bótasvæði sé að ræða, og sannað sé að viðkomandi hafi stundað veiðarnar sem aðalstarf eða aukabúgrein.“ Um þetta er fullt samkomulag við Félag grásleppuframleiðenda og sömuleiðis við formann stjórnar Aflatryggingasjóðs.

Þess skal getið í þessu sambandi, að ákveðið er að bæta aflabrest þann sem varð í sumar á þessu svæði. Ekki liggja fyrir endanlegar upplýsingar um hve mikill þessi aflabrestur er í krónum talið, en líklega gæti það numið um það bil 1 millj. kr.

Þá er í 3. gr. frv. lagt til að fella saman hin fjölmörgu lög, sem samþykkt hafa verið sem breytingar á lögum nr. 80/1971 um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, og gefa þau út þannig breytt í einum lagabálki. Það er orðið mjög tímabært og hefði reyndar þurft að gerast fyrr.

Herra forseti. Ég læt þessi orð nægja um þetta frv. og legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.