22.11.1982
Neðri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

5. mál, Útvegsbanki Íslands

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, Sighvati Björgvinssyni og Magnúsi H. Magnússyni að flytja frv. um breytingu á lögum um ríkisbankana, þ.e. lögum um Útvegsbanka Íslands, lögum um Búnaðarbanka Íslands, lögum um Seðlabanka Íslands og lögum um Landsbanka Íslands. Þar sem þær breytingar sem lagðar eru til á lögum þessum eru að efni til nákvæmlega þær sömu vil ég, með leyfi forseta, fá að mæla fyrir þeim öllum í einu í þessari umr. um breytingu á lögum um Útvegsbanka Íslands. Það eru frv. á þskj. 5, 6, 7 og 8.

Á síðasta þingi voru samþykkt lög um breytingu á lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Þar var lagt til að ríkisreikningi fylgdi fylgirit með ýmsum upplýsingum er snertu ríkisútgjöld og sem áhrif hefðu á niðurstöðu ríkisreiknings, svo sem yfirlit yfir aukafjárveitingar, greinargerð fjárlaga- og hagsýslustofnunar um forsendur fjárlagaársins og breytingar á þeim forsendum, svo eitthvað sé nefnt. Einnig var þar lagt til að ríkisreikningi skyldi fylgja sundurliðað yfirlit um launagreiðslur, bifreiða-, risnu- og ferðakostnað og skyldu þessir rekstrarþættir sundurliðast hjá einstökum rn. og ríkisstofnunum. Forsenda þess, að sérstaklega var lögð til sundurliðun á þessum rekstrarútgjöldum, var að slíkt væri mikilvægur þáttur í öllu aðhaldi í ríkisrekstri, þar sem hér var um að ræða rekstrarútgjöld sem væru snar þáttur í ríkisútgjöldum bæði stofnana og rn. Var þar t.d. bent á að meta þyrfti hagkvæmni þess í ríkisrekstrinum, hvort aðhald í stöðuveitingum skapi óeðlilega mikla yfirvinnu hjá einstökum stofnunum eða rn., og bent á nauðsyn þess að fá fram hve föst yfirvinna er ákvarðandi þáttur í launakerfi ríkisins. Einnig að liður í aðhaldi og eftirliti með ríkisútgjöldum væri samanburður á hagkvæmni í rekstri ríkisbifreiða á móti greiðslum fyrir notkun bílaleigubifreiða og leigubifreiða og greiðslum fyrir afnot af bifreiðum starfsmanna, auk þess sem fullt eftirlit þyrfti að vera með ferða- og risnukostnaði.

Þær breytingar sem hér hefur verið lýst, þ.e. að fá fram sundurliðun á launagreiðslum, bifreiðakostnaði, risnu- og ferðakostnaði, og samþykktar voru á s.l. Alþingi ná ekki til ríkisbankanna. Það er skoðun flm. þessa frv. að nauðsynlegt sé að slík ákvæði nái til ríkisbankanna einnig, ekki síður en til rn. eða annarra ríkisstofnana. Í lögum um reikningsskil ríkisbankanna eru ekki önnur ákvæði en um birtingu ársreiknings í Stjórnartíðindum og um skyldu þeirra að birta um hver mánaðamót yfirlit um efnahag bankans, auk ákvæða um að endurskoðun reikninga skuli gerð af tveim endurskoðendum sem Alþingi kýs hlutbundinni kosningu til tveggja ára í senn. Í lögum um Seðlabanka Íslands er einnig ákvæði um bankaeftirlit og skyldu innlánsstofnana til að láta bankaeftirlitinu í té reikninga sína og aðrar upplýsingar í því formi og svo oft sem óskað er. Einnig að bankaeftirlitinu sé heimilt að rannsaka bókhald og eignir innlánsstofnana hvenær sem ástæða þykir til.

