22.11.1982
Neðri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

15. mál, stjórn efnahagsmála

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á þskj. 15 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni og Karvel Pálmasyni að flytja frv. til l. um breytingu á lögum nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála.

Þetta frv. hefur nú verið á dagskrá þessarar deildar síðan 12. okt. s.l., en við Alþýðuflokksmenn höfum lagt mikla áherslu á að fá þetta mál til umr. og afgreiðslu, sérstaklega vegna þeirra umr. sem fram fóru hér á dögunum um vaxtamál. Í þeirri umr. kom fram að tveir þingflokkar, Alþb. og Framsfl., hafa ályktað um það efni sem felst í þessu frv. og í þeim ályktunum kom fram jákvæð afstaða til þeirra hugmynda um meðferð mismunar á verðtryggingarviðmiðun og kaupgjaldi sem lagt er til í þessu frv. að fara eftir. Fjmrh. hefur lýst yfir, gerði það við umr. um vaxtamál, að þetta sé helsta áhyggjuefni Alþb.-manna í vaxtamálum og í ályktun Alþb. kemur fram að brýnt sé að finna lausn á þessum málum vegna kjaraskerðingarinnar 1. des., en þá mun mismunur enn aukast um 10%. Einnig má benda á í þessu sambandi, að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hefur margbent á nauðsyn þess að fá þá leiðréttingu fram á þessu máli sem fram kemur í þessu frv. Fram kemur í Þjóðviljanum 8. sept. s.l., að framgangur þessa máls, að fá leiðréttingu á lánskjaravísitölunni og kaupgjaldsvísitölunni, sé eitt af þeim skilyrðum sem hann setur fyrir samþykkt við brbl. Reyndar hefur það komið fram hjá honum í umr. á Alþingi. Því gerum við Alþfl.-menn okkur vonir um skjótan framgang þessa máls hér á þingi.

Í þessu frv. felast tvær meginbreytingar. Í fyrsta lagi að aðeins verði notuð ein vísitala, það er lánskjaravísitala, í útlánakjörum til einstaklinga, en ekki jöfnum höndum notaðar lánskjara- og byggingavísitala. Í annan stað er lögð til sú breyting, að sé greiðslubyrði lána á einhverjum tíma frá lántökudegi til greiðsludags meiri en sem nemur viðmiðun við ákveðna kaupgreiðsluvísitölu skuli sá mismunur sem myndast á verðtryggingarviðmiðun og áhrifum í kaupgreiðsluvísitölu mynda sérstakan viðauka höfuðstóls sem greiðist á framlengdum lánstíma og byrjar fyrst að gjaldfalla er upphaflegum lánstíma lýkur.

Í 3. gr. frv. er síðan kveðið á um skyldu Seðlabankans til að birta reglulega þá kaupgreiðsluvísitölu sem notuð verður til viðmiðunar greiðslu hverju sinni.

Í ákv. til brb. er síðan fjallað um meðferð eldri lánveitinga vegna ákvæða frv., verði þau að lögum, en þar er lagt til að ákvæði frv. nái einnig til eldri lánveitinga.

Eins og segir í grg. með þessu frv. er markmið þess að fyrirbyggja að versnandi lífskjör auki greiðslubyrði verðtryggðra lána langt umfram eðlilega greiðslugetu fólks, m.ö.o. að tillit sé tekið til þess við útreikninga verðtryggðra lána þegar lífskjör fara versnandi og verðmæti vinnulauna fylgja ekki verðgildi annarra verðmæta í þjóðfélaginu.

Nú er það svo, eins og allir vita, að fílefldar kjaraskerðingar undanfarinna ára hafa gert að verkum að kauptaxtar launþega hafa í kjölfar þeirra kjaraskerðinga stöðugt dregist aftur úr verðtryggingarviðmiðun með þeim afleiðingum að lántakendur eiga erfitt með að standa í skilum og greiðslubyrði lána fer sífellt vaxandi. Þegar launþegar hafa almennt ekki önnur úrræði til að standa undir fjárskuldbindingum sínum en verðmæti vinnu sinnar er ljóst að haldist þessi þróun áfram muni hún hreinlega kollvarpa getu lántakenda til að standa í skilum, þá sérstaklega húsbyggjenda sem þurfa að taka á sig miklar verðtryggðar skuldbindingar.

