18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

36. mál, laxveiðar Færeyinga í sjó

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á síðustu árum hafa áhyggjur yfir vaxandi veiðum Færeyinga á laxi í úthafinu færst mjög í aukana hjá okkur Íslendingum. Samtímis því að um mikla aukningu laxveiða hefur verið að ræða af hálfu Færeyinga hefur það gerst að laxveiði í íslenskum veiðiám hefur farið mjög minnkandi, einkum á tilteknum svæðum landsins, þ.e. fyrst og fremst á Austurlandi og Norðausturlandi. Menn greinir að vísu á um hvort þarna sé ótvírætt samhengi á milli og ýmsir sérfræðingar í laxveiðimálum okkar Íslendinga hafa haldið því fram að rekja mætti þverrandi laxveiði til veðurfarsáhrifa og annarra lífsskilyrða fyrir lax í sjónum og jafnvel í ánum sjálfum, en hitt liggur fyrir, að það hefur gerst í sama mund að laxveiðar Færeyinga hafa færst mjög í aukana og laxveiði í íslenskum ám þorrið.

Svo litið sé á það sem fyrir liggur um þessi efni, þá er það svo, að árið 1978 töldu Færeyingar að þeir hefðu veitt um 50 lestir af laxi í úthafinu, árið 1979 um 200 lestir, árið 1980 um 700 lestir og árið 1981 rúmlega 1000 lestir. Þessi mikla aukning laxveiða hlýtur því óhjákvæmilega að valda okkur miklum áhyggjum og verða tilefni til þess að reynt sé að spyrna við fótum og fá Færeyinga til þess með þeim ráðum sem tiltæk eru að draga úr þessum veiðum.

Með þessum veiðum hefur verið nokkuð fylgst af hálfu okkar íslendinga og hefur það eftirlit verið fyrst og fremst í höndum Veiðimálastofnunarinnar. Á s.l. vori var veitt fjármagni til þess að auka þetta eftirlit, þar á meðal var sendur sérstakur maður til þess að fylgjast með veiðum Færeyinga um borð í bátum á veiðisvæðinu og var sá maður fenginn frá Hafrannsóknastofnuninni.Það verður að segjast eins og er, að það eftirlit sem fram hefur farið og könnun á laxi sem veiðst hefur í Færeyjum hefur ekki fært okkur verulegar sönnur um að um íslenskan lax sé að ræða. Til þess að það sé nokkuð óyggjandi þurfa auðvitað að vera til sannanir og þær sannanir finnast ekki nema með merkingum laxa.

Þrátt fyrir að íslensk merki á laxi hafi ekki fundist nema í mjög óverulegum mæli í afla Færeyinga kann sú að vera skýringin, að merkingar á laxi eða laxaseiðum hafa verið mjög litlar og nánast engar í veiðiám í sumum landahlutum hér á landi og þá fyrst og fremst á Austur-landi og Norðausturlandi, þar sem merkingar hafa ýmist engar verið eða mjög litlar, þannig að út af fyrir sig er ekki hagt að líta á það sem sönnun eða afsönnun þó að fátt hafi fundist af laxi í afla Færeyinga með íslenskum merkjum.

Í sambandi við þetta mál hef ég lagt á það áherslu við Veiðimálastofnun, að merkingar á laxaseiðum væru auknar og til þess hefur verið varið nokkru fé af opinberri hálfu að gera það mögulegt: Á þessu ári voru merkt um 140 þús. seiði, sem var sleppt víðs vegar um landið, en þó voru þessar merkingar fyrst og fremst auknar á seiðum sem sleppt var í ár á Austurlandi og Norðaustur-landi. Hér er því auðvitað um verulegt grundvallaratriði að ræða til að geta fært sönnur á hvort hér er um íslenskan lax að ræða eða ekki, sem okkur Íslendingum býður mjög í grun að sé. Það er okkur auðvitað mjög nauðsynlegt vopn í þeirri baráttu, sem við þurfum að heyja um þetta mál við frændur okkar og vini Færeyinga, að geta sýnt fram á einhver sönnunargögn.

Ég hjó eftir því í máli hv: frsm., að hann taldi að Reykjavíkursamningurinn, sem gerður var á öndverðu þessu ári og undirritaður í Reykjavík 2. mars s.l., hefði í raun verið slys. Ég vil ekki um það dæma, en þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri rödd í þessa átt. Það var hins vegar skoðun þeirra sem tóku þátt í þeirri samningagerð, bæði beinna þátttakenda og þeirra sem fylgdust með þeim samningi og áttu nokkurn hlut að, að af þeim samningi væri mjög mikill ávinningur. Þessi skoðun hv. flm. kemur mér því á óvart.

