19.10.1982
Sameinað þing: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

13. mál, stefna í flugmálum

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi lögðum við fram þrír þm. Alþfl. till. til þál. um mótun opinberrar stefnu í flugmálum. Þá urðu miklar umr. um þessa till., sem stóðu á fjórðu klukkustund, og þátt í þeirri umr. tóku fulltrúar allra þingflokka. Það sem mér þótti raunar merkilegast við þá umr., sem var fyrsta umtalsverða og efnislega umr. sem fór fram á þinginu um íslenska flugmálastefnu, var hve litið heyrðist um hana í fjölmiðlum hér á landi. Ég ætla ekki að gera því skóna að það hafi verið af einhverjum annarlegum ástæðum heldur því, að menn hafi þá líklega verið uppteknir af einhverju öðru. En hafi verið þörf á því að ræða stefnu í íslenskum flugmálum á síðasta þingi, þá er nauðsyn að gera það nú.

Ég vil benda á nokkur atriði, sem gerst hafa síðan þetta mál var til umr. hér á síðasta þingi. Það er alveg augljóst, að sú samkeppni, sem stefnt var að og efnt til á þessu sumri í millilandaflugi á Íslandi, hefur orðið til þess að skaða bæði félögin sem tóku þátt í henni. Þessi samkeppni átti samkv. skoðun hæstv. samgrh. að verða öllum til góðs er að henni stæðu. Ég held að það hljóti að vera öllum ljóst, sem eitthvað hafa kynnt sér flugmál og það sem gerst hefur í flugmálum á undanförnum mánuðum og misserum, að þau flugfélög, sem nú halda uppi samkeppni enn þá í millilandaflugi, því að skipting flugleiða á milli þeirra hefur ekki tekið að fullu gildi, hafa bæði tapað og vandi þeirra er að verða mikill. Þingið stendur frammi fyrir því að eyða 4 tugum milljóna eða þar um bil, nota 4 tugi milljóna, hvort sem við köllum það endurgreiðslu til Flugleiða hf. eða styrk, vegna þess hve illa gengur í fluginu hjá þeim. Það má því segja um þetta mál með nokkrum rétti, að það sem afhent er með annarri hendinni er tekið með hinni.

Í umr. á síðasta þingi um þetta mál kom í ljós, að ræðumenn og fulltrúar þingflokkanna voru flm. í mjög mörgum atriðum sammála. Það kom m.a. í ljós, að hæstv. flugmálaráðherra var í stórum dráttum sammála grundvallaratriðum þeirrar till. sem hér liggur frammi til umr. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði þá um það, að það hlyti öll mönnum að vera það ljóst, sem eitthvað fengjust við flugmál hér á landi, að millilandaflugið og aðalflugleiðir hér innanlands væru ekki til skiptanna, ef unnt ætti að vera að bjóða öruggar flugsamgöngur. Ég held að þetta hafi verið sannað með margvíslegum rökum, sem ekki verði hnekkt.

Ég vil líka minna á það, að þessi stefna var raunverulega staðfest af íslenskum stjórnvöldum þegar Flugfélag Íslands og Loftleiðir voru sameinuð árið 1973, þannig að þær skoðanir sem fram hafa komið og leita til annarra átta hljóta að vera byggðar á röngum forsendum. Ég hef sagt það og sagði það um þetta mál á síðasta þingi, að ég óttaðist það mjög að fjárhagsvandi íslensku flugfélaganna mundi eingöngu leiða til þess að þau gætu ekki endurnýjað flugflota sinn á eðlilegan hátt og þar með væri höggvið að rótum þess öryggis sem við hljótum að gera kröfu til að verði að ríkja í flugmálum hér sem og annars staðar.

Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja þessa till. að öllu leyti, heldur aðeins þá höfuðdrætti sem koma fram í upphafsorðum hennar, þar sem skipt er upp í 8 liði því sem við flm. teljum að þurfi að verða rauði þráðurinn í opinberri íslenskri flugmálastefnu. Með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa þessa liði.

