23.11.1982
Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

88. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þið hafið nú heyrt Alþfl. flytja vantraust sitt. Þótti ykkur það ekki sannfærandi? Þið hafið séð að Alþfl. er klofinn, þótt formaður hans sjái það alls ekki að því er virðist.

Alþfl. var stofnaður sem jafnaðarflokkur og árum saman beitti Alþfl. sér vel fyrir auknum jöfnuði og velferð hjá þjóðinni. Og þegar litið er á árin fyrir síðustu heimsstyrjöld og samstarf Framsfl. og Alþfl. þá, er það satt að segja aðdáunarvert, hvað miklu varð framgengt, t.d. lagður grundvöllur að nýjum atvinnugreinum, auknar opinberar framkvæmdir og alls konar félagslegum umbótum hrundið fram, þrátt fyrir mikla andstöðu íhaldsaflanna í landinu.

En svo tók Alþfl. að klofna og það sem eftir varð hafnaði að lokum í náðarfaðmi Sjálfstfl. 1959. Í því stjórnarsamstarfi kynntumst við Íslendingar eina atvinnuleysinu, sem við höfum kynnst, frá því fyrir síðustu heimsstyrjöld. Við kynntumst landflótta. Við viljum ekki meira af slíku.

Nú flytur Alþfl. vantraust á ríkisstj. og Jón Baldvin Hannibalsson biður jafnframt þjóðina um að veita sér traust svo að hann geti tekið við stjórn og komið hér á amerískum lífsstíl, eins og hann orðaði það áðan.

Eins og alþjóð veit missti ríkisstj. meiri hluta sinn í neðri deild Alþingis í lok ágúst s.l. Þá börðu stjórnarandstæðingar sér á brjóst og lýstu því yfir að þeir mundu fella brbl. hvað sem það kostaði. Og það er alveg rétt hjá Geir Hallgrímssyni, að til baka litið, þá tel ég að rétt hefði verið að taka þá á orðinu, kveðja saman þing í september og láta þá standa fyrir stóru orðunum sínum.

En ýmsir töldu þetta þó ekki rétt og töldu ekki á það hættandi að felldar yrðu þær efnahagsráðstafanir sem tekið hafði alllangan tíma s.l. sumar að ná samstöðu um.

Við þessar aðstæður lagði ég til, að gengið yrði til viðræðna við stjórnarandstöðuna og reynt að ná samstöðu um framgang brýnustu efnahagsmála og jafnframt samið um kosningar. Þetta var að mínu áliti eina ábyrga leiðin í því ástandi sem var, og ég vildi ekki trúa því að stjórnarandstaðan snerist ekki ábyrg við slíkri viðleitni.

Ég get ekki neitað því að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með viðbrögð stjórnarandstöðunnar. Krafa Sjálfstfl. og Alþfl. um það að stjórnin segi af sér er ábyrgðarlaus. Það er krafa um stjórnleysi í skemmri eða lengri tíma. Því meiri ástæða var til að fagna því, er flokksþing Alþfl. sendi formanninn til baka og sagði honum að setjast niður aftur og taka upp viðræður um framgang brýnustu þingmála.

Það var að vísu heldur hvimleitt að taka við skilyrðum frá Alþfl., en þau voru þannig að nánast var útilokað annað en að uppfylla þau. Og reyndar næsta dag eftir að skilyrðin voru sett fram var fyrsta þeirra uppfyllt. Brbl. voru lögð fram í efri deild Alþingis. En þá bregður skyndilega svo við að Alþfl. samþykkir að flytja vantraust á ríkisstj. Ekki veit ég hvað breyttist svo skyndilega, en margir hyggja að þarna hafi átt að reyna að breiða yfir þá meinsemd í Alþfl. sem nú hefur brotist út. Hvað sem þessu ræður, þá vil ég halda því fram, að þessi framkoma sé vægast sagt mjög ámælisverð. Mér sýnist þarna vanta heilindi og drengskap.

Þeir fulltrúar Alþfl. og Sjálfstfl., sem hér hafa talað, hafa talið allar gerðir ríkisstj. í efnahagsmálum einskis nýtar og til hins verra. Það er þeirra siður. Þeir segja berum orðum að sjálfsagt sé að laun hækki um 18% 1. des. n.k., og svo að sjálfsögðu einnig búvöruverð og fiskverð. Þeir minnast ekki einu orði á að það mundi leiða til 80–90% verðbólgu. Þeir minnast ekki orði á þá staðreynd, að atvinnuvegunum er ókleift að greiða 18% hærri laun, án þess að fá þegar hækkun á sinni framleiðslu og tvímælalaust gengisfellingu sem næmi líklega um 15–20%. Og þannig væri enn ein kollsteypa verðbólgunnar skollin á.