Með tilkomu verðtryggingarákvæðanna, sem tóku gildi með lögum um stjórn efnahagsmála árið 1979, voru fyrirsjáanlegir ýmsir aðlögunarerfiðleikar almennings á lánsfjármarkaði. Vegna mjög neikvæðra vaxta og takmarkaðrar verðtryggingar greiddu lántakendur aldrei til baka raunvirði þeirra peninga sem þeir fengu að láni og treystu mjög á hjálp verðbólgunnar til að létta á skuldum sínum.

Í raun var það svo, að hin nýju verðtryggingarákvæði, sem tóku gildi 1979, höfðu ekki að marki þau áhrif að draga úr eftirspurn eftir lánsfé nema kannske fyrst í stað. Skýringin á þessu var m.a. sú, að í kjölfar verðtryggingarákvæðanna jókst verulega framboð á lánsfé og lánastofnanir kynntu verðtryggðu lánin með lægri atborgunarkjörum og vaxtagreiðslum fyrstu árin en fylgdu gömlu lánunum. Einnig var sú viðmiðun, sem lánastofnanirnar gáfu svo sem lífeyrissjóðir, að launin héldust í hendur við verðtryggingarvísitölu, sem allir vita að ekki hefur orðið reyndin síðustu árin.

Samkv. lögum frá 1979 átti samhliða verðtryggingu almennt að lengja lánstíma til að mæta greiðslubyrðum sem af verðtryggingunni leiddi. Þetta ákvæði hafa stjórnvöld að verulegu leyti heykst á að framkvæma þótt einstakir lífeyrissjóðir hafi lengt lánstímann eitthvað.

Þótt afborgunarkjörin séu hagstæð allra fyrstu árin frá lántöku þyngjast þau stöðugt og er nú einmitt að koma í ljós að margir hafa reist sér hurðarás um öxl og ekki nógsamlega áttað sig á áhrifum verðtryggingarákvæðanna til lengri tíma litið, auk þess sem kaupgreiðsluvísitalan hefur ekki haldist í hendur við lánskjara- eða byggingarvísitöluna, með þeim afleiðingum að stöðugt eykst greiðslubyrðin.

Í lögum um stjórn efnahagsmála eru í 39. gr. talin upp nokkur skilyrði verðtryggingar, en að öðru leyti er Seðlabankanum falið að ákveða lánskjör verðtryggðra lána þar með talið að ákveða vísitölu eða vísitölur þær sem nota skal til viðmiðunar. Gerð var ný lánskjaravísitala samsett úr tveim eldri vísitölum, vísitölu framfærslukostnaðar að 2/3 hlutum og vísitölu byggingarkostnaðar að 1/3 hluta. Seðlabankinn hefur jafnframt heimilað notkun byggingarvísitölu sem grundvallar verðtryggingar. Þó lánskjaravísitala sé að mestu notuð sem verðtryggingarviðmiðun í lánum til einstaklinga í dag er enn einnig notuð byggingarvísitala og notar t.d. Lífeyrissjóður verslunarmanna byggingarvísitölu, en til að mynda Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna og SAL-sjóðirnir lánskjaravísitölu. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk hjá veðdeild og Húsnæðismálastofnun í sept. s.l. var mér tjáð að notuð væri byggingarvísitala sem verðtryggingarviðmiðun, og kemur það fram í grg. með þessu frv. Nú hef ég verið upplýst um að ég hafi ekki fengið réttar upplýsingar þarna, — þessu hafi verið breytt 1. apríl s.l. og Húsnæðismálastofnun styðjist nú við lánskjaravísitölu.

