17.11.1982
Efri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

76. mál, tollskrá

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég hefði e.t.v. getað sparað mér sporin í þennan ræðustól. Hins vegar taldi ég mér skylt að koma hingað þegar þráfaldlega var minnst á fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, en svo vill til að ég á sæti í þeirri ágætu nefnd.

Ég held að ég megi fullyrða að fjh.- og viðskn. muni taka þetta frumvarp, sem hér er til umræðu, til vinsamlegrar athugunar. Mín skoðun er sú, og hún fellur nákvæmlega saman við þá skoðun sem hér hefur verið látin uppi af hv. ræðumönnum, að það er alltaf af hinu góða að létta af atvinnurekstrinum ýmsum gjöldum, sem á hann eru lögð, og ekki síst þegar um er að ræða álagningu tolla. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, ég er þeirrar skoðunar enn, að við eigum eftir því sem frekast eru tök á að lækka rekstrarkostnað, ekki aðeins með lækkun tolla heldur með margvíslegu öðru móti.

Það er ekki tími hér til þess að fara út í að ræða eða gera samanburð á starfsskilyrðum atvinnuvega. Það er rétt, sem hér er vikið að í frv., að landbúnaðurinn keppir ekki við innfluttar vörur beint, samkynja vörur. Að vísu eru landbúnaðarvörurnar að sjálfsögðu í óbeinni samkeppni við ýmsar innfluttar vörur, því að neyslusviðið færist mjög mikið út, ekki síst hin síðari ár.

Við umfjöllun um frv. í nefndinni geri ég ráð fyrir að við njótum upplýsinga frá fjmrn. Það kann að vera að það séu einhverjir fleiri vöruflokkar sem eðlilegt væri að taka hér með ef til kemur afgreiðsla á þessu frv. Hins vegar er það venjan, að nefndir skoða frv. einar og sér og í mörgum tilfellum án sérstaks athylgis eða stuðnings hinna margvíslegu rn. þannig að frv. mun fá skoðun.

Sem betur fer hafa átt sér stað viturlegar leiðréttingar á tollskránni á undanförnum árum og alltaf eru að koma fram þreifingar í þá átt og er það af hinu góða.

Tekjutap ríkissjóðs eins og hér kemur fram og ég vonast til að sé rétt með farið er mjög óverulegt. Ég held því að menn hljóti að verða sammála um að ríkissjóðurinn fari ekki á hvolf þótt menn gengju til þess verks að samþykkja það frv. sem hér liggur fyrir.