17.11.1982
Neðri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

4. mál, lokunartími sölubúða

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Málið sem á dagskrá er er um lokunartíma sölubúða, ætti kannske fremur að heita um opnunartíma sölubúða. Af þessu hafa spunnist óvenjulegar hugmyndafræðilegar umr. á hv. Alþingi milli hv. 4. þm. Reykv. og 3. þm. Reykv. um hugmyndafræði, frjálshyggju og ríkisafskipti og um stöðu Sjálfstfl. í litrófi þeirrar hugmyndafræði.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði og lagði þunga áherslu á orð sín: Rauður minn er sterkur og stór, stinnur mjög til ferðalags. Sjálfstfl. er stór og sterkur. Þetta rifjaði upp fyrir mér að ekki fyrir löngu síðan las ég ritstjórnargrein í tímaritinu Stefni eftir einn af ungum frjálshyggju- og markaðshyggjupostulum Sjálfstfl., þar sem flokknum var lýst á þann veg að maður kannast varla við hann fyrir sama flokkinn og hv. þm. Albert var að lýsa. Þessi ungi leiðarahöfundur Stefnis sagði: Sjálfstfl. er of blauður til að berjast en of feitur til að flýja. Og að ýmsu leyti finnst mér þessi lýsing dálítið raunsannari í veruleikanum.

Menn spyrja: Er Sjálfstfl. flokkur hv. þm. Friðriks Sophussonar, sem vill „Báknið burt“, eða er Sjálfstfl. flokkur hv. þm. Sverris Hermannssonar kommissars, Ögurvíkings, forseta og sómamanns sem vill báknið kjurt? Er Sjálfstfl. með Framkvæmdastofnun ríkisins eða er Sjálfstfl. á móti Framkvæmdastofnun ríkisins? Gaf Sjálfstfl. loforð um að það pólitíska kommissaraskömmtunarkerfi skyldi lagt niður? Efndi Sjálfstfl. það loforð? Nei, það gerði hann ekki.

Er Sjálfstfl. fylgjandi stefnu hinna ungu frjálshyggjumanna um frjálsa vexti? Nei, Sjálfstfl. hefur alltaf í verki boðað sérstaka niðurgreidda atvinnurekendavexti. Tekur Sjálfstfl. undir kröfur neytenda í þéttbýli um að þeir beri ekki lengur skattpíningu í þágu landbúnaðarkerfisins, 1.1 milljarð kr. í fjárlögum, tíundu hverja krónu,- ég endurtek, tíundu hverja krónu í fjárlögum, sem fara í sjálfvirka styrki, framlög, niðurgreiðslur og útflutningsbætur? Endurtek, tíundu hverja krónu. Mér þætti fróðlegt líka að heyra hvort hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar, formaður Verkamannasambands Íslands, sem hefur að gefnu tilefni tekið það fram að afstaða hans til brbl. sé kannske ekki alveg skýr að sinni vegna þess að það vanti viðbitið, 21 fylgifrv., (Forseti: Ég vil minna herra ræðumanninn á það, að á dagskrá er 4. mál, um lokunartíma sölubúða.) Herra forseti. Ég minni á í staðinn að þá hefði verið þarft að benda bæði 1. flm. og hv. 3. þm. Reykv. á það, að þetta frv. er til umr. Af þessu tilefni hafa spunnist umræður um stefnu flokka. Ég skal reyna að taka tillit til aths. forseta innan þess ramma.

Ég spyr aftur, ég er forvitinn að heyra það, hvort hv. þm., formaður Dagsbrúnar og formaður Verkamannasambandsins, ætlar ekki að krefjast þess, og setja nú sinn stóra hramm á borðið, að boðaðar hugmyndir ríkisstj. um afnám matargjafa og útflutningsbóta í áföngum verði a.m.k. skilyrði. Þær verða að koma hér fram og fást samþykktar áður en til þess er ætlast af launþegum og okkur að við samþykkjum að 400 millj. verði teknar úr launaumslögunum á næstu þremur árum á næsta vísitölutímabili.

Með hliðsjón af aths. forseta skal ég ekki lengja þennan spurningaleik. En það má spyrja: Hver er stefna Sjálfstfl.? Ekki aðeins gagnvart sjónarmiðum neytenda í þéttbýli, gagnstætt hagsmunum framleiðenda í dreifbýli.

Sjálfstfl. er að sönnu mjög merkilegur flokkur og hefur að baki glæsilega sögu. Hann mun vera einsdæmi í stjórnmálasögu Vestur-Evrópu þessi seinustu misserin. Hann er í stjórn og hann er utan stjórnar. Hann leggur til forsrh. í stjórn og hann leggur til mann sem gerir tilkall til þess að vera leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Hann leggur til menn, sem komu ríkisstj. á laggirnar með yfirlýsingu um að þeir muni firra hana vantrausti, og hann leggur til sama manninn, sem núna væntanlega, ég treysti því, mun sannanlega og dyggilega greiða atkv. með vantrausti á þessa einu og sömu ríkisstj. Hann leggur til ráðh. í þessa ríkisstj. og hann er á móti þessari ríkisstj. Þetta er alveg frábærlega fjölhæfur flokkur.