„1. Stefnt skal að því, að grunneining í flugrekstri Íslendinga verði eitt flugfélag, er af Íslands hálfu hafi sérleyfi til alls áætlunarflugs til útlanda. Þetta sama félag hafi sérleyfi til áætlunarflugs á öllum aðalflugleiðum innanlands.

2. Öðrum flugfélögum í innanlandsflugi verði gert kleift, með opinberri aðstoð ef nauðsynlegt reynist, að tengjast neti aðalflugleiða til að halda uppi áætlunarflugi til þeirra staða, er aðalflugleiðirnar ná ekki til. Þessir tveir flokkar flugleiða verði skýrt afmarkaðir.

3. Verðlagning fargjalda á innanlandsflugleiðum verði gerð raunhæf til að tryggja það, að eðlileg endurnýjun flugflota, þjónusta og rekstur geti farið fram og fyllsta öryggis sé gætt í hvívetna.

4. Ekkert flugfélag skal hafa forgangsrétt til leiguflugs og öllum frjálst að semja við hvaða flugfélag sem er, uppfylli það skilyrði um öryggismál. Þess veðri þó ávallt gætt, að leiguflug fari ekki í bága við áætlunarflug.

5. Stefnt skal að því, að allar viðgerðir og viðhald flugvéla í íslenska flugflotanum fari fram á Íslandi.

6. Framlag ríkissjóðs til flugmála ár hvert samkv. fjárlögum nemi eigi lægri fjárhæð en 1.5% fjárlaga. Því fé verði varið í samræmi við þá áætlun, sem gerð var 1976 um áætlunarflugvelli og búnað þeirra, og tilgreindar tölur færðar til verðlags hvers árs.

7. Þegar í stað verði hafnar framkvæmdir við smíði flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli í samræmi við þá stefnumörkun stjórnvalda að aðskilja beri almenna flugstarfsemi á flugvellinum frá starfsemi varnarliðsins.

8. Reykjavíkurflugvöllur verði framtíðarflugvöllur Reykjavíkur vegna innanlandsflugs. Með það í huga verði hann endurbættur eftir föngum og reist ný flugstöð er öll flugfélög geti haft not af.“

Þetta er í öllum megindráttum það sem við Alþfl.menn teljum að beri að stefna að í mótun opinberrar stefnu í íslenskum flugmálum. Ég held að þó að mönnum hafi ekki verið orðið það ljóst við umr. um þetta mál á síðasta þingi hljóti þeim að vera það ljóst í dag, að það stefnir í hreint óefni ef fram heldur sem horfir með þá samkeppni sem t.d. átti sér stað á milli tveggja íslenskra flugfélaga á síðasta sumri, þegar boðnar voru niður flugferðir á tilteknum flugleiðum og þá á þann hátt að bæði flugfélögin urðu fyrir umtalsverðu tjóni.

Ég ætla ekki að rifja upp köpuryrði hæstv. samgrh. hér við umr. í fyrra, þegar hann gerði því skóna að ég væri sérstakur talsmaður tiltekins flugfélags hér á landi í þessu máli og væri þess vegna að hreyfa því hér á hinu háa Alþingi. Ég ætla hins vegar að minnast nokkurra þeirra orða sem hann viðhafði og ég tel jákvæð og benda til þess að hann skilji í raun og veru hvað við erum að fara Alþfl.-menn, með þessu máli, þó að hann hafi ekki viljað kannast við það þá.