Ég trú ekki að svo ábyrgðarlaust tal fái hljómgrunn hjá þjóðinni. Stjórnarandstaðan gæti hins vegar með nokkrum rétti gagnrýnt það, að ríkisstj. hafi gengið of skammt í efnahagsráðstöfunum sínum. Benda mætti á að efnahagsráðstafanir þessar hefðu þurft að koma til framkvæmda s.l. vor, einnig mætti gagnrýna að ekki hefði verið gripið til beinna aðgerða til að draga úr þeim innflutningi sem veldur nú verulegum greiðsluhalla hjá þjóðinni. Nei, því miður, ábyrgar tillögur stjórnarandstöðunnar finnast ekki.

Undanfarið hafa menn spurt stjórnarandstöðuna ítrekað, hvað hún vill. Lítil svör hafa fengist. Kjartan Jóhannsson og Alþfl. eru bara á móti. Og þegar Kjartan var spurður að því í sjónvarpinu nýlega, hvað ætti að gera í erfiðleikunum nú, sagði hann með fyrirlitningu: að menn ættu ekki að líta niður fyrir tærnar á sér. Hann kvaðst vera hinn klóki og framsýni maður.

Nú leyfði Kjartan okkur að heyra nokkuð af kosningaloforðum Alþfl. Einna athyglisverðust virtist mér sú hugmynd Alþfl. að greiða fullar verðbætur á öll innlán, en að veita verulegan afslátt af því sem lánað er út úr bönkunum. Það þarf satt að segja mjög klókan mann til að láta það dæmi ganga upp.

Það var ekki síður athyglisvert að heyra Kjartan Jóhannsson, þennan fyrrv. sjútvrh., fullyrða hér að útgerðin sendi þjóðinni og ríkissjóði reikninginn. Hvað ætli þeir séu margir reikningar sem sjávarútvegurinn íslenski hefur greitt fyrir íslenski þjóðarbú? Þetta voru satt að segja heldur kaldar kveðjur til íslenskra útgerðarmanna og sjómanna.

Fulltrúar Sjálfstfl. fluttu hins vegar nokkuð áferðarfallegar ræður um hið frjálsa framtak. Undir frelsi einstaklingsins til athafna vil ég taka, það er hverri þjóð nauðsynlegt. Hins vegar vísa ég því á bug að það lækni okkar efnahagsvanda að láta markaðinn ráða stefnunni. Smáþjóð sem á stórum sviðum er svo háð — ofurseld nánast — stórframleiðslu erlendra þjóða getur ekki hætt á slíkt. E.t.v. höfum við gengið of langt nú þegar.

Í málflutningi sjálfstæðismanna leynir sér ekki leiftursóknin og það leynir sér heldur ekki að þeir lita hýru auga vinkonu sína í Bretlandi, þar sem atvinnuleysi nú, ef borið er saman við okkur Íslendinga, jafngildir 14 þús. manns hér. Hið mátulega atvinnuleysi virðist því miður enn vera grundvallarstefna Sjálfstfl. í efnahagsmálum.

Við framsóknarmenn munum aldrei taka þátt í því að leiða atvinnuleysisbölið yfir íslensku þjóðina. Við fögnum því alveg sérstaklega að núv. ríkisstj. hefur tekist, þrátt fyrir gífurlegt atvinnuleysi í viðskiptalöndum okkar, að halda því böli frá. Við framsóknarmann vekjum athygli á því, að efnahagsaðgerðir ríkisstj. á fyrri hluta ársins 1981, sönnuðu að ná má verðbólgu niður án þess að stofna til atvinnuleysis og jafnvel auka kaupmáttinn a.m.k. ef þjóðartekjur dragast ekki saman.

Við sjáum hins vegar enga ástæðu til þess að draga fjöður yfir það að í sumu hefur ríkisstj. ekki tekist sem skyldi. Í allri umr. um efnahagsmálin gleymist oft að þessi ríkisstj. hefur fengið miklu áorkað á fjölmörgum sviðum. Ég nefni vegamálin aðeins sem dæmi. Á því sviði má segja að bylting hafi orðið á undanförnum árum. Stórkostleg aukning á bundnu slitlagi er gleggsta dæmið um það. Langtímaáætlun í vegamálum og sú samstaða, sem náðst hefur á Alþingi um að binda framlag til vega við ákveðinn hundraðshluta af þjóðarframleiðslu, ætti að tryggja að því stórátaki, sem hafið er, verði haldið áfram. Fjárfesting í góðum vegum er vafalaust sú arðmesta sem við eigum kost á.

