23.11.1982
Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

88. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Svipull er sjávarafli, segir gamalt íslenskt máltæki, og saga okkar Íslendinga hefur sýnt okkur það áþreifanlega. Það hafa skipst á góðæri og harðæri og í ár hafa Íslendingar átakanlega fengið að reyna sannindi þessa gamla máltækis. Þorskafli hefur í ár orðið verulega minni en gert var ráð fyrir og horfur því miður ískyggilegar. Loðnan, sem fyrir fáum árum var 20% af útflutningsverðmæti sjávarafurða, hefur horfið á þessu ári, a.m.k. um sinn. Úti í heimi geisar kreppa sem hefur haft það í för með sér að markaðir hafa lokast fyrir sumar afurðir okkar, sums staðar sölutregða, sums staðar verðfall. Það þarf ekki að nefna annað en skreið, lýsi, mjöl, skinnavörur, ál og kísiljárn til þess að skýra þetta. Nú hefur það gerst, þau alvarlegu tíðindi fyrir íslenska þjóðarbúið, að þetta hvort tveggja hefur skollið yfir þjóðina samtímis og afleiðingarnar láta ekki á sér standa. Í stað þess að fyrir ári um þetta leyti var því spáð af öllum sérfræðingum að í ár mundu viðskipti við útlönd verða í jafnvægi, eins og vera þarf, verður verulegur viðskiptahalli í ár eða líklega um 10%. Þá var gert ráð fyrir að verðbólga mundi enn lækka á þessu ári, en vegna þessara áfalla stefnir hún upp á við.

Þegar þetta allt saman blasir við er í fyrsta lagi nauðsynlegt að gera sér grein fyrir ástandinu, horfast í augu við staðreyndirnar og reyna að finna leiðir til bóta. Hitt er engum til góðs, sem stjórnarandstæðingar hafa ástundað, að fara með ýkjur um að allt sé að farast. Það var seinast í gær sem einn af talsmönnum stjórnarandstæðinga lýsti því yfir að allir atvinnuvegir á Íslandi væru reknir með bullandi tapi og komnir á vonarvöl. Þetta er fullyrt á sama tíma sem það liggur fyrir í fárra daga gamalli skýrslu frá Þjóðhagsstofnun að aðalatvinnugrein landsmanna, sem er fiskvinnslan, hefur að undanförnu verið rekin með nokkrum afgangi og eftir 1. desember, þegar verðbótahækkun er komin til framkvæmda og hækkun fiskverðs, muni frystingin vera rekin hallalaus, en fiskvinnslan í heild með væntanlegum 4% afgangi. Það er vitað hins vegar að útgerðin á í miklum erfiðleikum, en aðrar eins ýkjur og þessar eru náttúrlega engum til góðs og síst þeim til sóma sem hafa þær í frammi.

Til þess að reyna ráða bót á þeim vanda sem þjóðin glímir við er það auðvitað á hverjum tíma ríkisstj. sem þarf að hafa þar forustu um og á s.l. vori og sumri vann ríkisstj. að því að safna upplýsingum og leita leiða til að ráða hér bót á. Allt tekur það sinn tíma og eins og allir vita tekur það líka tíma í samsteypustjórnum að ná samstöðu, en það tókst. 21. ágúst s.l. voru gefin út brbl. um efnahagsaðgerðir og þeim fylgdi yfirlýsing í 21 lið um margvíslegar aðgerðir sem ákveðnar væru. Þegar ríkisstj. hafði þannig gert sitt í þessum efnum kom til kasta þjóðarinnar. Það reyndist svo, að þjóðin tók þessum aðgerðum vel. Það vita allir sem eitthvað fylgjast með í þjóðfélaginu. Þetta var staðfest af skoðanakönnunum sem fram fóru, sem sýndu að meiri hluti manna væri fylgjandi þessum aðgerðum, þó þær kæmu hart við ýmsa, og að sú ríkisstj. sem hafði framkvæmt og ákvarðað þessar aðgerðir nyti trausts 60% þeirra, sem tóku afstöðu, á móti 40%. Þannig hafði ríkisstj. gert sitt og þjóðin tekið þessu með skilningi og þroska.