Ef bornar eru saman lánskjaravísitala og byggingarvísitala og meðalvísitala launa frá 1. júní 1979 til 1. okt. 1982 kemur eftirfarandi í ljós: Lánskjaravísitala hefur hækkað um 323%, byggingarvísitala um 375%, áætluð meðallaun verkamanna hafa hækkað um 291%, verkakvenna um 285%, iðnaðarmanna um 302%, verslunarmanna um 261%, landverkafólks um 286% og opinberra starfsmanna um 255%. Samtals hafa því meðallaun þessara starfshópa, sem ég hef hér rakið, hækkað um 277% á móti því að lánskjaravísitalan hækkar um 323% og byggingarvísitala um 375% á þessum tíma. Það er því alveg ljóst að launahækkanir á undanförnum árum hafa dregist verulega aftur úr hækkun lánskjara- og byggingarvísitölu og launþegar þurfa því almennt að leggja á sig mun meiri vinnu til að standa undir sínum fjárskuldbindingum.

Í grg. hef ég tekið dæmi um greiðslubyrði. Þar er gert ráð fyrir að ákvæði þessa frv. hefðu gilt 1. júní 1979 eða þegar lánskjaravísitalan var fyrst reiknuð út. Þá er tekið dæmi um lán sem tekið var 1. júní 1979 að upphæð 120 þús. kr. til 20 ára með 2% vöxtum. Helmingur þessa láns hafði verið tryggður með lánskjaravísitölu og helmingur með byggingarvísitölu. Miðað við þá þróun sem verið hefur síðan 1. júní 1979 eru áhrif ákvæðisins í frv. á lengingu lánsins fimm mánuðir þessi fyrstu þrjú ár, frá 1979 til 1982, eða að raungildi er mismunurinn um 14 600 kr., sem þá mundi frestast og mynda viðauka höfuðstóls. Ef við gefum okkur að sama þróun haldist áfram út allan lánstímann þýddi það í þessu dæmi alls 2.7 ára framlengingu lánsins.

Einnig er í töflu V í grg. tekið dæmi um 150 þús. kr. lán sem tekið er til 25 ára með lánskjaravísitölu. Dæmið byggist á að lánskjara- og launaþróun næstu 25 árin verði með sama hætti og tímabilið júlí 1979 til júlí 1981. Miðað við að sama þróun haldist áfram mundi lánstíminn lengjast um 3 ár vegna þessarar lántöku, en það verður að teljast ólíklegt að sú þróun haldist áfram til margra ára.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Hvaða áhrif hefur þessi breyting á lánastofnanir og getu þeirra til að standa undir lengingu lánstímans sem af henni gæti leitt? Á það vil ég leggja áherslu að á engan hátt er um tekjutap að ræða hjá lánastofnunum samkvæmt ákvæðum þessa frv., þar sem viðauki höfuðstóls er verðtryggður samkv. lánskjaravísitölu allan tímann. Þó ekki sé nein breyting sýnileg fram undan á þeirri þróun sem verið hefur, heldur þvert á móti, verður almennt að gera ráð fyrir að lífskjör fari batnandi, a.m.k. þegar til lengri tíma er litið, og áhrifa þessa frv. gæti því ekki nema tímabundið.

Hvað lífeyrissjóðina snertir eru innlánsskuldbindingar þeirra í raun verðtryggðar samkv. kaupgreiðsluvísitölu og því ætti frv. ekki að hafa nein afgerandi áhrif á greiðslugetu þeirra við útborgun lífeyrisgreiðslna.

Fjáröflun Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna er með svo margvíslegum hætti að erfitt er að gera sér glögga grein fyrir áhrifum þessara breytinga á útlánagetu þeirra.

