23.11.1982
Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

88. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Fyrir hönd þm. Alþfl. mæli ég hér fyrir svofelldri till.:

„Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina–ríkisstjórn sjálfstæðismanna, Framsfl. og Alþb.“

Eins og kunnugt er ríkir stjórnmálaleg kreppa á Íslandi. Það sjáum við greinilega hér á Alþingi. Hér er kyrrstaða og mál ekki afgreidd. Stjórnarsinnar segja gjarnan að það sé ábyrgðarleysi hjá stjórnarandstöðunni að samþykkja ekki frv. frá ríkisstj., en ég spyr: Ef þú vantreystir einhverjum manni í peningamálum, er þá hægt að ætlast til þess að þú látir einmitt þennan mann fara með fjárráð fyrir þig? Svarið er auðvitað nei, — og það sem meira er: það væri í meira lagi ábyrgðarlaust af þér gagnvart sjálfum þér og fjölskyldu þinni ef þú færir þannig að ráði þínu. Nákvæmlega það sama gildir um mat okkar Alþfl.-manna á ríkisstj. Við treystum ekki ríkisstj., við trúum henni ekki fyrir peningamálum þjóðarinnar eða fyrir þjóðarbúskapnum og höfum ærnar ástæður til. Hitt er staðreynd, að það er ríkisstj. sem sýnir mikið ábyrgðarleysi með þrásetu sinni, vegna þess að með þrásetunni kemur hún í veg fyrir að sættir takist um úrlausn mála. Ríkisstj. hefur misst traustið til þess að fara með völdin. Þess vegna mundi samþykkt þessarar vantrauststill. leysa yfirstandandi stjórnarkreppu.

Ráðh. í ríkisstj. segja sjálfir að henni hafi mistekist að ná markmiðum sínum, að hún sé komin í þrot og að þjóðin sé að sökkva í skuldir. Hvað eru mennirnir að gera í félagsskap sem þeir lýsa svona? Við hljótum öll að spyrja hvað við gerðum sjálf ef við sæjum að árangurinn af félagsskap sem við værum í væri mistök á mistök ofan og framhaldið þýddi að við værum að sökkva okkur og fjölskyldum okkar í skuldir. Ég er ekki í vafa um að við mundum losa okkur úr slíkum félagsskap og okkur þætti ábyrgðarleysi að halda þessu áfram. Þetta er í rauninni kjarni málsins. Það sama á auðvitað að gilda um stjórnarsamstarf og gildir í daglega lífinu.

Þótt samþykkt þessarar vantrauststillögu okkar væri þannig rökrétt af hálfu margra stjórnarsinna og það vita þeir, þá verður að telja eins líklegt eða líklegra að handjárnin haldi. En till. stendur samt fyrir sínu. Atkvgr. mun t.d. sýna ótvírætt hverjir bera ábyrgð á núv. ríkisstj. og þá um leið því ábyrgðarleysi að hún haldi málum í hnút með þrásetu sinni.

Alþfl. hefur verið ábyrgur og heilsteyptur í stjórnarandstöðunni. Sjálfstfl. hefur á hinn bóginn verið sundurlaus og það eru sjálfstæðismenn sem bera ábyrgð á núv. ríkisstj. Nú gerðist það nýverið, að einn af þm. Alþfl. sagði skilið við flokkinn. Sjálfsagt munu andstæðingar okkar segja hér á eftir af þessu tilefni að flokkurinn sé þverklofinn. Þessu skyldi enginn trúa, og þeir vita í rauninni betur. Flokksfólkið stendur þétt saman og við höldum okkar striki. Við höfum verk að vinna.

Hin ytri áföll þjóðarbúsins eru mikið rædd þessa dagana. Þau eru veruleg, ég skal ekki draga úr því. Það sem er þó verst er að viðráðanleg skakkaföll hafa verið mögnuð með röngum stjórnarathöfnum. Stjórnin sinnti ekki aðvörunum okkar Alþfl.-manna um að svona mundi fara og nú blasa staðreyndirnar við. Viðskiptahallinn og erlenda skuldasöfnunin eru vitaskuld alvarlegust. Engu okkar mundi detta í hug að halda þannig á málum fjölskyldu okkar að safna skuldum sem við ætluðum börnunum að greiða. Nákvæmlega það sama ætti að gilda í þjóðarbúskapnum, en þetta hugsar ríkisstj. ekki um. Hún hefur einmitt safnað skuldum sem börnum okkar er beinlínis ætlað að greiða. Með þessu áframhaldi er þess varla langt að bíða að Alþjóðabankinn verði að taka okkur upp á arma sína, sem Alþb.-menn hafa þó margsagt að sé hámark niðurlægingarinnar.

Sú stefna sem ríkisstj. hefur fylgt hefur leitt okkur í ógöngur. Hér þarf önnur tök. Alþfl. hefur flutt tillögur um það. Ég ætla að rekja nokkrar þeirra. Þetta er stefna Alþýðuflokksins:

í fyrsta lagi viljum við að tekin verði upp ný vísitala, sem mæli rétt afkomu heimilanna. Í því fælist trygging launafólks fyrir því að hætt yrði að spila með vísitöluna eins og gert hefur verið.