Ég minni á að á síðasta ári skipaði ég nefnd til að fjalla um þessi mál, svokallaða könnunarnefnd úthafsveiða á laxi. Sú nefnd var skipuð leikmönnum á þessu sviði, þ.e. áhugamönnum um þessi mál. Það voru ekki embættismenn í nefndinni, heldur menn sem höfðu aflað sér víðtækrar þekkingar, ýmist með reynslu sinni eða langvarandi könnun á þessum málum, og þeir áttu aukaaðild að ráðstefnu sem haldin var hér í Reykjavík til undirbúnings áðurnefndri samningagerð. Það var skoðun þessara manna allra, að samningurinn sem slíkur væri mikill ávinningur í þeirri baráttu sem við eigum í fyrir verndun Atlantshafslaxins. Ég hef staðið í þeirri meiningu að þetta sé rétt og ég vona að a.m.k. mörg ákvæði þessa samnings verði til þess að gera okkur Íslendingum mögulegt að vinna smám saman bug á þeirri starfsemi Fareyinga sem í svo miklum mæli dregur Atlantshafslaxinn úr sjó.

Ég vil minna á að á síðasta veiðitímabili Færeyinga gerðist þó það, að um samdrátt var að ræða í þessum veiðum. Sá samdráttur í laxveiðum Færeyinga á sér rætur í samkomulagi sem Fareyingar gerðu við Efnahagsbandalag Evrópu: Ef það samkomulag hefur verið haldið mætti segja mér að þeir hafi veitt um 850 tonn á síðasta veiðitímabili. Jafnframt kveður það samkomulag á um að Færeyingar veiði á næsta veiðitímabili að hámarki 650 tonn, en þá er jafnframt líka gert ráð fyrir að veiðitíminn verði styttri, hann byrji um mánuði seinna og hann hætti hálfum mánuði fyrr. Jafnframt er gert ráð fyrir að færri skip fái heimild til að stunda þessar veiðar á næsta tímabili en leyft hefur verið hingað til: Þetta haggar auðvitað ekki því, þó að þarna séu stigin veruleg spor í áttina, að þessar úthafsveiðar eru of miklar og það er afar nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga og aðrar laxveiðiþjóðir við Atlantshaf að úr þessum veiðum verði dregið að verulegu marki frá því sem nú er. Ég skal ekki fjalla um þetta mál í miklu lengra máli. Ég vil aðeins segja það, að ég tek undir og lýsi fylgi mínu við allar skynsamlegar aðgerðir til að ná samkomulagi við Færeyinga um þessi mál og lýsi fylgi mínu við þær leiðir sem mögulegt er að fara til að úr úthafsveiðum dragi.Sömu sögu er raunar að segja um veiðarnar við Vestur-Grænland, sem ýmsir telja að einnig séu laxa.stofni okkar Íslendinga hættulegar. Við Íslendingar hljótum auðvitað að vinna því fylgi, eftir því sem mögulegt er, að aðrar þjóðir taki upp okkar stefnu og hætti laxveiðum í sjó.

Ég mun einnig fara þess á leit að fengið verði fjármagn til að halda áfram eftirliti bæði um borð í færeyskum laxabátum og eins í Færeyjum, þannig að við Íslendingar tökum þátt í því eftirliti sem nauðsynlegt er að sé með þessum veiðum og reynum að leita að sönnunum fyrir því hvaðan þessi lax er upp runninn.

Ég vil hins vegar ekki fara út í að ræða lagalega hlið þessa máls, sem mjög kemur fram í grg. till. þeirrar sem er á dagskrá, þar sem sagt er að það sé „skýlaust brot á hafréttarsáttmálanum ef Færeyingar strádrepa Atlantshafslaxinn með þeim hætti sem þeir hafa gert. Þar er bæði um að ræða siðlaust athæfi og eins er þessi grein hafréttarsáttmálans, 66. gr., þverbrotin.“ Ef hér er um skýlaus lagabrot að ræða auðveldar það okkur Íslendingum sóknina, það er ekkert vafamál. Ég ætla hins vegar ekki að fara út í neinar lagaskýringar, enda þarf ég gleggri upplýsingar um þau mál en ég hef þegar undir höndum, en það er víst, að ef hér er um skýlaus lagabrot að ræða auðveldar það okkur Íslendingum að fúst við þessi mál. Ég vil gjarnan taka undir það með hv. 5, landsk. þm., sem ég tel mikils virði, að við höldum á þessu máli svo lengi sem fært er, eins og hann orðaði það, í fullkominni vináttu við frændur okkar Færeyinga, en það er þó jafnljóst að við þurfum að sækja þessi mál af fullri einurð og festu. Þetta er mál sem hefur gífurlega þýðingu fyrir okkur Íslendinga. Laxveiðar okkar eru slíkt mál fyrir okkar þjóð að við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda laxastofn okkar og auka og rækta þessa perlu, sem land okkar býr yfir. Þess vegna tek ég heila hugar undir þann tilgang. sem.í þessari till. felst.