Hann rekur hér till. nánast lið fyrir lið og þegar ég las þetta nú fyrir stuttu vakti það óneitanlega nokkra ánægju að sjá hve sammála hann var mörgum liðum till. Ég vona að svo sé enn og kannske hafi þeim liðum fjölgað sem hann er sammála. Hann sagði m.a. um 3. lið till., með leyfi forseta:

„Um 3. liðinn get ég verið sammála hv. þm. Ég hygg að verðlagning fargjalda á innanlandsflugleiðum sé ekki á þann veg sem ætti að vera. Til greina kemur að gefa það frjálst, m.a. vegna þess að samkeppni við flugfélög, sem fljúga á ýmsa hina smærri staði, er orðin æðimikil.“

Ráðh. kemur síðan að 4. lið og með leyfi forseta segir hann þar: „Í fjórða lið segir að ekkert flugfélag hafi forgangsrétt til leiguflugs. Þetta er mjög umdeilt. Flugleiðir hafa lagst mjög gegn því, að leiguflug verði frjálst, og t.d. í þeim viðræðum, sem hafa farið fram vikum og mánuðum saman við flugfélögin, hefur það komið mjög greinilega fram hjá Flugleiðum, að þær teldu ekki æskilegt að t.d. Arnarflug hefði frjálst leiguflug á þeirra megináætlunarstaði, þ.e. Kaupmannahöfn og London. En ég viðurkenni að þetta er umdeilt atriði. Og það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm., að erlend flugfélög geta vitanlega haslað sér völl og gera, bæði á sviði áætlunarflugs og leiguflugs.“

Hér nefnir ráðh. auðvitað einu hættuna sem steðjar að flugi hér á Íslandi og gerir það nauðsynlegt að við reynum að styrkja þær einingar í fluginu sem fyrir hendi eru. Vegna tvíhliða loftferðasamninga okkar við þjóðir, sem við höfum gert samninga við, hafa þær jafnan rétt til að fljúga hingað og við höfum til þess að fljúga til þeirra.

Þá kemur að 5. lið. Hæstv. ráðh. segir, með leyfi forseta: „Að 5. liðnum hefur verið unnið, eins og reyndar öllum þessum málum meira eða minna. Það hafa verið starfandi menn á vegum rn. að því að færa viðhaldið í vaxandi mæli til landsins og ég tel að það hafi að ýmsu leyti tekist.“

Gott dæmi er ef satt er, herra forseti, en ég er engu að síður þeirrar skoðunar, að það þurfi að gera umtalsvert átak á þessu sviði til þess að færa viðhaldið inn í landið meir og betur en tekist hefur hingað til.

Um 6. liðinn sagði hæstv. ráðh., með leyfi forseta: „Um 6. lið ætla ég ekki að fjalla. Það væri út af fyrir sig mjög æskilegt ef hægt væri að binda framlag til flugsins við skulum segja við hundraðshluta af þjóðarframleiðslu, eins og ákveðið hefur verið í vegamálum, og kannske kemur að því.“

Ég vona að sem flestir þm. hafi séð mynd í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum þar sem ágætur sjónvarpsfréttamaður sýndi ástand nokkurra flugvalla á Íslandi. Það er auðvitað hægt að telja upp fleiri flugvelli, sem eru eins slæmir og þeir sem þar voru nefndir, og gæti ég nefnt dæmi þess að hafa sjálfur verið í flugvél sem festist, t.d. á Raufarhafnarflugvelli og Þórshafnarflugvelli, en engu að síður hlýtur mönnum sem hugsa um þessi mál og um þau fjalla að vera fyllilega ljóst að hér er þörf mikils átaks ekki síður en í vegamálum. Sú tala sem sett er fram í þessari þáltill., 15% þeirra fjárfaga sem samþykkt eru hverju sinni, er engin sú tala sem ekki ætti að vera hægt að ráða við í þokkalegu árferði hér á landi, enda hefur framlagið komist hæst 1974 rösklega 1% af fjárlögum og voru unnin mörg og gagnleg verk hér á landi í flugmálum, sem vert væri að fylgja eftir og þeirri stefnu sem þannig hefur þróast.

Hæstv. ráðh. fór fleiri orðum um þessa till. og ég verð að segja það, eftir að hafa lesið ræðu hans, að það kemur mér á óvart hve jákvæður hann var gagnvart þessari till. Þess vegna vænti ég þess, að till. fái núna þann framgang og þá fyrirgreiðslu á hinu háa Alþingi sem henni ber.