Þá kom til kasta stjórnarandstöðunnar, sem hefur vissulega skyldum, og það miklum skyldum, að gegna, en hún brást. Stjórnarandstaðan reyndist ósanngjörn, óábyrg og úrræðalaus. Hún reyndist ósanngjörn að því leyti að hún vildi kenna ríkisstj. um áföllin, a.m.k. að langsamlega mestu leyti. Hún reyndist óábyrg að því leyti, að hún lýsti því yfir þá þegar að hún mundi misnota þá aðstöðu sem hún hefur í Nd. Alþingis vegna úreltrar deildaskiptingar til þess að fella brbl. um efnahagsaðgerðir. Og stjórnarandstaðan reyndist vera úrræðalaus og neikvæð.

Ef við lítum á og reynum að lesa úr þeirri gagnrýni sem stjórnarandstaðan hefur haft uppi, þá lýsir hún því yfir í fyrsta lagi, um leið og hún ásakar ríkisstj. fyrir allt of mikla verðbólgu, að gengið sé of hátt skráð vegna atvinnuveganna. M.ö.o.: það þarf að lækka gengið verulega sem þýðir aukna verðbólgu. Í öðru lagi hefur stjórnarandstaðan haldið því fram og heldur því fram, að þú, hlustandi góður, eigir að greiða hærri rafmagnsreikning en þú færð; rafmagnsreikningurinn sé allt of lágur, hann þurfi að hækka. Það eykur auðvitað verðbólguna. Í þriðja lagi hefur stjórnarandstaðan haldið því fram og heldur því fram, að hitaveitureikningarnir séu allt of lagir, þá þurfi að hækka. Fyrir utan að íþyngja neytendum eykur þetta náttúrlega verðbólguna. Og í fjórða lagi hótar hún því að fella brbl. um efnahagsaðgerðir, sem mundi auka verðbólguna stórlega. Af þessu sjá menn nú heilindin og samkvæmnina í því sem stjórnarandstaðan er að halda fram.

En lítum nú á þann flokkinn sem flytur þessa till. um vantraust. Það var fyrir fáum dögum að formaður Alþfl. var tekinn til yfirheyrslu í sjónvarpi og var spurður um það m.a. margsinnis hvaða tillögur og urræði hann og hans flokkur hefðu fram að leggja í þeim efnahagsvanda sem þjóðin nú glímir við. Svör fengust engin. Það var farið undan í flæmingi, ýmist leitað til fortíðarinnar og sagt að það hefði ekki átt að smíða á undanförnum áratug svona mörg fiskiskip fyrir Íslendinga eða var litið til framtíðarinnar. Það er ágætt að hafa framtíðarsýn, eins og hann sagði. Það var nú fyrst og fremst að hann vildi afvopna risaveldin og að hann boðaði frið á jörðu. Ég held að allir sem sitja í þessum sal og þið öll, hlustendur góðir, séuð sammála þessu og fylgjandi friði og afvopnun. Honum gekk hins vegar hálferfiðlega að skýra hvernig þessi ágætu mál mundu draga úr viðskiptahalla eða verðbólgu á Íslandi á þessu og næsta ári. Í rauninni fékkst aðeins eitt svar frá formanni Alþfl. í þessum athyglisverðu umræðum, — friðarboðinn gaf eitt svar: Það á að drepa brbl.

