23.11.1982
Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

88. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Egill Jónsson:

Herra forseti. Skammt er nú stórra höggva á milli: Vantraust á ríkisstjórnina í raun samþ. á miðstjórnarfundi Framsfl., vantraust á ríkisstjórnina í raun samþ. á flokksráðsfundi Alþb., vantraustsill. flutt og rædd á Alþingi. Þetta gerist þótt skapadægur núverandi ríkisstjórnar séu löngu ráðin. Kosningaloforð Framsfl. um niðurtalningu verðlags og Alþb. um samninga í gildi og óskert kjör eru tæpast nothæf í almennri stjórnmálaumræðu, þótt jafngagnleg séu sem viðvörun til framtíðarinnar, sem aðvörun um hvaða aðferðum menn hafa beitt til að leiða blekkingarnar til valda á Íslandi.

Eitt af aðalmarkmiðun hverrar ríkisstjórnar er að móta þjóðfélagið, færa framtíðina til þess horfs sem stjórnarstefnu hvers tíma er geðfelldast. Árangur og áhrif núverandi stjórnarstefnu á atvinnuvegina eru í þessum efnum að skýrast.

Mér hefur nýlega borist í hendur nákvæmur samanburður á dreifingu bústofns um landið eftir sýslum og kjördæmum. Þar kemur í ljós, að frá þeim tíma sem landbúnaðarráðuneytið færðist úr höndum Ingólfs Jónssonar og Framsfl. tók þar við hefur bústofn í Vestfjarðakjördæmi minnkað um fjórðung, í Austfjarðakjördæmi um 1/5, en annars staðar er fækkunin minni. Með því að breyta möguleikum til framleiðslu breytist byggðin líka.

Það vakti athygli þegar formaður Framsfl. lýsti því yfir fyrir einu og hálfu ári og það í sjónvarpi, að það væri honum mikið gleðiefni að þeirri stefnu er hann hefði mótað sem landbúnaðarráðherra væri framfylgt af núverandi ríkisstjórn. Þetta mál er rétt, stjórnarstefnan er óbreytt. Haldið hefur verið áfram, eins og þá var upp tekið, að skerða lögboðið framlag ríkissjóðs til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Nemur sú skerðing núna samtals á þessu tímabili rúmum 45 millj. króna. Hið svokallaða sparnaðarfé, sem breytt jarðræktarlög áttu að skila til stuðnings við ný viðfangsefni í landbúnaði, hefur farið síminnkandi og er hlutur hins opinbera samkv. því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir minni en ekki neitt.

En vinstri sporin liggja víðar. Talið er að til að unnt sé að gera út nýtt skip á Íslandi þurfi afli þess að verða fjór- eða fimmfaldur við það sem verið hefur. Við þær aðstæður geta framleiðslutæki ekki endurnýjast fyrir verðmæti eigin afla. Fjármagnið þarf að koma annars staðar frá og þá er komin röðin að ríki, sveitarfélögum eða öðrum aðilum sem möguleika hafa á að draga saman fé með öðrum rekstri eða braski. Þannig leiðir af stefnu núverandi ríkisstjórnar að þessi höfuðatvinnuvegur íslensku þjóðarinnar, sem nærst hefur á áræði íslenskra útvegs- og sjómanna, stefni í beina þjóðnýtingu, haldi svo fram sem nú horfir.

Fróðir menn segja að á háhitasvæðum Íslands sé eins mikla orku að fá og samanlagða þekkta nýtanlega orku í öllum olíuauðlindum heimsins. Aðrar stærðir orkuauðæfa eru einnig fyrir hendi þótt smærri séu í sniðum. Þessi auður er ævarandi. Þennan auð á íslensk þjóð. Skynsamleg og djörf áform um nýtingu í orku og iðju verða og eiga að leggja grundvöll að bættum kjörum íslensku þjóðarinnar.

Ég bið menn að athuga að þetta fjöregg okkar Íslendinga er í höndum kommúnista nú. Það skýrir stefnu núverandi ríkisstjórnar í þessum mikilvægu málaflokkum að framkvæmdir í orku- og iðnaðarmálum hafa á síðustu árum stórlega dregist saman. Þannig bregst ríkisstjórnin við þeirri miklu þörf að auka framleiðslu á Íslandi. Skyldi íslensk þjóð nokkru sinni hafa þurft að greiða eins stórt meðlag með embættisferli eins ráðherra og þess sem í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur farið með málefni orku og iðnaðar?

Þau dæmi sem ég hef nú tilgreint sýna svo ekki verður um deilt hver áhrif vinstri stefna hefur á málefni og stöðu atvinnulífsins í þessu landi.

Þegar samdráttur hefur átt sér stað í þjóðarframleiðslu og Sjálfstfl. hefur verið við völd, eins og t.d. síðustu ár sjöunda áratugarins, hefur verið lögð á það sérstök áhersla að treysta atvinnulífið og auka framleiðsluna. Árangurinn hefur svo komið fram í því, að erlendar skuldir hafa verið greiddar, viðskipti við útlönd hafa komist í eðlilegt form.

Nú sem fyrr er atvinnu- og framleiðslusókn grundvallarmarkmið Sjálfstfl. til lausnar þeim vanda, sem þjóðin stendur nú frammi fyrir, og til að treysta kjör hennar og hagsæld þegar til lengri tíma er litið.

Vinstri andstæðurnar eru skýrar. Þannig leggur miðstjórnarfundur Framsfl. til að lögbjóða samdrátt í þjóðfélaginu. Alþb. gerir tillögur um neyðarráðstafanir til fjögurra ára. Þeirra eigin dómur um eigin stjórnarathafnir er ótvíræður og skýr.

Mönnum hefur verið tíðrætt um ágreining eða klofning í Sjálfstfl., eins og sumir vilja haga orðum, og vissulega hefur mörg umræða átt sér stað af minna tilefni. En hvað þá um framtíðina? Hver verður styrkur og hlutur Sjálfstfl. í íslenskum stjórnmálum?

Ég segi við alla sjálfstæðismenn, ég segi við alla íslensku þjóðina: Er ekki nóg komið? Eru áfallnir reikningar og ógreiddir sem íslenska þjóðin verður að greiða vegna stjórnarsetu núverandi ríkisstjórnar, ekki orðnir nógu háir? Er sundrungin í þjóðfélaginu ekki nægileg, úrræðaleysið nógu augljóst? Er ekki mál að þeirri pólitísku martröð, sem grafið hefur um sig í þjóðlífinu á síðustu árum, linni? Við þessum spurningum gáfu kjósendur á Íslandi mikilvæg svör í kosningunum á s.l. vori.

Það styttist í alþingiskosningar. Með endurnýjuðu og auknu trausti á Sjálfstfl. mun svar íslensku þjóðarinnar verða enn skýrara og afdráttarlausara en nokkru sinni fyrr.

Sjálfstæðismenn. Snúum bökum saman, herðum sóknina, leggjum grunn að hagsæld íslensku þjóðarinnar með sigri Sjálfstfl. í næstu alþingiskosningum.