Umr. um flugmál hér hafa verið mjög takmarkaðar og það er nánast hinu háa Alþingi til vansa hversu litið það hefur gert fyrir flugið hér á landi. Fram undir það að Alþingi fór að huga að íslenskum flugmálum gekk flugmálastjóri með betlistaf í hendi, eins og öllum mönnum er kunnugt, m.a. á vit bandarískra flugmálayfirvalda til þess að fá þar tæki og búnað fyrir ekki neitt. Það var raunverulega upphafið að öryggismálum í íslensku flugi að flugmálastjóra tókst að kría út alnauðsynlegustu tæki sem þurfti m.a. hér á Reykjavíkurflugvelli.

Herra forseti. Í umr. á síðasta þingi tóku þátt menn eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson, sem er fróður um flugmál. Hann fór nokkrum orðum um þessa till. og yfirleitt heldur jákvæðum orðum og það gladdi mig að eiga stuðning hjá þeim manni. Hann segir þar m.a., með leyfi forseta:

„Það hefur lengi verið mín skoðun að eitt flugfélag væri nóg fyrir þann markað sem við höfum í millilandaflugi þar sem um áætlunarflug er að tefla. Það sýndi sig á sínum tíma, að samkeppni í þessum efnum er hæpin vegna þess að markaðurinn er ekki stór.“

Hv. þm. Friðrik Sophusson, varaformaður Sjálfstfl., tók einnig til máls um þessa till. og hjá honum verð ég að segja að till. hlaut mestan stuðning í öllum þeim umr. sem fram fóru um hana. Hv. þm. Friðrik Sophusson tók undir þá gagnrýni, sem ég hafði uppi, á stefnuleysi í flugmálum hér á landi, taldi brýna nauðsyn bera til þess að taka þessi mál öll mun fastari tökum og vitnaði í loforð, sem hæstv. samgrh. hafði gefið þá fyrr á þinginu, um það að leggja fram sína eigin flugmálastefnu. Það er kannske rétt að lýsa eftir þeirri stefnu núna og spyrja hæstv. ráðh. að því, vegna þess að hann var ekki viðstaddur nema örlítinn hluta af þeirri umr. sem fram fór á síðasta þingi, hvar þessi flugmálastefna sé, hver reynsla hans sé af þeirri samkeppni sem hann efndi til í sumar á tilteknum flugleiðum og hvort hann hyggist halda henni áfram eða hvort hann ætli að halda sig við það að skipta flugleiðunum, eins og nú er að koma í ljós. Það er eiginlega nauðsynlegt fyrir þingið að fá að vita um þetta áður en það fer að fjalla um tiltölulega háar fjárhæðir, sem ætlunin er að veita Flugleiðum til þess að styrkja og þó ekki styrkja, vegna þess að þarna er að vissu leyti um endurgreiðslu að ræða til félagsins á fjármunum sem íslenska ríkið hefur fengið fyrir þá þjónustu sem þetta félag veitir.

Ég held að menn verði að gera sér ljóst, að á sama tíma og hæstv. samgrh. heldur uppi því stefnuleysi, sem hann hefur gert sig sekan um að mínu mati, er það auðvitað óráðsía að mörgu leyti að veita fjármunum til félags, sem hann tekur aftur frá möguleikana til að afla sér fjármuna. Þetta er pólitík sem ég skil ekki og held að sé röng. Ég held jafnvel að æstustu talsmenn hinnar frjálsu samkeppni hafi séð að till. af þessu tagi er ekki atlaga gegn frjálsri samkeppni, eðli málsins samkvæmt, heldur er hér um að ræða það sem enskir menn kalla, „common sense“, að það gangi ekki upp í 230 þús. manna samfélagi að efna til samkeppni í millilandaflugi vegna þess að markaðurinn er of smár, enda hefur það komið í ljós að það sem talsmenn samkeppninnar töldu að mundi verða árangur hennar, þ.e. að erlendum ferðamönnum frá viðkomandi löndum mundi fjölga, hefur bara ekki reynst rétt. Þeim hefur ekki fjölgað. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar, að þessi samkeppni, sem nú er að snúast upp í andstæðu sína, sem er úthlutun á flugleiðum og skipting á flugleiðum, hafi ekki átt rétt á sér og hún sé röng. En ég vil hins vegar minna hv. þm. á það, að þessi þáltill. fjallar um annað og meira en samkeppni flugfélaga. Hún fjallar um að við gerum umtalsvert átak í flugmálum, að við reynum að bæta flugvelli landsins, að við reynum að bæta öryggið á þessum flugvöllum og að við reynum að gera flugið að því samgönguvopni, ef ég mætti orða það svo, sem okkur er brýn nauðsyn.

