24.11.1982
Efri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

103. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, fjallar um breytingu á þeim ákvæðum laganna er varða sektaheimildir lögreglumanna og lögreglustjóra. Þessar sektaheimildir eru nú bundnar við 300 kr. að því er varðar lögreglumenn og 3000 kr. að því er varðar lögreglustjóra. Þá er heimild lögreglustjóra til að ákvarða eignaupptöku bundin við 1000 kr. verðmæti. Þessar fjárhæðir eru bundnar við tiltekna málaflokka, þ.e. brot á umferðarlögum, áfengislögum og lögum um tilkynningar aðsetursskipta og lögreglusamþykktum. lætur ríkissaksóknari lögreglustjórum í té skrá yfir þau brot sem sektaheimildin nær til og eru í þeirri skrá leiðbeiningar um sektaupphæðir yfir hverja tegund brota. Vegna verðlagsþróunar undanfarin ár er nauðsynlegt að hækka fjárhæðir þær sem í lögunum standa.

Sú skipan að afgreiða mál með lögregluseki hefur gefið góða raun og léttir verulega starfi af dómstólum. Með frv. þessu er lagt til að sektaheimild lögreglumanna hækki í 1200 kr. og sektaheimild lögreglustjóra í 12 þús. kr. Jafnframt hækki verðmæti þess sem lögreglustjóri hefur heimild til að ákveða við eignaupptöku samhliða sektaákvæðum í 4000 kr.

Eins og áður segir hafa sektagerðir þessar gefið góða raun og létt verulega starfi af dómstólum. Hins vegar er svo um hnúta búið, að máli verður ekki lokið með þessari aðferð nema aðili samþykki. Ef hann samþykkir ekki þessa málsmeðferð verður máli vísað til meðferðar dómstóla.

Herra forseti. Ég hef rakið meginefni frv. þessa. Ég vil mælast til þess að frv. þetta geti hlotið afgreiðslu fyrir jól, en þannig stendur á að eigi mun nú unnt að endurskoða þær leiðbeiningar sem ríkissaksóknari gefur út þar sem eðlileg endurskoðun fjárhæðanna mundi fara upp fyrir þau takmörk sem lögin setja í dag. Hins vegar er nauðsynlegt að sektafjárhæðir þessar verði hækkaðar og þær séu jafnan í samræmi við verðlag á hverjum tíma.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.