18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

36. mál, laxveiðar Færeyinga í sjó

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. báðum, hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh., fyrir jákvæðar undirtektir, þó að ég sé ekki sammála öllu því sem fram hefur komið, t.d. því síðasta sem hæstv. utanrrh. vék að, að orðalagið á tillgr. sé nokkuð fjarstæðukennt. Það hljóðar svo með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir“ þetta á við komandi ríkisstj. jafnt og núv. „til að stöðva rányrkju Færeyinga við veiðar Atlantshafslaxins í efnahagslögsögu sinni.“

Að gera nú þegar ráðstafanir, stendur þar. Þessi ríkisstj., ef hún verður ekki fallin þegar till. er samþykkt, mundi byrja þessar undirbúningsráðstafanir til að stöðva rányrkju Færeyinga við veiðar Atlantshafslaxins „í efnahagslögsögu sinni“, efnahagslögsögu Færeyja, það er rétt skilið, stöðva veiðar Færeyinga í efnahagslögsögu Færeyja í samræmi við 66. gr. hafréttarsáttmálans. Þeir hafa enga heimild til að veiða lax í sinni efnahagslögsögu með þeim hætti sem þeir gera nema með stoð í þeim samningi sem gerður var hér í Reykjavík. Þeir hafa enga stoð í 66. gr. Þvert á móti er það upprunaríki laxstofnsins sem hefur leyfi til að ákveða aflamagn. Það getur bannað og stöðvað þessar veiðar.

Hitt er svo aftur rétt, að það er kannske eitthvað erfitt um vik að sanna hvaðan hver einstakur lax er kominn. Þess vegna er í till. lagt til samstarf Efnahagsbandalagsríkjanna Íslands og Noregs — og kannske einhverra fleiri ríkja við Norður-Atlantshaf, að þau sameiginlega knýi Færeyinga til að hætta þessum veiðum, hætta lögbrotunum. Ef þeir geta það ekki með öðrum hætti, þá á að stefna þeim fyrir dóm. Það er ósköp einfalt. Það er gert ráð fyrir því í 66. gr. að sjálfsögðu. Fyrst á að reyna samningaumleitanir, síðan á að fara eftir ákvæðum greinarinnar, sem m.a. segja það að strandríki geti ákveðið hámarksaflamagn. Það er eingöngu í þeim tilfellum þar sem um meiri háttar efnahagslega röskun er að ræða sem ekki er hægt að stöðva þetta með öllu og strax. Það getur ekki átt við Færeyinga að því er varðar svæðið utan við 200 mílurnar. Þeir hafa aldrei veitt þar lax svo ég viti. Þess vegna var hægt að stöðva það. Það er eina ákvæðið sem er jákvætt í þessum samningi. Það var hægt að stöðva það án samnings. En það er gott að hafa ákvæði þar. Ekkert ákvæði annað get ég fundið í þessum samningi sem sé til hagsbóta. Öll eru þau nokkru hagstæðari og rýmri fyrir þá sem vilja veiða fisk annarra þjóða en ákvæði 66. gr., því miður.

Þessi inngangur sem hæstv. utanrrh. gat um, hann er ágætur. En hann segir nákvæmlega ekki neitt, hann er almenn viljayfirlýsing. Og varðandi það að setja upp allar þessar stofnanir er mér svo sem sama þó að eytt verði nokkrum krónum í þessar stofnanir og kannske fjölgi mannskapnum álíka mikið og lögsagan stækkar Ég held að það geri ekkert gagn að vera að setja upp einhverja fasta stofnun í þessu efni. Það sem er aðalatriðið er að þetta er allt of seinvirkt, enda væri búið að drepa allan laxinn þegar þetta verður komið í gagnið eftir 5–10 ár. Það sem þarf að gera er að stöðva þessar veiðar og stöðva þær strax ágrundvelli gildandi alþjóðalaga. Og ég efast ekkert um að þegar Færeyingar hafa lesið þessar greinar og þegar allir Íslendingar taka sig saman um að skýra þær rétt, þá verði þeir til í það að hætta þessum veiðum kannske öllum strax, eða fara þá strax niður í þessi 100 tonn sem þeir veiddu fyrir þrem árum. Þeir hafa gert allt núna eftir að þetta er allt saman komið í hafréttarsáttmálann. Við skulum segja að leyft verði að veiða þessi 100 tonn — til þess að ekki sé hægt að segja að um væri að ræða meiri háttar efnahagslega röskun. Enda þótt það væri engin meiri háttar efnahagsleg röskun á atvinnulífi Færeyinga þó að þeim yrði líka bannað að veiða þessi 100 tonn. En það er sérstaklega getið um það í b-lið 3. gr. að þarna eigi að miða við það sem hafi verið eðlilegur afli, sem hefur verið stundaður. Þá sé miðað við það sem var í fyrra og hitteðfyrra. Það er þetta gamla, sem við þekkjum Íslendingar, þegar Bretar og aðrir hafa áunnið sér einhvern hefðbundinn rétt um áratugi eða aldir, svona rétt til þess að hafa réttindin. Færeyingar vinna sér þessi réttindi núna á 2–3 árum. Svo segja menn bara að þetta sé allt í lagi. Ekki hæstv. ráðh., ég tek það fram. En ég hef heyrt menn segja: Er þetta ekki bara della?

Við erum allir sammála um það, sem hér höfum talað, að auðvitað verði að taka fast á þessum málum. Kannske tek ég of djúpt í árinni, en ég geri það í þeim eina tilgangi að styrkja þá sem í samningum við Færeyinga verða að standa á næstu árum, til þess að þeir sem að þeim samningagerðum standa og viðræðum við Færeyinga viti að þeir hafa einróma Alþingi á bak við sig, sem ætlar sér að framfylgja ákvæðum 66. gr. hafréttarsáttmálans og þeim ákvæðum sem finnast kunna í þessum samningi sem gerður var okkur til styrktar. Ég finn ekkert því miður. Samningurinn er kannske skaðlaus í bili. Það er, eins og ég sagði áðan, hægt að segja honum upp ef Færeyingar ætla að hengja sig í þetta ákvæði 2. gr., sem er auðvitað furðulegt, að þeim skuli vera þar heimiluð veiði innan allra sinna 200 mílna.

Þetta með merkingarnar er auðvitað gott líka en það tekur allt sinn tíma. Og ég endurtek að það er ekki meginatriðið að vita hvaða þjóð á hvaða lax — ég segi á samkv. 66. gr. — af því að upprunaríkið á fiskinn og á að setja aflatakmörk og ráða því hvar hann er veiddur og hvenær hann er veiddur, en stöðva rányrkju hvar sem er. Þetta er svo afdráttarlaus grein. Hún er svo gersamlega allt annars eðlis en um allar aðrar fisktegundir, að við hófum eignarrétt á þessum fiski. En þar sem sönnunina skortir auðvitað um frá hvaða landi hver fiskur sé — þar sem Atlantshafslaxinn er vissulega einn og sami stofn þó að hann sé nokkuð misjafn að útliti og kannske að gæðum að einhverju leyti líka — þá er ekki hægt að segja til um nákvæmlega í hvaða á eða í hvaða landi hann er veiddur. Þess vegna þurfa allar þessar þjóðir að taka sig saman um það að sækja rétt sinn og banna hreinlega allar laxveiðar í sjó. Það er okkar takmark. Það höfum við Íslendingar gert, að því ber að stefna og það má ekki dragast í mörg ár, því að þá er hætta á að hinn villti Atlantshafslax verði hreinlega strádrepinn.