22.11.1982
Efri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Við heyrðum hér einn þm. Sjálfstfl. formæla ýmsum flokksbræðrum sínum og væntanlegum meðframbjóðendum á sama tíma og hann ber fram áskorun um að menn kysu þennan flokk, Sjálfstfl. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umr., en hvað eru þeir menn að kjósa sem kjósa Sjálfstfl. við þessar aðstæður? Eru þeir að kjósa áframhald þeirrar stefnu, sem ríkisstj. hefur fylgt og ýmsir sjálfstæðismenn hafa stutt, eða eru þeir að kjósa einhverja aðra stefnu, sem hér var lýst áðan?

Ég skal ekki fjölyrða um þetta. En það frv. sem hér liggur fyrir til umr. felur í sér tvo þætti sem skipta máli. Í fyrsta lagi verulega hækkun vörugjalds og í öðru lagi sérstaka kaupskerðingu núna hinn 1. des., í jólamánuðinum sjálfum, sem nemur um 8%. Þessi kaupskerðing er fyrst og fremst reikningur ríkisstj. fyrir óstjórn næstliðins árs og liðinna ára. Þetta er hár reikningur. En takið eftir því að hann er einungis lagður á launafólk og engan annan.

Ríkisstj. og Þjóðhagsstofnun gera ráð fyrir að þessi kaupskerðing muni skila því að verðbólga verði um 8% lægri á næsta ári en ella að öllu óbreyttu. En engu að síður verði verðbólgan á bilinu 60–65%. Þetta er mikil fórn fyrir launafólk í jólamánuðinum fyrir svo lítinn árangur, ef árangur skyldi kalla.

Afstaða Alþfl, til þessa frv. liggur fyrir. Hann er andvígur þessu frv. Þegar í ágúst lýsti Alþfl. andstöðu sinni við þetta frv. og lagði til að þing yrði kvatt saman og síðan yrði efnt til nýrra kosninga. Við munum hins vegar að sjálfsögðu greiða fyrir því að þetta frv. fái skjóta og þinglega meðferð eins og því ber.