Ég er þeirrar skoðunar, að fátt geti bætt samgöngur okkar þjóðar meira en góðar flugsamgöngur. Norðmenn tóku þá stefnu á sínum tíma að leggja umtalsverða fjármuni til sinna flugmála og þeir hafa unnið þrekvirki í þeim efnum. Þeir eru búnir að malbika og steypa nánast alla sína flugvelli, dreifbýlis- og þéttbýlisflugvelli. Þeir eru búnir að koma upp fullkomnustu öryggistækjum við þá alla. Þetta er gert samkv. stefnu sem tekin var í uppbyggingu flugvalla í Noregi. Auðvitað þyrftum við að gera slíkt hið sama.

Ég vil herra forseti, fá að lesa hér nokkur orð af því sem hv. þm. Friðrik Sophusson sagði við þessa umr., en ég hef sagt að hans hlutur í þeirri umr. var með því jákvæðasta sem þar kom fram. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég minntist á það fyrr, að það sé kominn tími til að hv. Alþingi taki á þessum málum af festu og hér verði mörkuð flugmálastefna. Ég tel að sú till., sem hér liggur fyrir, sé eðlileg þegar af þeim sökum.“ — Hér talar varaformaður Sjálfstfl.

Hann fer fleiri orðum um till. og er yfirleitt heldur jákvæður í afstöðu sinni, sem ég auðvitað fagna og fagnaði.

Þá tók til máls við þessa umr. hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson og hann talaði af þekkingu um þessi mál. Það bólaði ekki á því að hann teldi að þessi till. væri þess eðlis að hana bæri að rífa niður, heldur að hana bæri að ræða.

Fleiri töluðu. Ég vil nefna hv. þm. Skúla Alexandersson, sem byrjaði að vísu á því að lýsa því yfir að till. væri gagnslaus, en rakti hana svo lið fyrir lið og mælti með liðunum eins og þeir lágu fyrir í till. Ég ætla ekki að ergja hann með því að lesa upp þessa þversögn í málflutningi hans, en það er allt í lagi að hann geri það sjálfur og getur svo komið hér fram með sínar skoðanir núna.

Herra forseti. Ég held að það sé ekki ástæða til þess að orðlengja þetta mál. Ég er tvímælalaust þeirrar skoðunar, að Alþingi þurfi og verði að móta stefnu í flugmálum og við þm. vil ég segja: Í guðanna bænum! Við skulum ekki koma í veg fyrir að við ræðum þennan mikilvæga málaflokk bara af því að einn tiltekinn stjórnmálaflokkur flytur um hann till., heldur skulum við taka til tillögunnar málefnalega afstóðu. Það ber okkur að gera. Og ég er sannfærður um það, eftir þær ræður sem fluttar voru á síðasta þingi um þetta mál, að þessi till. á miklar undirtektir hér á þingi. Þess vegna þætti mér vænt um ef henni yrði að lokinni þessari umr. vísað til allshn. og þar fengi hún hraða og góða afgreiðslu, vegna þess að einkum og sér í lagi er innanlandsflug hér nú á því stigi að það þarf nauðsynlega að gera mikið átak til að bæta um betur.

