23.11.1982
Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

88. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Síðasta ræðumanni varð tíðrætt um þau áföll sem við höfum orðið fyrir á yfirstandandi ári. Ég geri ekki lítið úr þeim, en minni á að verðmæti sjávarafla á yfirstandandi ári er eitthvert það mesta sem við höfum öðlast, Íslendingar, jafnvel þriðja eða fjórða mesta.

Síðasti ræðumaður minntist heldur ekkert á að árin 1980 og 1981 voru alhæstu ár í verðmæti sjávarafurða sem við Íslendingar höfum notið. Hvar er afraksturinn eftir þessi ár? Hann er horfinn í eyðsluhít núverandi ríkisstjórnar, í ráðleysi hennar og stefnuleysi og getuleysi.

Síðasti ræðumaður minntist ekki á að ríkisstjórn hans á Íslandsmet í verðbólgu og nú er jafnvel verið að lýsa verðbólgunni með þriggja stafa tölu.

Síðasti ræðumaður minntist heldur ekkert á það, að ríkisstjórn hans hefur fellt gengi íslensku krónunnar hraðar, oftar og meira en nokkur ríkisstjórn önnur á Íslandi — og ég verð að játa að þá er langt til jafnað.

Síðasti ræðumaður hrósaði sér af því, að hér væri full atvinna, en hann gat ekki um að hér er leynt atvinnuleysi og hann gat ekki um að samkv. umsögn Seðlabankans byggist full atvinna hér á landi meðal annars á því, að við höfum safnað erlendum skuldum svo mjög að við skuldum 50% af árlegri þjóðarframleiðslu í erlendum bönkum og lánastofnunum og þurfum að borga þriðju hverja krónu, sem við öðlumst í gjaldeyristekjur, í afborganir og vexti. Þetta er sá arfur sem ríkisstjórn síðasta ræðumanns skilur eftir sig.

Núverandi ríkisstjórn er að renna skeið sitt á enda. Engum sem til upphafsins þekkir kemur á óvart að endalokin verða með þeim hætti sem nú blasir við. Við sjálfstæðismenn höfum hins vegar ekki flutt vantraust einfaldlega vegna þess að það hefur ekki verið ástæða til að ætla að það nái fram að ganga. Við munum þó greiða vantrauststill. Alþfl. atkvæði og vissulega má segja að þessi vantrauststill. þjóni þó þeim tilgangi að undirstrika ömurlega stöðu ríkisstjórnarinnar.

Heyrst hefur að það sé traustsyfirlýsing á núverandi ríkisstjórn þó hún skrimti eftir atkvæðagreiðslu um vantraustið, en það er mikill misskilningur. Vitað er að margir stjórnarsinnar vilja í raun ríkisstjórnina feiga og vildu gjarnan greiða vantrauststill. atkvæði. Í þeim efnum er nærtækast að leiða tormenn Framsfl. og Alþb. til vitnis. Er unnt að tala mæðulegar um frammistöðu ríkisstjórnarinnar en Steingrímur Hermannsson, sem harmar á flokksþingi Framsfl. að á þremur árum hafi aðeins tvisvar náðst samstaða um raunhæfar aðgerðir til hjöðnunar verðbólgu? Er hægt að sýna ríkisstjórninni meira vantraust en Svavar Gestsson formaður Alþb. á nýafstöðnum flokksráðsfundi þess? Hann sagði: „Það sem blasir við í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir er upplausn. Á sama tíma æðir verðbólgan áfram, verðhækkanir eru hrikalegar, verðlagsstjórn úr böndum, peningamálastjórn í landinu er ekki sem skyldi, viðskiptahallinn hefur aukið erlendar skuldir gífurlega á þessu ári og þannig mætti lengi telja.“ Þetta voru orð Svavars Gestssonar. Er til gleggra dæmi um afleiðingar fjögurra ára stjórnarsetu kommúnista en ályktun þeirra sjálfra um nauðsyn fjögurra ára neyðaráætlunar í efnahags- og atvinnumálum?

Báðir þessir formenn, Steingrímur og Svavar, höfnuðu tillögum Sjálfstfl. í ágústmánuði um nýjar kosningar, en segja nú að betur hefði farið ef kosningar væru um garð gengnar. Báðir þessir formenn segja núverandi ríkisstjórn of veika til að fást við þau vandamál sem við er að etja, en sitja þó báðir sem fastast. Þær siðferðilegu forsendur, sem stjórnarmyndunin var byggð á, að bjarga ætti virðingu Alþingis, hafa brostið. Sjaldan hefur virðing Alþingis verið minni en einmitt nú, þegar ríkisstjórn sem misst hefur starfhæfan meiri hluta á Alþingi neitar að viðurkenna staðreyndir og rígheldur í ráðherrastólana hvað sem það kostar. Ummæli Steingríms Hermannssonar, að aðeins tvisvar hafi verið gerðar efnahagsaðgerðir, sýna að við stjórnarmyndunina sjálfa var ekki samkomulag um neinar þær aðgerðir sem áhrif kynnu að hafa til hjöðnunar verðbólgu, sem þó var látið í veðri vaka. Á því varð a.m.k. heils árs bið og stjórnarkreppan, sem myndun núverandi ríkisstjórnar átti að leysa, hefur aldrei verið leyst, ávallt verið til staðar, nú í þrjú ár, og komið með reglubundnum hætti fram á þriggja mánaða fresti.

Forsætisráðherra hefur sagt að stjórnskipuleg sjálfhelda væri á Alþingi, en ríkisstjórn sem hefur ekki lengur starfhæfan meiri hluta á Alþingi og þrjóskast við að segja af sér skapar þessa sjálfheldu. Velji þm. stjórnarflokkanna og ráðh. þann kost að sitja meðan sætt er, hvað sem líður þjóðarhag, er það þeirra mál og á þeirra ábyrgð. Stjórnarandstaðan ber ekki ábyrgð á því.

Það var fyrst í gær sem bráðabirgðalögin voru tekin til meðferðar á Alþingi og enn hefur ekki sést bóla á þeim fylgifrv. sem boðuð voru, eins og frumvarp um viðmiðun við nýja vísitölu og frumvarp um láglaunabætur, hvað þá heldur að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hafi séð dagsins ljós.

Við sjálfstæðismenn erum andvígir bráðabirgðalögunum. Þau eru ekki liður í samræmdum efnahagsaðgerðum og þar af leiðandi nær verðbótaskerðing launa ekki tilgangi sínum til hjöðnunar verðbólgu. Skattahækkun ofan á auknar skattbyrðar vinstri stjórnar síðustu fjögur árin kyndir undir verðbólgunni. Til þess hefur verið vitnað að sjálfstæðismenn hafi staðið að samsvarandi ráðstöfunum með febrúarlögunum 1978, en þar er ólíku saman að jafna. Þá voru verðbætur greiddar samkv. framfærsluvísitölu að frádregnum launalið búvöru og verði áfengis og tóbaks, en því til viðbótar var þá í fullu gildi svokallaður verðbótaviðauki, sem bætti launþegum þá töf sem varð á því að verðhækkanir vöru og þjónustu kæmu fram í framfærsluvísitölunni á þriggja mánaða verðbótatímabili. Nú er enginn verðbótaauki og í gildi eru skerðingarákvæði Ólafslaga auk verðbótaskerðingar sem núverandi stjórn hefur staðið að. Þá var ekki um neina verðbótaskerðingu að ræða h já þeim sem höfðu tekjur er svöruðu til Dagsbrúnarlauna í dagvinnu og full helmingsskerðing á verðbætur og verðbótaauka kom ekki fram fyrr en við tvöföld Dagsbrúnarlaun í dagvinnu. Nú er láglaunafólki ekki sinnt með öðru en sparðatíningi, svokölluðum láglaunabótum, sem enn hafa ekki fengist upplýsingar um hvernig háttað verður þegar vika er til mánaðamóta, og sjálfur fjmrh. ýjar að að láglaunabæturnar verði teknar upp í skatta til ríkissjóðs. Þá voru ákveðnar hækkaðar barnabætur og tekjutryggingar, sem ekki er gerð grein fyrir í þessum ráðstöfunum með sama hætti. Þá voru skattar lækkaðir eins og vörugjaldið. Nú er vörugjaldið hækkað og skattar þyngdir. Þá voru ríkisútgjöld lækkuð, en nú eru ríkisútgjöld aukin. 1978 voru áfangahækkanir launa, sem vógu upp á móti verðbótaskerðingunni, en því er ekki með sama hætti til að dreifa nú. 1978 hafði verðbótaskerðingin ekki í för með sér kaupmáttarrýrnun miðað við árið áður, en boðuð er 6% kaupmáttarrýrnun á næsta ári í kjölfar bráðabirgðalaganna. Þannig var að öllu þessu leyti ólíku saman að jafna 1978 og nú. Þess vegna er Sjálfstæðisflokkurinn samkvæmur sjálfum sér þegar hann er á móti þessum bráðabirgðalögum og bendir á að þau eru skýrt dæmi um vinstristjórnarstefnu.

Nú hafa formenn allra fjögurra stjórnmálaflokkanna á Alþingi kveðið upp úr með það í umboði flokka sinna, að ekki komi til mála að draga kosningar til Alþingis lengur en í síðasta lagi til aprílmánaðar n.k. og síðasti ræðumaður sá sig nauðbeygðan til að taka undir þessar yfirlýsingar, sem betur fer. Næstu alþingiskosningar hljóta að snúast um atvinnu- og efnahagsmál öðru fremur, slíkar blikur sem eru á lofti í þeim efnum. En áður en til kosninga er gengið er ljóst að það er þjóðarkrafa að jafnað verði vægi atkvæða eftir kjördæmum og tryggt að þingmannatala flokka verði í samræmi við fylgi kjósenda.

Þegar rætt er um vægi atkvæða eftir kjördæmum eru tvö meginsjónarmið uppi. Sumir segja að sérhver kjósandi eigi að hafa sama atkvæðisrétt, það sé hið eina og sanna lýðræði. Um það verður út af fyrir sig ekki deilt. Hitt er ljóst, að því marki höfum við aldrei náð. Aðrir segja að áhrif íbúa strjálbýlis á stjórn landsins og löggjafarsamkomu séu minni en þéttbýlisbúa, sem nær búa, og það réttlæti misvægi atkvæða. Samkomulag þarf að takast á milli talsmanna þessara tveggja meginsjónarmiða svo að þeir sætti sig við. Hið fullkomna lýðræði dugar okkur skammt ef það verður til þess að sundra þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar, þeirra sem búa í þéttbýli á suðvesturhorninu og hinna sem búa í hinum dreifðari byggðum, einmitt þegar okkur er svo mikill vandi á höndum. En jafnljóst er að Alþingi er ekki fært um að takast á við vanda þjóðarbúsins ef það endurspeglar ekki með viðunandi hætti vilja þjóðarinnar. Það er að mínu mati ekki ofmælt að umbætur á þessu sviði séu forsenda þess að við getum brotið í blað í efnahags- og atvinnumálum með svipuðum hætti og gerðist eftir kjördæmabreytinguna 1959 með viðreisninni.

Góðir áheyrendur. Af liðnum áratug getum við dregið þann lærdóm að við verðbólguna og efnahagsvandann verður ekki ráðið með þeim aðferðum sem beitt hefur verið á þessu tímabili. Þær hafa gengið sér til húðar. Það er tími til kominn að brjóta í blað. Á næstu misserum þurfum við að einbeita okkur að tvíþættu verkefni: Í fyrsta lagi að móta langtímastefnu í efnahags- og atvinnumálum fram til aldamóta og skapa skilyrði fyrir þá vaxtarbrodda í íslensku atvinnulífi sem leysa vandann með vaxandi framleiðslu og framleiðni, í öðru lagi að gera okkur grein fyrir hvernig við getum best aðlagað okkur erfiðari aðstæðum í efnahagsmálum viðskiptalanda okkar en ríkt hafa um nokkurt árabil. Í þeim efnum er eitt víst. Það gerum við ekki með haftakerfi eins og nýgerðar samþykktir Alþb. og Framsfl. gefa í skyn. Ég hef trú á að nú sé betri jarðvegur til átaka í efnahagsmálum okkar meðal alls almennings og meiri skilningur á þörf slíkra ráðstafana en verið hefur um langt skeið. En því ber ekki að neita að mikill vandi er fólginn í því pólitíska sundurlyndi og almennri þjóðfélagslegri upplausn sem því miður er fylgjandi í kjölfar óðaverðbólgu.

Sjálfstæðisflokkurinn hvatti til þjóðarsamstöðu við stjórnarmyndun fyrir þremur árum. Því miður var þeirri hvatningu ekki sinnt. Framsfl. og Alþb. kusu þá heldur að gera tilraun til að kljúfa Sjálfstfl. Þessir flokkar hafa uppskorið eins og þeir hafa sáð, með vaxandi ágreiningi og átökum innan eigin flokka. Alvarlegur ágreiningur er kominn upp í Alþfl.

Óheilindi í stjórnmálabaráttu verða að víkja, en ábyrgð og heilindi að ríkja. Sjálfstæðismenn hafa á þessum þrem árum sýnt að þeir hafa staðið af sér klofningsstarfsemi annarra flokka. Það sýndi landsfundur fyrir ári og sigurinn í sveitarstjórnarkosningunum. Sjálfstfl. er enn sem fyrr kjölfesta og frumkvæðisafl, sem þjóðinni er nauðsynlegt til að tryggja frelsi sitt, lýðræði og öryggi, efnahagslegt sjálfstæði og framfarir, félagslegt öryggi og mannúð í samskiptum manna og stjórnvalda.

Hver sem úrslitin verða í atkvæðagreiðslu um þessa vantrauststill. er ljóst að þáttaskil eru fram undan og á alþingismönnum og öðrum landsmönnum hvílir sú skylda að sýna þann manndóm og þá reisn sem þarf til að brjótast út úr þeim vítahring efnahagslegra vandamála og stjórnmálalegrar upplausnar sem nú herjar á þjóð okkar. Við væntum þess að komandi alþingiskosningar skipti sköpum í þeim efnum og hreinsi andrúmsloftið. Ég þakka áheyrnina.