24.11.1982
Efri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

97. mál, þjóðsöngur Íslendinga

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem um þetta mál mun fjalla. Að þessari umræðu lokinni sé ég ekki ástæðu til að vera langorður, en örfáum orðum vildi ég þó bæta við þessa umr.

Ég efast satt að segja stórlega um nauðsyn laga af þessu tagi. Auðvitað nýtur þjóðsöngur okkar, eins og fram kom hér ágætlega hjá hv. 4. þm. Vestf., verndar samkv. höfundalögum. En ef menn telja alveg nauðsynlegt að staðfesta með löggjöf að þessi skuli vera þjóðsöngur okkar Íslendinga, þá held ég að e.t.v. væri nóg að í þeim lögum væri 1. gr. þessa frv., 2. gr. og 4. gr.

1. gr.: Þjóðsöngur Íslendinga er „Ó guð vors lands“ við ljóð eftir Matthías Jochumsson og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar.

2. gr.: Þjóðsöngurinn er eign íslensku þjóðarinnar og fer forsrn. með umráð yfir útgáfurétti á honum.

3. gr.: Ekki er heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni.

Ég held að það sé, eins og hér hefur fram komið, ákaflega erfitt að binda í lög ákvæði eins og eru í 3. gr. þessa frv. Ég fæ ekki fellt mig við þá hugmynd að Alþingi beinlínis setji lög um listtúlkun. Alþingi getur ekki heldur sett lög um góðan smekk. Þetta getur ekki orðið löggjafaratriði. Hér verða skynsemi og góður smekkur að ráða. Að vísu er alltaf sú hætta fyrir hendi að einhverjum þyki tilfinningum sínum misboðið með flutningi þjóðsöngsins. En öðrum þykir það aftur gott, þannig að ég held að um þessi atriði sé ákaflega erfitt og í rauninni mjög hæpið að Alþingi setji löggjöf.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það er af ákveðnu tilefni sem þetta frv. til l. kemur hér fram. Ég verð að segja alveg eins og er, að eftir að hafa hlýtt á það tilefni finnst mér það ekki eins stórvægilegt eða stórt mál og upphaflega var úr gert. En um smekk er ekki hægt að deila. Það sem einum þykir gott í þessum efnum þykir öðrum miður og lengra komumst við ekki þar.

Ég vildi aðeins láta þessa skoðun mína koma hér fram, herra forseti, en annars mun allshn. þessarar deildar taka þetta mál til meðferðar að þessari umr. lokinni.