Eins og fram kemur í grg. með frv. er nokkuð mismunandi í ársreikningum bankanna hvernig sundurliðun þeirra þátta er háttað sem lagt er til að lögfest verði að sérstaklega beri að gera grein fyrir. Í ársskýrslum bankanna virðast þeir fjórir rekstrarþættir sem lagt er til að sundurliðaðir verði sérstaklega, þ.e. launagreiðslurnar, bifreiða-, risnu- og ferðakostnaður, koma fram aðeins undir einum lið — rekstrarkostnaður — án nokkurrar frekari sundurliðunar. Undanskilja ber þó Útvegsbanka Íslands þar sem um ítarlegri sundurliðun er að ræða. Þar kemur sérstaklega fram kostnaður vegna launa og launatengdra gjalda og hins vegar annar skrifstofu- og stjórnunarkostnaður.

Það er auðvitað ljóst að slík reikningsskil gefa ekki glögga mynd af rekstrarútgjöldum bankanna þegar aðeins kemur fram ein heildarupphæð um rekstrarkostnað án nokkurrar skýringar eða sundurliðunar.

Ef ég tek Landsbanka Íslands sem dæmi þá kemur fram í rekstrarreikningi hans fyrir árið 1981 undir liðnum rekstrarkostnaður upphæðin 157 millj. 908 þús. kr. Það hlýtur að vera nauðsynlegt að fá frekari skýringar á hvernig slík upphæð sundurliðast á einstaka rekstrarþætti til þess að virkt eftirlit og aðhald sé með rekstri bankanna.

Vel má vera að endurskoðendur, bankaráð og ráðh., sem úrskurða reikninga bankans, fái fram frekari sundurliðun en kemur fram í ársreikningi. Ég tel engu síður brýnt að aðrir, svo sem alþm., sem áhuga hafa á að kynna sér árstekjur bankanna og hag og rekstur þeirra hafi að því greiðan aðgang hvernig rekstrarkostnaður bankanna skiptist eftir einstökum rekstrarþáttum. Það er ljóst að alþm. hafa margir hverjir áhuga á að fylgjast með rekstri bankanna. Má marka það af því að á hverju ári eru bornar fram fyrirspurnir hér á Alþingi þar sem óskað er eftir ýmsum upplýsingum varðandi reikningsskil bankanna. Mig minnir að núna liggi fyrir fsp. varðandi þetta atriði, enda eru slíkar upplýsingar nauðsynlegur liður í aðhaldi og eftirliti ekki síður hjá bönkum en öðrum ríkisstofnunum.

Í þessum frv. um ríkisbankana er einnig lagt til að sundurliðuð verði og samræmd reikningsskil hjá bönkunum að því er eignabreytingu varðar. Lagt er til að efnislegir fjármunir verði sundurliðaðir þannig;

a) Húseignir, lóðir og lendur.

b) Vélar, áhöld, húsgögn l. fl.

c) Bifreiðar.

d) Aðrar eignir.

Sundurliða skal framangreinda flokka þannig:

1. Keypt og byggt á árinu.

2. Selt á árinu.

3. Afskrifað og fært á rekstrarreikning.

4. Endurmat á árinu fært á endurmatsreikning. Varðandi reikningsskil á fjármunamyndun kemur ekki nægilega skýrt fram sundurliðun á lausum og föstum fjármunum, þó nokkuð sé það misjafnt eftir bönkum. Uppgjör bankanna gefur því ekki nægilega glögga mynd af áhrifum einstakra þátta í eignabreytingu á reikningsskil og hag bankanna, svo sem sundurliðun afskrifta eða endurmats á þá þætti efnislegra fjármuna sem í frv. er lagt til að sundurliðaðir verði, en þannig fást einnig fram samræmd reikningsskil hjá bönkunum hvað efnislega fjármunamyndun varðar.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að óska eftir að þessum fjórum frv., á þskj. 5, 6, 7 og 8, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.