23.11.1982
Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

88. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ein af frumskyldum ríkisstjórnar í lýðræðis- og þingræðislandi, eins og við Íslendingar teljum okkur til, er að sjá farborða og koma fram hér á Alþingi þeim lagafrv. sem hún telur nauðsynleg og lúta að þeirri stefnu sem ríkisstj. hefur markað sér. Fyrir liggur að núv. ríkisstj. getur ekki fullnægt þessari sinni frumskyldu hér á Alþingi þar sem hún hefur misst meiri hl. í annarri þingdeildinni. Ríkisstj. er því í sjálfheldu, sem er þess valdandi að í stjórn landsins hrúgast vandamálin upp og valda þjóðarbúinu ómældu tjóni. Ríkisstj. má því líkja við strandgóss, ef strandgóss skal kalla, sem enn er á strandstað, en bíður þess að verða fjarlægt. Slík ríkisstj. á auðvitað að segja af sér. Að því gerðu er það eitt af verkefnum Alþingis að sjá þjóðinni fyrir starfhæfri ríkisstj., og til þess eru ýmsar leiðir, uns þjóðin getur við eðlilegar aðstæður og á eðlilegum tíma fellt sinn dóm við kjörborðið í almennum kosningum. Virði ríkisstj. að vettugi þessa frumskyldu þingræðisins og sitji áfram er hún vísvitandi að valda þjóðinni frekara tjóni en þegar er orðið. Verði svo er ábyrgð ríkisstj. meiri en hún fær undir risið. Ég segi já.