Ég vil minna á að fyrir nokkrum mánuðum lýsti flugmálastjóri því yfir, að flugmál nytu einskis stuðnings á hinu háa Alþingi. Hann sagði þetta berum orðum: Þm. ræða ekki flugmál. Þm. hafa ekki áhuga á flugmálum.

Þá vil ég líka minna menn á að þingið stendur frammi fyrir því að þurfa að samþykkja lög um stuðning við Flugleiðir og þar er auðvitað stórkostlegt mál á ferðinni. Þar er verið að ræða um 40 millj. kr. eða þaðan af meira. Líta má á þessa upphæð sem endurgreiðslu, eins og ég sagði áðan, til félagsins, en aðrir, eins og hæstv. flugmálaráðh. hafa kallað þetta styrk. Ég verð að mótmæla því, hæstv. flugmálaráðh., að á sama tíma og við þurfum að samþykkja „styrk“ til stærsta flugfélags landsins mótum við þá stefnu í flugmálum að etja saman tveimur flugfélögum með þeim afleiðingum að bæði verða fyrir tjóni af því ati. Ég segi ekki neitt sem ég má ekki segja, en það er alveg ljóst að það er umtalsvert og stórfellt tap á flugi Flugleiða á Norður-Atlantshafsflugleiðinni þó svo farþegum hafi fjölgað að mun. Það er líka tap á innanlandsflugi félagsins. Og ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum, sem með flugmálum fylgist grannt, að t.d. sætanýting Arnarflugs á flugleiðinni til Amsterdam hefur stöðugt verið að dragast saman. Ég held að ég fari alveg rétt með, að hún hafi í síðasta mánuði verið 42%.

Nú hef ég margendurtekið í öllum umr. um þessi flugmál að ég er ekki að troða skóinn niður af Arnarflugi, það dettur mér ekki í hug. Ég hef sagt að þar væru duglegir menn á ferðinni, sem vildu reyna að spjara sig og bjarga sér, en ég hef líka sagt um leið, að það væri óraunhæft mat hjá þeim, sem og þeim mönnum sem stutt hafa að áætlunarflugi þeirra milli Íslands og annarra landa, að þeir geti tekist á við það verkefni með það sem öruggt leiðarljós að það beri sig. Það dæmi gengur einfaldlega ekki upp og mun ekki ganga upp.

Ég vil líka benda hv. þm. á það, að miðað við það efnahagsástand sem hér hefur verið að skapast á síðustu mánuðum og það sem á eftir að gerast á efnahagssviðinu hjá okkur og í nágrannalöndunum verður sú mynd ekki bjartari sem fram undan er í flugmálum okkar. Það mun ekki fjölga farþegum á milli landa, það er alveg víst. Þess vegna vil ég biðja þingheim að hugleiða þessi mál öll mjög vandlega og taka afstöðu til þessarar till. á grundvelli þess sem ég hef nú rakið — á grundvelli þess, sem er eins einfaldur og tvisvar tveir eru fjórir, að það er ekki pláss, það er ekki lífsrými, fyrir tvö áætlunarflugfélög í millilandaflugi á Íslandi. Jafnvel þó að menn vilji stuðla að samkeppni sem þeir telja að leiði til lægri fargjalda gengur það dæmi ekki upp.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál og bið, eins og ég nefndi hér áðan, að málinu verði vísað til allshn. Sþ. og þar fái það væntanlega hraða og góða umfjöllun því að það þarf að leita til margra, það þarf að spyrja að áliti margra. Og ég vona sannarlega að sú umræða sem varð á síðasta þingi og væntanleg umræða í nefnd um þetta mál og væntanlegar tillögur samgrh. hæstv. um mótun opinberrar stefnu í flugmálum verði til þess að við getum mótað þá stefnu sem við getum farið eftir á næstu árum og gerir allar okkar flugsamgöngur öruggari og betri, en ekki verri og lakari.