22.11.1982
Efri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Lárus Jónsson (frh.):

Herra forseti. Ég hafði fjallað nokkuð um málflutning hæstv. ráðh. Tómasar Árnasonar og rætt um það sem fram kemur í gögnum um haldleysi ráðstafananna sem felast í þessum brbl. Meginatriðið í því er það, að svo stórfelld kjaraskerðing sem felst í þessum lögum, bæði með skerðingu verðbóta á laun og eins með gífurlegri skattahækkun, hefur ekki meiri áhrif en svo, að verðbólgan heldur áfram í sama fari á næsta ári, að viðskiptahallinn verður stórfelldur og skuldasöfnun erlendis heldur áfram. Þannig mætti lengi telja.

Ég skal ekki endurtaka það sem hér kom fram og skal stytta mjög mál mitt, þó að ástæða hafi verið til að tala um miklu fleira af því sem kom fram í máli hæstv. ráðh. Tómasar Árnasonar. Hann rakti raunar efnahagsráðstafanir ríkisstj. frá því að hún var mynduð og gaf mér mörg tilefni til að halda uppi langri og ítarlegri umr. um efnahagsmálin. Ég legg þó nokkuð upp úr því að þetta mál eigi greiðan aðgang til nefndar, geti komist þangað, þannig að hv. fjh.- og viðskn. fái tilefni til að gaumgæfa það.

Eitt atriði vildi ég þó koma hér inn á, sem var veigamikill þáttur í málflutningi bæði hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh., Tómasar Árnasonar. Það eru þær fullyrðingar, sem koma frá hæstv. ráðherrum og forráðamönnum ríkisstj., að allt sé hér í kalda koli, hættuástand hafi skapast hér í efnahagsmálum. Þeir hafa tekið misjafnlega djúpt í árinni við að lýsa ástandinu. Sumir hverjir hafa sagt að við höfum ekki horfst í augu við aðra eins efnahagserfiðleika í áratugi, aðrir hafa tekið heldur grynnra í árinni, en allir segja þeir: Meginástæðan fyrir þessu er sú, að afli hefur brugðist og það eru miklir erfiðleikar á okkar mörkuðum.

Ég skal út af fyrir sig ekki vefengja að snögg umskipti hafa orðið í þjóðarbúskapnum að þessu leyti. En það er athyglisvert, þegar um þetta er rætt, að það er eitt megineinkennið í íslenskum þjóðarbúskap síðustu árin hve afli og sjávarvöruframleiðsla hefur aukist gífurlega. Það er að sjálfsögðu vegna útfærslu landhelginnar í 200 mílur á sínum tíma. Sjávarvöruframleiðslan jókst um 27% að raungildi á árunum 1979 og 1980. Það eru auðvitað þessi gífurlegu uppgrip, sem við Íslendingar höfum notið vegna mikillar sjávarvöruframleiðslu undanfarin ár, og feiknalega miklar erlendar lántökur sem hafa valdið því að hér hefur verið full atvinna þrátt fyrir það stjórnleysi sem hér hefur ríkt.

Að vísu versnuðu viðskiptakjör á árinu 1979, eins og hæstv. ráðh. tók fram. Ég kannast nú ekki við þá tölu að viðskiptakjör hafi versnað um 15% á árunum 1979 og 1980. Það er sönnu nær að þau hafi versnað um 9%, en hitt er annað, að svo mikill var okkar búhnykkur vegna aukins afla og sjávarútvegsframleiðslu að þessi rýrnun viðskiptakjara var aðeins eins og dropi í hafið í því að draga úr þeim búhnykk og hefði ekki átt að valda okkur stórfelldum erfiðleikum.

Það er raunar svo, að frá 1980, þegar núv. hæstv. ríkisstj. settist að völdum, hafa viðskiptakjör haldist nokkuð í horfinu þangað til í ár. Þar kemur til gífurleg hækkun dollarans á alþjóðlegum markaði. Það má segja að viðskiptakjörin hafi haldist óbreytt þetta tímabil. Á það er einnig að líta að núv. hæstv. ríkisstj. hefur haft verulega góðan byr, allavega getum við sagt að það er ólíkt með hvaða hætti alþýðusamtökin hafa fjallað um ráðstafanir núv. hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, verðbótaskerðingar á laun o.s.frv., eða ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar og þær ráðstafanir sem hæstv. ráðh. Tómas Árnason talaði um áðan.

