17.11.1982
Neðri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

71. mál, vernd barna og ungmenna

Flm. (Níels Á. Lund):

Herra forseti. Á þskj. 73 hef ég leyft mér ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v. að leggja fram frv. um breyt. á lögum nr. 53 frá 1966, með síðari breytingum, um vernd barna og ungmenna. Hér er lagt til að lögunum verði breytt á þann hátt að ungmennum fæddum á sama ári verði ekki mismunað hvað varðar aðgang að opinberum skemmtunum. Frv. er svohljóðandi:

1. gr.

2. mgr. 1. gr. laga nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna, orðist svo:

Með börnum er samkv. lögum þessum átt við einstaklinga innan 16 ára aldurs, en ungmenni eru unglingar á aldursskeiði 16–18 ára, sbr. ákvæði 1. mgr. 43. gr. þessara laga.

2. gr.

Við 1. mgr. 43. gr. þessara sömu laga komi eftirfarandi viðbót:

„Þegar börnum og ungmennum er bannaður aðgangur að þeim skemmtunum sem að ofan greinir, þar með taldar kvikmyndasýningar, sbr. 58. gr. þessara laga, skal miða aldur þeirra við fæðingarár en ekki fæðingardag.“

Þessu lagafrv. vil ég leyfa mér að fylgja nokkuð eftir með eftirfarandi grg.:

Frá því að lögin voru samþykkt á Alþingi 1966 hefur aðgangur að opinberum skemmtunum verið miðaður við fæðingardag viðkomandi, en ekki fæðingarár svo sem nú er lagt til að gert verði. Þessi viðmiðun er ákaflega ranglát og erfið í framkvæmd, auk þess sem hún hefur oft kallað á tilraunir til þess að komast inn á þessar skemmtanir á ólöglegan hátt.

Rétt er að benda á eftirfarandi í því sambandi: Löggjafinn gerir m.a. ráð fyrir því í lögum nr. 63 frá 1974, grunnskólalögunum, að þessir unglingar eigi sama rétt og sömu skyldur, og er skólanum skylt að leggja fyrir þá sama námsefni hvort sem viðkomandi er fæddur fyrst í jan. eða síðast í des. Þar af leiðir að lögin hljóta líka að gera ráð fyrir að þeir hafi líkan þroska, bæði andlegan og líkamlegan. Að sjálfsögðu eru á þessu undantekningar, svo sem hv. þdm. vita, en almenna reglan er sú, að aldursárgangur séu samhópa í skóla.

Af þessu leiðir m.a. að unglingar hafa í flestum tilvikum valið sér félaga innan síns bekkjar eða hóps án tillits til þess, hvenær árs þeir eru fæddir, og með því að miða við fæðingardag þegar um skemmtanir er að ræða er verið að sundra félagshópum, sem ekki er æskilegt.

Þessi aðskilnaður er mjög óæskilegur og geta afleiðingar hans verið ófyrirsjáanlegar, og dæmi eru um að þeir unglingar, sem fyrir utan samkomuhúsin eru og hafa verið skildir frá hópum, leiðist til meiri óreglu og séu jafnvel verr á sig komnir en þeir sem komast inn. Þessi sundrun félagshópa er því mjög varhugaverð, að mínum dómi, og hlýtur að skapa fleiri vandamál en hún leysir.

Mjög erfitt er fyrir forráðamenn skemmtana að framfylgja núgildandi reglum þar sem ásókn jafnaldra er mikil í að sækja skemmtanir saman, og hefur þetta misræmi á aldursgreiningu orðið þess valdandi, að unglingar hafa reynt að komast inn á skemmtanir á ólöglegan hátt, m.a. með fölsun á nafnskírteinum. Af þessu hefur það svo leitt, að á mörgum stöðum hefur í reynd verið farið eftir fæðingarári en ekki fæðingardegi þegar aldur er metinn.

Við gerðum nokkra könnum á þessu máli og hvernig þessu er hagað í framkvæmd víðs vegar á landinu. Ég hafði samband við sýslumannsembættin á landinu og í svörum þeirra kemur fram að mjög er mismunandi hvernig lögin eru í framkvæmd hvað þetta atriði varðar. Í þremur sýslum er alfarið miðað við fæðingarárið þegar aldur er metinn, þ.e. ungmenni fædd 1966, svo að tekið sé dæmi, hafa verið talin 16 ára frá ársbyrjun 1982, hvenær svo sem ársins þau eru fædd. Í fjórum sýslum er undantekningarlaust aftur á móti miðað við fæðingardag viðkomandi. Hefur því unglingum fæddum í byrjun ársins 1966 verið heimilt að sækja skemmtanir, sem hafa verið bannaðar yngri en 16 ára á þessu ári, en þeim sem aftur á móti verða ekki 16 ára fyrr en seinna á þessu ári hefur verið meinaður aðgangur að sömu skemmtunum. Á öðrum stöðum var nokkuð óvíst hvernig farið hefur verið að, en öllu fremur hefur þó verið miðað við fæðingardag svo sem gert er ráð fyrir samkv. núgildandi lögum. Í einu lögsagnarumdæmi er lögreglusamþykktin á þann veg, að miðað er við fæðingardag til 1. maí, en eftir það er miðað við fæðingarárið. Af þessu má glöggt sjá, herra forseti, að framkvæmd þessara laga er mismunandi í landinu, sem ekki er eðlilegt, en stafar af því hversu núgildandi lög um þetta atriði eru erfið í framkvæmd og oft og tíðum ranglát.

Herra forseti. Með þessari lagabreytingu er ætlunin að einfalda og leiðrétta lögin sem um þetta mál fjalla. Það er álit flm., að sú breyting sem lagt er til að gerð verði á þeim eigi fullkomlega rétt á sér og vona ég að hv. þdm. séu sama sinnis og hraði afgreiðslu þessara mála.

Að loknum þessum umr. óska ég þess, að málinu verði vísað til hv. menntmn.