Umræðuefnið um opnunartíma sölubúða, svo að við víkjum aðeins ögn að því aftur, (Gripið fram í.) jú, er það ekki? Þetta er nú ekki stórt mál. Þetta er ákaflega einfalt mál. Í raun og veru er það svo, að í þeim ágæta stíl sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir flutti hér áðan var sagt það sem segja þurfti um málið í mjög góðu og lipru máli. Málið er ákaflega einfalt. Það snýst ekki um svefntíma og samkeppni. Það er verið að spyrja um það hvort mönnum sé ekki sama hvenær þeir hafi sínar krambúðir opnar. Mér er alveg nákvæmlega sama fyrir mína parta, og tek þó fram að það er ekki alltaf sem minn maki annast innkaup. Ég reyni stundum að gera það sjálfur. Þetta er ekkert löggjafarmálefni.

Það hefur verið til þess vitnað, að með öðrum þjóðum er þessum málum ekki fyrir komið með lögum. Auðvitað er þetta einfaldur og sjálfsagður hlutur, sem á að vera frjáls hverjum þeim sem í hlut á. Og það er ekkert um að ræða að þetta sé mál sem snýst um vinnutíma og svefntíma. Ég tek ekki undir gífuryrði um Verslunarmannafélag Reykjavíkur, þó að margt megi finna að verkalýðshreyfingunni. Ég treysti því félagi fyllilega til þess að ganga svo frá kjarasamningum, að vinnutími sé hæfilegur og nauðsynlegum svefntíma starfsmanna sé ekki misboðið eða ofboðið. Þetta kemur því máli bara hreinlega ekkert við.

Það skal að vísu játað að samkeppni á markaði, það að leyfa mönnum að leggja fram sína starfskrafta eins og þeim þóknast, í von um umbun í samræmi við erfiði sitt, kostar venjulega mikla vinnu. Og það er alkunna að kaupmaðurinn á horninu leggi á sig langan vinnudag. Stundum starfa þeir sjálfir, stundum án aðstoðar. Það er verkalýðsfélagsins og kjarasamningamál að sjá til þess að það fólk sem hjá þeim vinnur, vinni hæfilegan vinnutíma. Það þýðir þá með öðrum orðum, að vinnutíma yrði þannig fyrir komið að menn ynnu á vöktum eða ólíkum tíma dags og það hentar ýmsum. En það er ekki þar með sagt að einn og sami starfsmaðurinn eigi af þessum ástæðum að vinna 14 tíma á sólarhring.

Samkeppni kostar mikla vinnu. Hún kallar á frumkvæði, hún kallar á dugnað. Kenningin á bak við hana er sú, að þeir sem eru reiðubúnir til þess að leggja á sig mikla vinnu eiga sjálfir að bera einhverja umbun erfiðis síns og það á að koma þeim og öðrum sem njóta þeirra dugnaðar og þeirra þjónustu til góða. Þetta hélt ég að allir góðir sjálfstæðismenn skildu og vissu. Svo einfalt er það.

Sá mikli uppfinningamaður Thomas Alva Edison lýsti þessu fyrirbæri á mjög einfaldan mata. Uppfinningamaðurinn er merkisberi hinnar frjálsu samkeppni. Hann er frjáls, skapandi hugsuður. Hann leggur mikið á sig. Hann sagði ósköp einfaldlega: Starf uppfinningamannsins er 10% „inspiration“ en það er 90% „perspiration“. Svo einfalt er það. Þetta er samkeppnin.

Það er hægt að gera alla menn að „pensionistum“ hjá ríkinu ef menn aðhyllast þann sósíalismaandskota sem ég fyrirlít manna mest. Gerðar hafa verið þjóðfélagstilraunir til að koma þeim sósíalismaandskota á og hann endar í sveltandi sósíalisma. Frægasta dæmið um það er Tékkóslóvakía, sem var ríki sem var hvað lífskjör snertir á Norðurlanda„standard“, áður en þessi sósíalismaandskoti var þar innleiddur og Tékkóslóvakar gerðir að „pensionistum“ ríkisins. Kerfið var þannig að menn skyldu samkv. lögum og reglum ekki leggja fram áræði, frumkvæði, dugnað, og ekki bera ábyrgð verka sinna. Það voru allir á svo til sömu „pensioninni“ hjá ríkinu. Niðurstaðan varð sú, að þessari gáfuðu, duglegu þjóð var hrundið niður á örbirgðarstig í nafni fólskulegrar og heimskulegrar hugmyndafræði. Ráðherrasósíalistarnir íslensku kunna enga aðra hugmyndafræði en þessa og eru á góðum vegi með að koma okkur niður á pólskt ástand. Ég vona að því ljúki sem fyrst.