19.10.1982
Sameinað þing: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Að lokinni atkvgr., sem fram fór hér í síðustu viku, gerði ég nokkrar aths. við það, með hvaða hætti þetta mál hefði formlega borist til Sþ. og benti á að nauðsynlegt hefði verið að fsp. hefði legið fyrir sem þskj. líkt og hvert annað mál og þess hefði verið getið í dagskrá fundar Sþ. að til hennar hefði átt að taka afstöðu. Það hefur síðan gerst, eftir að þessi atkvgr. fór fram, ég held einum til tveimur dögum síðar, að hingað barst á borð í þingsölum 23. mál þingsins, 23. þskj. einnig, fsp. til dómsmrh. um embættisfærslu sýslumanns á Höfn í Hornafirði. Texti þess er efnislega samhljóða þeirri þáltill., sem nú hefur verið lögð fram og hér á að fara að greiða atkv. um, að því leyti að í báðum tilvikum er vikið að samskiptum dómsmrh. við sýslumann á Höfn í Hornafirði vegna embættisfærslu hinn 18. ágúst. Vegna þeirra skoðana, sem ég setti fram fyrir helgina, langar mig til að spyrja hæstv. forseta og vegna þess fordæmis sem síðasti ræðumaður réttilega benti á að er mikilvægt að menn átti sig á í þessu máli: Hvernig stendur á því og með hvaða rétti gerist það, að eftir að hér hefur farið fram atkvgr. um tiltekna fsp., þá fyrst birtist fsp. sem formlegt þskj. á borðum þm. með sérstöku málsnúmeri og stendur þess vegna mér vitanlega áfram sem 23. mál þingsins? Ef það er rétt að prenta þessa fsp. sem þskj., þá hlýtur það að hafa átt að gerast áður en atkvgr. fór fram á sínum tíma, en hún komi ekki fram sem þskj. eftir að atkvgr. hefur farið fram, sérstaklega þegar hún hefur fallið á þennan veg.

Ég fagna því út af fyrir sig að fsp. liggur hér frammi sem þskj. og er ekki að gagnrýna það í sjálfu sér. Það sem ég er hins vegar að gagnrýna og spyrjast fyrir um er hvernig standi á því að það gerist þá fyrst eftir að Sþ. hefur tekið afstöðu til málsins. Ég hefði kosið að það hefði gerst áður, eins og ég lýsti hér fyrir helgina, og þess hefði verið getið í dagskrá að til þessarar fsp. ætti að taka afstöðu. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort framlagning fsp. sem sérstaks þskj. með sérstöku málsnúmeri boði það, að það verði ekki aftur gripið til þess að bera fsp. upp til atkvgr. hér án þess að þær liggi fyrir í skjölum þm.