Í öðru lagi viljum við að tekin verði upp afkomutrygging fyrir þá sem við lökust kjör búa, sem yrði greidd því launafólki sem ekki nær tilteknum lágmarkstekjum. Með þessum hætti kæmi samfélagið til móts við þá sem verst eru settir og stuðlað yrði að auknum jöfnuði í þjóðfélaginu.

Í þriðja lagi viljum við að allt sparifé sé verðtryggt ég segi allt sparifé — þannig að bankar hafi ekki fjármuni af sparifjáreigendum, heldur skili þeim raunvirði til baka og skuldakóngar hætti að græða. Með þessu eykst sparnaður og það drægi stórlega úr viðskiptahalla.

Í fjórða lagi, að greiðslubyrði af lánum fari ekki fram úr kaupgjaldi, þannig að vinnutíminn sem þarf til að standa undir afborgunum fari ekki sívaxandi, eins og nú er.

Í fimmta lagi, að lán til íbúðakaupa og íbúðabygginga miðist við eðlilega greiðslubyrði, en ekki manndrápsklyfjar eins og núna. Í því skyni verði bankakerfinu gert að veita sérstök viðbótarlán til 20 ára, allt að 300 þús. kr. á íbúð.

Í sjötta lagi: Sett verði þak á erlendar lántökur.

Og sjöunda: Þegar í stað verði stigið fyrsta skrefið í að afnema útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir og framlög til þess á fjárlögum skorin niður.

Það er ekki eftir neinu að bíða með þessar ákvarðanir. Um nær öll þessi atriði hefur Alþfl. þegar flutt lagafrv. eða gert till.

Samþykkt þessarar stefnumörkunar væri skref inn í nýtt tímaskeið. Sá tími á ekki að einkennast af bölsýni, eins og ráðh. boða nú, eða neyðaráætlunum með höftum og bönnum, eins og Alþb. vill. Þeirra till. eru í rauninni leiftursókn svartnættisins.

Í kjölfar þessara fyrstu aðgerða ætti að fylgja uppstokkun í ríkisfjármálum og skattamálum til þess að draga úr skattsvikum og óréttlæti. Tolla og aðflutningsgjöld á að jafna og virðisaukaskattur á að koma í stað úrelts söluskatts. Jafnframt verður að gerbreyta fjárfestingarstefnunni, þannig að hún skapi lífvænlega atvinnuvegi sem veita góð lífskjör. Það á að beina fé í vaxtabrodda, en ekki í óarðbæra fjárfestingu.

Þriðji áfanginn yrði sá, að ráðast gegn því samtryggingarkerfi ábyrgðarleysis sem hér ríkir og núv. ríkisstj. hefur alið á. Menn kaupa t.d. togara sem þeir ætla aldrei að borga, en reikningurinn er framseldur á skattgreiðendur. Sumir græða stórfé með opinberri blessun, en aðrir ávísa tapinu á ríkið. Ef fiskverð er ákveðið hærra en útflutningsverð þolir er gengið bara fellt eftir pöntun. Það ber sem sagt enginn ábyrgð, hver vísar á annan, en launafólkið borgar brúsann á endanum. Þetta þarf ekki að vera svona og þetta á ekki að vera svona. Fjötrar vanans hafa í rauninni gert menn blinda. Árangur í efnahagsstjórn byggist á því að ábyrgð og ákvörðun fylgist að. Allir verða að bera ábyrgð á eigin gerðum, atvinnurekendur, einstaklingar, samtök þeirra, sveitarfélögin og ríkið sjálft. Þetta þýðir m.a. að finna verður nýtt form fyrir verðmyndunarkerfið í landbúnaði, iðnaði og sjávarútvegi sem ætlar hverjum aðila að bera ábyrgð á eigin gerðum.

Með því að framfylgja þessum tillögum Alþfl. í þremur áföngum, sem ég hef nú lýst, mundi framleiðsla og framleiðni aukast, efnahagslífið kæmist loks aftur á heilbrigðan grunn. Við mundum vinna okkur út úr núverandi ástandi í stað þess að einblína á svartnættið og sjá ekkert nema neyðaráætlanir og lögbindingar eins og þeir gera nú Alþb.- og framsóknarmenn. Við viljum hvorki leiftursókn íhaldsins né þá leiftursókn svartnættisins sem Alþb.-menn boða nú.

Alþfl. hafði forustu um uppstokkun og kaflaskipti í efnahagsmálum þegar höft voru afnumin og viðskipti gefin frjáls. Í kjölfarið fylgdi blómaskeið. Nú er komið að nýjum kaflaskiptum. Enn og aftur ryðjum við brautina fyrir nýjum hugmyndum og erum reiðubúnir að knýja á um breytingar og hafa forustu fyrir þeim. Núv. ríkisstj. er komin í þrot og er brátt minnisvarði um úrelta stefnu. Kosningar þurfa að fara fram við fyrsta tækifæri. Ríkisstj. gerði mest gagn með því að segja nú af sér, svo að þessari stjórnmálalegu kreppu linni og unnt sé að taka til höndum við þau verk sem þarf að vinna. Þess vegna lýsum við vantrausti á ríkisstjórn sjálfstæðismanna, Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins.