22.11.1982
Efri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það frv. til laga um efnahagsaðgerðir, sem hér er lagt fyrir Alþingi, er til staðfestingar á brbl. sem sett voru 21. ágúst s.l. Frv. fylgir yfirlýsing ríkisstj. sama dag vegna aðgerða í efnahagsmálum. Þar er gerð grein fyrir aðdraganda og ástæðum efnahagsaðgerðanna. Í stefnuræðu 25. okt. á Alþingi var einnig gerð grein fyrir þessum málum og sömuleiðis í þjóðhagsáætlun, sem lögð var fram á Alþingi um svipað leyti og stefnuræðan var flutt.

Í þjóðhagsáætlun segir m.a. á þessa leið:

„Sjaldan hafa orðið meiri og óvæntari breytingar á efnahagslegum skilyrðum þjóðarbúsins en á árinu 1982. Þegar þjóðhagsáætlun var lögð fyrir Alþingi í okt. í fyrra [1981] var því spáð, að þjóðarframleiðslan ykist um 1% á þessu ári, viðskipti við önnur lönd yrðu hallalaus og verðbólga færi minnkandi. Stefna ríkisstj. í efnahagsmálum, eins og hún var kynnt í þjóðhagsáætlun, mótaðist af þessum forsendum. En á skammri stund skipast veður í lofti. Ýmsar af meginforsendum þjóðhagsáætlunar brustu af ófyrirsjáanlegum ástæðum. Þegar í nóv. varð ljóst að loðnuafli yrði lítill sem enginn á þessu ári. Jafnframt hefur orðið alvarlegur samdráttur í þorskafla. Nú er talið líklegt að framleiðsla sjávarafurða dragist saman um 16% á árinu af þessum völdum. Einnig hafa vonir manna um batnandi ástand í efnahagsmálum umheimsins ekki reynst á rökum reistar. Lægðin í heimsbúskapnum hefur valdið verulegum þrengingum á mikilvægum útflutningsmörkuðum Íslendinga, bæði fyrir iðnaðarvörur og sjávarafurðir.

Þessi óheillavænlega þróun veldur því, að nú stefnir í halla á viðskiptum við önnur lönd á árinu 1982 er nemur um 10% af þjóðarframleiðslu og 5% samdrátt þjóðartekna á mann.“

Þessi orð eru úr þjóðhagsáætlun þeirri sem lögð var fyrir Alþingi seinni hluta okt. s.l.

Þegar brbl. voru sett í ágúst var stefna ríkisstj. mörkuð á þessa lund í yfirlýsingu ríkisstj.:

„Aðgerðir ríkisstj. mótast af eftirfarandi fjórum meginmarkmiðum:

1. Að draga verulega úr viðskiptahalla, þannig að á næstu tveimur árum megi í áföngum ná hallalausum viðskiptum við önnur lönd.

2. Að treysta undirstöður atvinnulífsins með aðgerðum til að auka framleiðni og framleiðslugetu þjóðarbúsins og tryggja þannig öllum landsmönnum næga atvinnu.

3. Að verja lægstu laun, eins og unnt er, fyrir þeim samdrætti sem orðið hefur í þjóðartekjum.

4. Að veita viðnám gegn verðbólgu.

Til þess að ná þessum markmiðum hefur ríkisstj. sett brbl. um ráðstafanir í efnahagsmálum. Aðalefni brbl. er eftirfarandi:

1. Dregið er úr víxlgangi kaupgjalds og verðlags með helmingslækkun verðbóta á laun 1. des. n.k.

2. Aflað er tekna á þann hátt að dregið er úr viðskiptahalla. Tekjunum verður ráðstafað til jöfnunar lífskjara.

3. Um leið og gengi krónunnar er breytt til að styrkja stöðu atvinnuveganna og draga úr innflutningi er helmingi gengismunar varið til sérstakra ráðstafana í þágu sjávarútvegs, einkum vegna erfiðleika í togaraútgerð.

Auk þeirra aðgerða, sem ákveðnar hafa verið með brbl., hefur ríkisstj. ákveðið að standa að eftirfarandi.“ Er síðan í 21 lið birt stefna ríkisstj. í fjölmörgum mikilvægum málum og er sá málalisti birtur á bls. 10–11 í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Samkv. 1. gr. frv. hefur verið ákveðið að fella niður helming verðbóta á laun 1. des. n.k. miðað við þær verðbætur sem annars hefðu reiknast á laun á þeim degi. Samsvarandi ákvæði tekur til launa í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins og í vinnslu- og dreifingarkostnaði búvöru. Jafnframt er ákveðið í þessari grein að almennt fiskverð hækki ekki meira en nemi hækkun verðbóta á laun á umræddu tímabili.

Ástæðan fyrir því að nú varð að takmarka verðbætur á laun er sú, að þjóðarbúið hefur orðið fyrir alvarlegum áföllum á þessu ári. Eins og fram hefur komið munu þjóðartekjur að líkindum dragast saman um 5% á mann á árinu 1982, en einnig eru horfur á verulegum samdrætti á næsta ári. Slík minnkun þjóðartekna hefur óhjákvæmilega í för með sér minni tekjur fólks, minna er til skiptanna en áður. Með brbl. í ágúst og þeim efnahagsráðstöfunum, sem samhliða voru boðaðar, var ákveðið að taka á vandanum með samræmdum hætti og dreifa byrðum efnahagsáfallanna með skipulegum aðgerðum.

Eitt fyrsta einkenni efnahagssamdráttar er oftast nær vaxandi atvinnuleysi. Þrátt fyrir þessi áföll og samdrátt í efnahagslífinu, meiri samdrátt á skemmri tíma en yfirleitt þekkist í vestrænum löndum, hefur tekist að forðast atvinnuleysi. Til þess að ná þeim árangri er nauðsynlegt að beita fjölmörgum aðgerðum til að aðlaga efnahagsstarfsemina að samdrættinum á sem skemmstum tíma án þess að þeim mun alvarlegri hliðarverkanir fylgi í kjölfarið. Það felur í sér að draga verður úr þjóðarútgjöldum um leið og þess er gætt að hlúa að tækifærum til framleiðsluaukningar, er skilað gætu þjóðarbúinu á vaxtarbraut aftur. Sá kostur sem ríkisstj. valdi í þessum vanda byggist á því að samræma aðgerðir á sem flestum sviðum efnahagslífsins með það fyrir augum að komast hjá þeim fórnum sem einhliða aðhaldsaðgerðir í peninga- og ríkisfjármálum hafa haft í för með sér og reynslan sýnir hjá ýmsum öðrum þjóðum. 1. gr. frv. er þáttur í þessari heildarstefnu. Hún miðar að hvoru tveggja í senn, annars vegar að minnka útgjöld þjóðarbúsins og draga þannig úr viðskiptahalla og hins vegar að lækka kostnað atvinnuveganna og styrkja þar með stöðu þeirra.

Samkv. 2. gr. frv. er ríkisstj. heimilt að ákveða sérstakar bætur, allt að 50 millj. kr., úr ríkissjóði til láglaunafólks á árinu 1982. Tilgangurinn með þessu ákvæði er sá að draga úr tekjuskerðingu þess launafólks sem minnst ber úr býtum. Það er verið að milda áhrif efnahagsörðugleikanna á þá sem lægstu launin hafa í þjóðfélaginu. Það er unnið að því að útfæra bótareglur í þessu skyni í samráði við samtök launafólks. Í þessu sambandi er rétt að minna á 16. lið — á bls. 11 í þessu frv. — í aðgerðum ríkisstj., en þar er gert ráð fyrir því, að auk þess sem hér er getið um, þær 50 millj. sem varið verður til launabóta, verði samtals 175 millj. kr. varið á þessu og næsta ári til láglaunabóta og skattendurgreiðslna og enn fremur 85 millj. kr. til Byggingarsjóðs ríkisins.