Í gegnum allar þær aðgerðir sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir skín eitt meginmarkmið. Það er full atvinna, það er að forðast atvinnuleysi. Stjórnarandstæðingar segja: Það er nú ekki mikið að státa af, það var full atvinna á Íslandi þegar þeir tóku við. En lítum á löndin umhverfis okkur. Hvað hefur gerst þar á þessum þremur árum sem núv. ríkisstj. hefur verið við völd? Í Danmörku hefur atvinnuleysið aukist á þessum þremur árum um 100 þús. manns. Það samsvarar öllum vinnandi mannafla á Íslandi. Í Bretlandi hefur atvinnuleysið á þessum þremur árum aukist um 2 millj. manna og nálgast 3.5 millj. Það samsvarar því að hér á Íslandi væru að staðaldri 14 þús. manns atvinnulaus.

Við erum ásakaðir fyrir að hafa ekki ráðið við verðbólguna. Á árinu 1981, í fyrra, tókst þó að koma verðbólgunni úr 60% niður í 40%. Við vonuðumst til þess fyrir ári að það tækist að koma henni lengra niður, en þau áföll sem við höfum orðið fyrir hafa komið í veg fyrir það og verðbólgan tekið á rás upp á við aftur. Áföllunum að kenna? Ja, við skulum nefna eitt dæmi til skýringar. Aflatregða fiskiskipanna okkar á þessu ári, miklu minni þorskafli en áður, hefur gert það að verkum að fiskverð þurfti að hækka miklu meira en gert hafði verið ráð fyrir. Til þess að fiskvinnslan gæti borgað þetta hærra fiskverð þurfti að lækka gengið miklu meira en gert var ráð fyrir. Gengislækkunin veldur aukinni verðbólgu. Þetta er keðjan sem íslenska þjóðfélagið býr við og þarna er auðvitað ein meginskýringin á þessari breyttu þróun.

Hins vegar eru efnahagsaðgerðirnar miðaðar við að draga úr þeirri verðbólgu sem leit út fyrir að kynni að verða ef ekki yrði í taumana gripið. 1. nóv. hækkaði framfærsluvísitalan um 17.5 stig, næst hækkar hún verulega minna en þá. Efnahagsaðgerðirnar miða að því að draga úr viðskiptahallanum og þær miða að því að erlendar skuldir verði minni en þær ella hefðu orðið.

Herra forseti. Fyrir þessu þingi liggja og munu verða lögð mörg merk mál, meðal þeirra frv. til nýrrar stjórnarskrár sem m.a. mun fela í sér leiðréttingu á kjördæmaskipuninni. Þessi mál útheimta öll vinnu og tíma. Eins og nú horfir tel ég líklegt að kosið verði til Alþingis með vorinu, skömmu eftir sumardaginn fyrsta, í lok apríl.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ríkisstj. hefur gert sitt og mun reyna að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að glíma við þann mikla vanda sem þjóðin býr nú við. Stjórnarandstaðan, sem ég lýsti hér nokkrum orðum hvernig farið hefði að ráði sínu, nýtur þess m.a. kannske að það er ekki siður á Alþingi að flutt sé og samþykkt vantraust á stjórnarandstöðuna. Í rauninni er þó fullt tilefni til þess þegar hún sannarlega, eins og nú, hefur brugðist skyldum sínum. Það væri vissulega maklegt og mátulegt nú að slíkt væri gert. Aldrei hefur nokkur stjórnarandstaða sem mér er kunnugt um verðskuldað fremur vantraust en þessi. En ég vil um leið taka það fram, að það eru ekki allir þm. stjórnarandstöðunnar sem bera sömu ábyrgð og forustan. Það eru einstakir þm. sem eru ósammála forustunni og sem bera kinnroða fyrir þetta ofstæki, eins og raunar fjöldi flokksmanna Alþfl. og Sjálfstfl.

Ríkisstj. mun gera það sem í hennar valdi stendur í þessum mikla vanda og við heitum á ykkur, hlustendur góðir, að veita okkur til þess liðsinni og samstarf. Við heitum á ykkur að vera ekki neikvæðir eins og stjórnarandstaðan gegn því sem gert er og reynt að gera til bóta og bjargar. Við heitum á ykkur að vera jákvæðir í viðhorfum og viðbrögðum. Þá mun senn linna því éli sem nú gengur yfir þetta land.