Góðir hlustendur, kosningar eru fram undan. Ekki er ólíklegt að þær verði seinni hluta aprílmánaðar, en þær gætu orðið fyrr. Ef stjórnarandstaðan stöðvar framgang mikilvægustu mála er að sjálfsögðu ekki um annað að ræða en að rjúfa þing og boða til kosninga sem gætu þá orðið jafnvel í febrúar. En út af fyrir sig skiptir það litlu máli hvort kosningar eru í febrúar, mars eða apríl, málefnið er aðalatriðið.

Undanfarin ár hefur mikið verið unnið að endurskoðun á stjórnarskránni. Hér sýnist mjög vafasamt, að takast megi að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar áður en þing er rofið og til kosninga gengið. Það harma ég því þörfin er brýn.

Við framsóknarmenn höfum þess vegna lagt til að kvatt verði saman sérstakt stjórnlagaþing sem fjalli eingöngu um breytingar á stjórnarskránni. Við teljum því réttast að breytingar á kosningum til Alþingis verði bundnar við breytingar á kosningalögunum einum. Með því móti er ekki þörf á að efna til tvennra kosninga á næsta ári, sem þjóðin hefur satt að segja ekki efni á, eins og nú er ástatt.

Með slíkum breytingum á kosningalögum mætti flytja uppbótarsætin öll til Reykjavíkur og á Reykjanessvæðið og þannig jafna verulega vægi atkvæða á milli kjördæma. Þannig yrði þm. heldur ekki fjölgað. Frekari breytingar á kosningum til Alþingis munu þá bíða heildarendurskoðunar stjórnarskrárinnar. Náist ekki samstaða um slíkt, leggjum við höfuðáherslu á að fjölgun þm. verði sem allra minnst.

Efnahagsmálin verða vafalaust meginbaráttumál kosninganna. Engum getur dulist, að verðbólgan mundi ríða íslensku atvinnulífi að fullu, ef svo héldi fram sem horfir. Því verður ekki hjá því komist, að draga úr verðbólgunni og að því stefna þær aðgerðir sem ákveðnar eru 1. des. n.k. Vafalaust má brjóta verðbólguna á bak aftur með því að draga mjög úr öllum framkvæmdum og framboði fjármagns þannig að atvinnufyrirtækin stöðvist, atvinnuleysi hefjist og úr eftirspurn dragi. Þetta er leiðin sem farin er af íhaldsmönnum víðast um heim. Þá leið viljum við framsóknarmenn alls ekki fara.

Við framsóknarmenn leggjum áherslu á hjöðnun verðbólgu án atvinnuleysis. Við viljum byggja á þeirri reynslu, sem fengist hefur, því teljum við nauðsynlegt að lögbinda t.d. til tveggja ára aðgerðir í efnahagsmálum. Við teljum skynsamlegra og tvímælalaust sársaukaminna að setja hámark á hækkanir vöruverðs og þjónustu, búvöruverðs, fiskverðs, verðbætur á laun og hámark á fjármagnskostnað, allt í samræmi við það markmið sem menn setja sér um hjöðnun verðbólgunnar. Grunnkaupshækkunum verður jafnframt að fresta á slíku tímabili.

Hinn mikli viðskiptahalli og erlend skuldasöfnun er stærsta vandamálið nú. Ekki verður komist hjá hörðum aðgerðum til þess að stöðva þá þróun. Óhjákvæmilegt kann að reynast að grípa til beinna aðgerða í því skyni. Geir Hallgrímsson kallaði slíkar aðgerðir hér áðan höft, það er mikill misskilningur. Þau eru höftin verst sem mundu leiða af aukinni erlendri skuldasöfnun.

Góðir Íslendingar. Vegna kreppu allt í kringum okkur og aflabrests eru erfiðir tímar nú. Yfir þá munum við komast, það efa ég ekki. Framtíðin byggist á því að grundvöllur atvinnulífsins sé traustur og framleiðslan aukist. Við framsóknarmenn munum leggja áherslu á markvissar og samræmdar aðgerðir til hjöðnunar verðbólgu án atvinnuleysis og aukna framleiðslu og hagvöxt á grundvelli framleiðslustefnunnar.

En góðir hlustendur. Í allri þessari umr. vill stundum það mikilvægasta gleymast. Mannlífið sjálft. Við verðum að brjótast út úr vitahring verðbólgunnar og fá tóm til þess að njóta þess sem áunnist hefur, sem er gífurlega mikið satt að segja, njóta landsins, njóta fjölskyldunnar, njóta tómstundanna og njóta betra mannlífs. Við skuldum okkur sjálfum það og ekki síst ungu kynslóðinni. Við þyrftum sem flest að fylgja heilræði Stephans G. Stephanssonar: „að hugsa ekki í árum en öldum, að alheimta ei daglaun að kvöldum, því svo lengist mannsævin mest.“ Góða nótt.