Í 3., 4. og 5. gr. frv. er að finna ýmis ákvæði sem varða gengismál. Til að treysta stöðu atvinnuveganna, einkum útflutningsatvinnuveganna og samkeppnisgreina innflutnings á heimamarkaði, reyndist nauðsynlegt að breyta gengi krónunnar. Samhliða gengisbreytingunni var ákveðið að leggja gengishagnað í sérstakan gengismunarsjóð, sem síðan skyldi varið í þágu sjávarútvegsins, sem ber þungann af framleiðslusamdrættinum. Samkv. frv. er þessum gengishagnaði varið í meginatriðum á eftirfarandi hátt:

1. 80 millj. kr. er varið til styrktar togaraútgerð til að bæta rekstrarafkomu hennar vegna aflabrests á árinu.

2. 15 millj. kr. renna til loðnuvinnslustöðva.

3. 10 millj. kr. renna til Fiskimálasjóðs, sem varið verði til orkusparandi aðgerða í útgerð og fiskvinnslu og til fræðslu um gæði og vöruvöndun í sjávarútvegi.

4. 5 millj. kr. renna í Lífeyrissjóð sjómanna.

5. Eftirstöðvar renna í Stofnfjársjóð fiskiskipa til lækkunar á skuldum eða fjármagnskostnaði fiskiskipa. 6. gr. frv. varðar verslunarálagningu. Þar er ákveðið að beita svonefndri 30% reglu, en hún felur í sér að lækkaður er sá hundraðshluti verslunarálagningar sem samsvarar að leyfð hefði verið álagning á 30% þeirrar hækkunar álagningarstofnsins sem leiddi af hækkun á verði erlends gjaldeyris. Með þessum hætti axlar verslunin hluta af þeim byrðum sem efnahagssamdrátturinn hefur í för með sér. Næstu mánuði á undan og reyndar misseri hafði velta verið óvenjulega mikil í verslun og afkoma góð, eins og reyndar hafði komið fram skömmu áður, m.a. í skýrslu frá Verslunarráði Íslands.

7., 8., 9. og 10. gr. varða allar vörugjald. Í gildi hefur verið um nokkurra ára skeið vörugjald, annars vegar 24% gjald og hins vegar 30% gjald, mismunandi eftir vöruflokkum. Þessi lög um tímabundið vörugjald voru sett fyrst í júlímánuði 1975 með brbl., en hafa síðan verið framlengd frá ári til árs með nokkrum breytingum á prósentutölu. Um áramótin þarf að framlengja þessi lög með sama hætti og áður. Þessar lagagreinar fela annars vegar í sér nauðsynlega framlengingu og hins vegar er ákveðið að hækka þessi vörugjöld fyrir tímabilið 23. ágúst 1982 til og með 28. febr. 1983, þannig að 24% gjaldið er hækkað á þessu tímabili í 32% og 30% gjaldið er hækkað í 40% fyrir sama tímabil. Þessari hækkun var ætlað annars vegar að draga úr innflutningi og þar með viðskiptahalla, en hins vegar að afla tekna vegna launabóta og húsnæðismála.

Í 10. gr. frv. er gerð tæknileg breyting á tollskrá er varðar viðmiðun á gengi við tollafgreiðslu vara.

11. gr. varðar samræmingu á verðbótahækkun launa 1. sept. 1982. Á s.l. sumri var svo um samið í kjarasamningum milli verkalýðssamtakanna og vinnuveitenda, að 1. des. skyldu dregin frá verðbótahækkun launa 2.9%. Til þess að þessi skerðing á verðbótum, sem þannig væri um samið á hinum almenna launamarkaði, næði jafnt til allra launamanna var þetta ákvæði sett í brbl.

Herra forseti. Ég hef gert hér grein fyrir einstökum liðum þessa frv. Þetta mál hefur fengið meiri umfjöllun á undanförnum vikum og mánuðum en flest önnur mál. Ítarleg grein var gerð fyrir málinu í þeirri yfirlýsingu sem fylgdi af hálfu ríkisstj., enn fremur í stefnuræðu og þjóðhagsáætlun, og er því ekki ástæða til að hafa þessa framsögu lengri, en ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.