En upp úr stendur að þessi mikla framleiðsla úr sjávarafla, sem hefur verið undanfarin ár, kemur okkur ekki að meira gagni nú, þegar nokkur minnkun verður í afla frá því hann varð mestur í Íslandssögunni, árið 1981, en svo að við stöndum frammi fyrir hættuástandi, sem hæstv. ráðherrar hafa, eins og áður sagði, dregið dekkstum litum fyrir þjóðina.

Ef ég svo að lokum, herra forseti, fer yfir í örfáum orðum þær aðgerðir, í hverju þær hafa lýst sér, sem núv. hæstv. ríkisstj., og raunar vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar, hefur beitt sér fyrir í efnahagsmálum síðustu ár, þá eru þær þessar í meginatriðum:

Þessar ríkisstjórnir, og núv. hæstv. ríkisstj. alveg sérstaklega, hafa beitt mjög hörðum verðlagshöftum og niðurtalningu. Menn brosa og hlæja að mönnum sem enn hafa þrek til að tala um niðurtalningu eins og hæstv. ráðh. gerði áðan, því að verðbólgan stefnir hærra en nokkru sinni fyrr.

Gengishöftum hafa þessar ríkisstjórnir beitt og alveg sérstaklega núv. hæstv. ríkisstj., sem hefur orðið til þess að atvinnuvegirnir eru á vonarvöl, en gengi hefur aldrei fallið meir en í tíð núv. ríkisstj. Krónan hefur hækkað í verði um 100°/ eða rúmlega það á einu ári.

Niðurgreiðslur og millifærslur hafa verið sérstakar uppáhaldsráðstafanir þessarar ríkisstj. Þær hafa leitt til þess að við stöndum frammi fyrir ógöngum í ríkisfjármálum. Landbúnaðinum er hætta búin af slíkum niðurgreiðslum, en verðbólgan æðir áfram.

Verðbótaskerðingar á laun hafa verið sérstakt uppáhaldsbjargráð þessara ríkisstjórna. Þær hafa skert verðbætur á laun 13 sinnum. Það er athyglisvert að flokkarnir sem unnu kosningasigur 1978 með því að beita fyrir sig slagorðunum „samningana í gildi“, „kaupráni“ og „kosningar eru kjarabarátta“ hafa staðið að þessum 13 verðbótaskerðingum á laun á þessum tíma. En þessar verðbótaskerðingar á laun, sem nema kannske eitthvað nálægt 50%, hafa ekki skilað meiri árangri en við stöndum nú frammi fyrir.

Skattar hafa hækkað svo gífurlega að einungis í tíð núv. ríkisstj. ganga 3.1 % af þjóðarframleiðslu í hækkun skatta. 3.1% af þjóðarframleiðslu jafngildir því, að núverandi ríkisstj. sendi hverri fjölskyldu í landinu 28 þús. kr. aukaskattreikning í ár á verðlagi ársins í ár. Þannig hefur skattheimtan aukist.

Við þurfum ekki að minnast á eyðslu og óreiðuskuldasöfnun erlendis, eins og búið er að margbenda á, en öll þessi afturhaldsstefna hefur valdið taprekstri og minnkandi framleiðslu í atvinnulífinu, stöðnun þjóðarframleiðslu og rýrnandi kaupmætti heimilanna. Meira að segja á metaflaárunum 1980 og 1981 átt sér þessi þróun stað.

Herra forseti. Ég vil að lokum spyrja hæstv. ráðh.: Getur það verið tilviljun að árin 1980 og 1981, þegar mestur afli barst á land af Íslandsmiðum og mest var sjávarvöruframleiðslan, varð stöðnun í þjóðarframleiðslu, lífskjör fóru versnandi og þá var farið út í mestu óreiðu- og eyðsluskuldasöfnun sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir, bæði hjá atvinnuvegunum og eins hjá þjóðarbúinu, erlendis? Getur þetta verið tilviljun? Þá var áfallið, sem menn tala mest um núna 1982, ekki skollið á. Hverju var þá um að kenna, hæstv. ráðherrar?