18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

66. mál, tölvuvinnsla og upplýsingamiðlun varðandi landbúnaðinn

Níels Á. Lund:

Herra forseti. Mig langar til að lýsa yfir stuðningi mínum við framkomna till., sem hv. þm. Steinþór Gestsson mælti fyrir áðan. Ég þykist vita að þetta sé eitt málið af mörgum þar sem megi nota þá nýju tækni sem tölvan býr yfir. Það hlýtur að vera markmið okkar að nýta þá tækni og eflaust mætti finna mörg önnur slík mál. Ég vil sem sagt lýsa yfir þeirri skoðun minni að þetta sé eitt af þeim. Ég þykist vita að þetta komi til með að geta auðveldað allar skráningar á jörðum. Það mætti skrá hlunnindi jarðanna, jarðlýsingar, eignarráð á jörðunum o.fl. Þetta mundi ennfremur, að mínum dómi, geta auðveldað þeim sem vildu fá upplýsingar um viðkomandi jarðir, t.d. með sölu í huga eða kaup, og mætti þá með einfaldri útskrift á viðkomandi jörð fá mat á henni og lýsingu á henni, gögnum hennar og gæðum.

Ég vil, herra forseti, lýsa yfir stuðningi mínum við framkomið mál og vonast til þess að það verði afgreitt frá hv. Alþingi sem fyrst.