Þó mikill munur hafi verið á verðtryggingarviðmiðunum og kaupgreiðsluvísitölu undanfarin þrjú ár, og eins og áður er getið þýddi slík áframhaldandi þróun á lánstímabili, t.d. lána úr Byggingarsjóði ríkisins, um þriggja ára framlengingu lána, þá er, eins og ég hef hér nefnt, harla ólíklegt að slík þróun haldist jafnlengi. Miklu líklegra er að kjararýrnun vari tímabundið, en geti þó hugsanlega orðið mun meiri en undanfarin þróun sýnir. Það verður því að teljast sennilegt að slík lagabreyting, sem frv. gerir ráð fyrir, komi sér vel fyrir fólk þegar kjaraskerðingar skella á fyrirvaralaust í stuttan tíma, en þýði þó í reynd skamma lengingu lánstímans.

Andstætt byggingarsjóðunum lána bankarnir einstaklingum aðallega skammtímalán, a.m.k. enn sem komið er. Greiðslutilfærslan er því miklu styttri hjá bönkunum og ætti því litlu máli að skipta, þar sem ekki er um neitt tekjutap að ræða því að höfuðstólsviðauki er að fullu verðtryggður. Þá má benda á að innlánsskuldbindingar bankanna eru ekki nærri allar verðtryggðar, heldur ráða bankarnir yfir verulegu fé sem er ekki verðtryggt, t.d. fé sem er á ávísana- eða hlaupareikningi. Af framansögðu verður því ekki séð að ákvæði þessa frv. muni skerða útlánagetu lánastofnana eða möguleika þeirra til fullverðtryggðra innlána.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að kaupgreiðsluvísitala sú, sem valin hefur verið sem viðmiðun, skuli leidd af taxta verkamanna í fiskvinnslu, efsta starfsaldursþrepi. Eðlilegt er að spurt sé hvers vegna sú viðmiðun sé notuð.

Ástæða þess er, að í fyrsta lagi er þessi viðmiðun notuð við ákvörðun atvinnuleysisbóta og við ákvörðun fæðingarorlofsgreiðslna. Verður því að ætla að þessi viðmiðunargrundvöllur hafi verið talinn nokkuð eðlilegur sem viðmiðun meðaltaxtakaups í landinu. Eini munurinn er sá, að atvinnuleysisbætur og fæðingarorlofsgreiðslur fylgja hækkun 8. launaflokks Verkamannasambands Íslands, en kaupgreiðsluvísitala frv. fylgir launahækkunum starfsheitisins „verkamenn í fiskvinnu“. Þetta starfsheiti er nú í 8. launaflokki.

Í öðru lagi felur þessi viðmiðun í sér starfsaldurshækkun og launaflokkatilfærslur, þar sem hún er bundin við starfsheiti, en ekki launaflokk. Þetta tel ég mjög mikilvægt því að alltaf er nokkur launahækkun bundin við starfsaldurshækkanir og launaflokkatilfærslur sem grunnkaupshækkanir mæla ekki.

Í þriðja lagi er ein launaviðmiðun miklu auðveldari í útreikningi en meðallaun þar sem tillit þarf að taka til fjölda í hverjum launaflokki og áætla vægi starfsaldurshækkana og launaflokkatilfærslna. Á það verður þó að benda, að því fylgir nokkur áhætta að miða eingöngu við eitt starfsheiti þar sem engan veginn er víst að launahækkanir verkamanna í fiskvinnu endurspegli alltaf almenna launaþróun í landinu. Af töflu II í grg. má þó sjá að í dag er um rúmlega meðaltaxta launa að ræða. Í frv. er því gert ráð fyrir að þennan viðmiðunargrunn á kaupgreiðsluvísitölu verði að endurskoða reglulega með tilliti til þess hve vel þessi viðmiðun reynist.

Herra forseti. Ég hef í stuttu máli reynt að gera grein fyrir þessu frv. Ég vil endurtaka að við Alþfl.-menn leggjum mikla áherslu á framgang þessa frv. og að það fái skjóta afgreiðslu hér á þingi. Ég vil minna á að munurinn eykst mjög mikið núna 1. des. á lánskjaravísitölu og kaupgjaldi, eða um 10%. Því er nauðsynlegt að þetta frv. fái hér skjótan framgang til þess að hægt sé að leiðrétta þetta mál.

Ég vil að lokum, herra forseti, leyfa mér að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.