18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

66. mál, tölvuvinnsla og upplýsingamiðlun varðandi landbúnaðinn

Flm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till: til þál: um kerfisbundna röðun jarða til hagnýt­ingar við samræmda tölvuvinnslu. Till. þessa er að finna á þskj. 67. Flm. ásamt mér er hv. 11. landsk. þm: Egill Jónsson: Seint á síðasta þingi, 104. löggjafarþinginu fluttum við þessa till. og varð hún ekki útrædd. Því höfum við leyft okkur að flytja hana að nýju. Er till. á þessa leið með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd sjö manna til þess að gera tillögur um samræmt númerakerfi yfir bújarðir í landinu með það að markmiði að gera tölvuvinnslu margs konar þátta landbúnaðarins og upp­lýsingamiðlun á því sviði fljótvirkari og öruggari.

Eftirgreindir aðilar skulu skipa fulltrúa í nefndina: Hagstofa Íslands, Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda, Fasteignamat ríkisins, Landnám ríkisins og Framleiðsluráð landbúnaðarins. Landbrh. skipar einn mann í nefndina og skal hann vera formaður nefndarinn­ar.

Nefndin skal skila tillögum til landbrh. fyrir 1. janúar 1984.“

Þegar þessi till. var flutt á síðasta þingi gerði ég grein fyrir efni hennar og þýðingu. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að fara um hana mörgum orðum, og ekki í eins löngu máli og þá, en ég vil þó taka fram nokkur atriði sérstaklega nú.

Landbúnaðurinn hefur nú þegar tekið tölvunotkun í ýmsum greinum atvinnuvegarins i sína þjónustu. Hjá Búnaðarfélagi Íslands hefur búfjárræktin verið unnin í tölvu mörg undangengin ár og ég ætla að skýrslur nautgriparæktarfélaga og sauðfjárræktarfélaga hafi verið teknar í tölvuvinnslu nokkru áður en tölvunotkun var almennt í gangi. Tölvufræðingur búfjárræktarinnar mátti því setja upp sérstakt kerfi. Síðan hefur hlíðstæð úrvinnslu orðið almenn, en ýmsir algengustu lyklar kerf­anna hafa ekki verið samræmdir, enda hefur enginn opinber aðili beitt sér fyrir samræmingu svo mér sé vit­anlegt.

till. sem ég ræði hér varðar aðeins einn takmarkað­an þátt þessara mála, en engan veginn þýðingarlítinn þátt að mínum dómi. Ég gat þess áðan að búfjárrækt Búnað­arfélags Íslands hefði unnið í tölvu skýrslur bænda um allmörg undangengin ár, skýrslur þeirra bænda sem hafa haldið skýrslur yfir kynbótagripi sina. Fleiri og fleiri þættir eru teknir í vinnslu með sama hætti.

Ég hef kosið að taka með þessari till. sérstaklega til umfjöllunar röðun bújarða i tölvukerfi til flýtisauka við upplýsingamiðlun sem allmargar stofnanir í landinu ættu að hafa í sem fyllstu samræmi. Má í því sambandi nefna þjóðskrána, Fasteignamat ríkisins, Stéttarsamband bænda, Framleiðsluráð landbúnaðarins, Búnaðarfélag Íslands, Landnám ríkisins, veðbókarskráningu, markaskrár og merkingu stórgripa, sem nýlega eru upp­teknar hér á landi og felldar eru inn í alþjóðlegt merkja­kerfi. Þær eru þess eðlis að merkingarnar mást ekki út og eru því nýtanlegar sem eins konar nafnnúmer gripanna. En þau fengju ríkara gildi ef einnig væri hægt að fella inn í það kerfi viðurkennt númer þeirrar jarðar sem viðkom­andi gripur væri fæddur á og mundi því fylgja gripunum meðan hans nyti við.

Þegar þessi till. var flutt á síðasta þingi var henni vísað til allshn. sem tók till. til athugunar og sendi hana ýmsum aðilum til umsagnar. Þær umsagnir bárust ekki fyrr en í sumar eða eftir að þing lauk störfum og var farið heim. Þegar komið er til þings hér aftur þá kemur það i ljós að ýmsir aðilar hafa sent umsögn um till. Þegar gengið var frá till. til endurflutnings hafði ég ekki veitt athygli nema einni umsögn frá Fasteignamati ríkisins. Er sú umsögn að hluta til prentuð hér sem fskj. með till. Einnig barst umsögn frá Búnaðarfélagi Íslands og vil ég með leyfi hæstv. forseta skýra frá örstuttum kafla úr þeirri umsögn. Hann er á þessa leið:

„Búfjárræktarskýrslur eru í fyrsta lagi skýrslur nautgriparæktarfélaganna og skýrslur um sæðingar. Í þessum skýrslum er sameiginlegt númerakerfi. Grunnur þess er kerfi Hagstofunnar. Vegna félagsuppbyggingar í þessum félögum verður aftur á móti að leyfa sér veruleg frávik frá þessu. Vinnsla á skýrslum fjárræktarfélaganna hófst nokkru fyrr en önnur tölvuvinnsla. Númerakerfi það sem þar er notað er því annað en sem síðar kom á vegum Hagstofunnar.

Á það er ástæða að benda að slík númerakerfi verður ætíð að aðlaga þeim verkefnum sem unnin eru, m.a. af hagkvæmniástæðum. Flutningur upplýsinga á milli ólíkra númerakerfa er aftur á móti í öllum þeim tölvu­kerfum sem í notkun eru í dag mjög einfalt mál að leysa. Í þessu sambandi ber einnig að hugleiða hversu langt réttlætanlegt sé að ganga í fullri samræmingu á númera­kerfum vegna þess að sumar upplýsingar, sem verið er að skrá, eiga ekki að vera aðgengilegar beint í tölvukerfun­um fyrir hvern sem er.“

Það sem hér kemur fram sýnist mér benda til þess að fullkomin ástæða sé til að aðilar hafi samráð um það með einhverjum hætti hvernig slíkt númerakerfi verður byggt upp og, eins og tekið er fram hér í umsögn Búnað­arfélagsins, í hve ríkum mæli sé réttlætanlegt að það sé alsamræmt. En slíkt verður ekki fundið út nema aðilar talist við.

Ég vil svo aðeins lesa hér stuttan katla úr umsögn Fasteignamats ríkisins sem ég tel styðja mjög að því einnig að lagt verði til þessa starfs að samræma númera­kerfið. Í bréfi Fasteignamats ríkisins segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Við hjá Fasteignamati ríkisins teljum að hér sé á ferðinni merk tillaga sem gæti markað tímamót ef takast mætti að koma á fót samstarfsnefnd þeirra aðila er tillagan gerir ráð fyrir. Með aukinni tölvunotkun hefur áhugi sveitarfélaganna á gerð staðgreinikerfa vaxið, a.m.k. fyrir þau stærri. Reykjavík er þó eina sveitarfé­lagið þar sem fullkomið staðgreinikerfi er í notkun, en vinnslu er langt komið í nokkrum af stærri kaupstöðun­um. Samþykkt þessarar þáltill. gefur vissulega fyrirheit um að lagður yrði grunnur að réttri uppbyggingu fyrir tölvuvinnslu þess þáttar sem till. fjallar um, og gæti orðið til eftirbreytni um aðra þætti á sviði fasteignamála og mála þeim tengdum.“

Ég tel engan vafa á því að það væri mikið til hagræðis bæði í vinnslu og upplýsingamiðlun til bænda að þetta númerakerfi væri samræmt í öllum þessum stofnunum. Þær gætu frekar leitað hver til annarrar um vissa upplýs­ingaþætti ef það væri samræmt. Samræming á þessu sviði er að mínu viti alger forsenda þess að tölvunotkun verði hagnýtt til hlítar fyrir landbúnaðinn í heild. Fleiri aðilar munu hafa gagn af slíkri kerfisbindingu bújarða við tölvuvinnslu, svo sem skráning eigna við þinglýsingar, eins og aðeins hefur verið vikið að áður, sem með þeim hætti tengdist fasteignaskrá til tryggingar því að eignir séu skráðar á rétta eigendur. Ég er sannfærður um að slík kerfisbinding gæti og leitt til hraðari afgreiðslu veðbók­arvottorða til hins almenna notanda og á því er að mínu mati fullkomin þörf.

Ég á að vísu von á því að ýmsir séu þeir til sem lita á þetta mál smáum augum og telja ekki neina höfuðnauð­syn að flytja það fram eða vinna í því. Ég er þar á annarri skoðun. Mér er ljóst að það er aðkallandi verkefni að gera hér samræmingu á og þess vegna ástæða til að kippa því út úr og vinna það strax til frekari afnota fyrir tölvuvinnsluna almennt.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa till. að sinni. Ég óska eftir því að þegar þessari umr. lýkur verði till. vísað til allshn.