24.11.1982
Neðri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

14. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í 66. gr. skattalaganna segir svo, með leyfi forseta:

„Skattstjóri skal taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns þegar svo stendur á sem hér greinir:

1) Ef ellihröleiki, veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol manns verulega.

2) Ef á framfæri manns er barn sem haldið er langvinnum sjúkdómum eða er fatlað eða vangefið og veldur framfæranda verulegum útgjöldum umfram venjulegan framfærslukostnað og mótteknar bætur.

3) Ef maður hefur foreldra eða aðra vandamenn sannanlega á framfæri sinu.

4) Ef maður hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri.

5) Ef maður hefur orðið fyrir verulegu eignatjóni sem hann hefur ekki fengið bætt úr hendi annarra aðila.

6) Ef gjaldþol manns hefur skerst verulega vegna taps á útistandandi kröfum, sem ekki stafa frá atvinnurekstri hans.

7) Ef maður lætur af störfum vegna aldurs og gjaldþol hans skerðist verulega af þeim sökum.“

Eins og af þessari upptalningu má ráða, byggjast flest þessi ákvæði í skattalógunum á því, að gjaldþol manns hafi skerst verulega og vegna þess skuli taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns. Sú breyting, sem hér er lögð til á 66. gr. skattalaganna á þskj. 14 í frv. til l. um breyt á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, er að við bætist nýr liður, sem verði 8. liður og hljóði svo:

„Ef maður hefur haft veruleg útgjöld vegna tannviðgerða og gjaldþol hans skerðist verulega af þeim sökum.“

Varla þarf að tíunda hér fyrir hv. alþm. að tannviðgerðir, sérstaklega gullfyllingar, krónu- og brúaraðgerðir auk tannholdsaðgerða, eru oft mjög kostnaðarsamar og oftlega ekki á færi nema fárra að standa undir þeim. Í grg. er nefnt að ekki sé óalgengt að meiri háttar tannviðgerðir geti kostað á bilinu 40–80 þús. kr. Mjög algengar upphæðir eru oft á bilinu 10–40 þús. kr. vegna t.d. gullfyllinga. Segir það sig sjálft að slíkar upphæðir hljóta að skerða verulega gjaldþol venjulegs launamanns, að ekki sé talað um þær upphæðir sem fólk þarf stundum að standa undir þegar um meiri háttar aðgerðir er að ræða, t.d. gullfyllingar og brúaraðgerðir.

Enginn ræðst í meiri háttar tannviðgerðir nema af brýnni nauðsyn vegna hins óheyrilega kostnaðar sem því oft fylgir. Oft fresta menn brýnustu tannviðgerðum lengur en lengstu lög leyfa vegna þessa kostnaðar. Launafólk hefur oftast ekki annað til að standa undir slíkum kostnaði en verðmæti vinnu sinnar. Það segir sig sjálft, að launafólk sem hefur í árstekjur á bilinu kannske 100–120 þús. kr. er varla aflögufært til að standa undir meiri háttar tannviðgerðum, sem nema kannske 1/4 eða jafnvel 1/3 af árstekjunum. Almennt er ekki um greiðslufrest að ræða á þessum kostnaði. Því er sjaldnast um aðra möguleika að ræða hjá launafólki en taka verðtryggð lán í þessu skyni.

Ég held að óhætt sé að fullyrða, að þegar litið er til þeirra sjö töluliða 66. gr. skattalaganna sem nú geta gefið skattaívilnun sé ekki síður ástæða að taka tillit einnig til þeirra aðstæðna þegar um er að ræða verulega skert gjaldþol vegna tannviðgerða.

Benda verður einnig á að tannvernd er mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu landsmanna og ætti að skipa sess í heilsuverndinni sem önnur heilbrigðisþjónusta með meiri þátttöku hins opinbera í kostnaði en verið hefur, enda geta slæmir tannsjúkdómar í vissum tilfellum verið orsök annarra sjúkdóma. Enn er það þó svo, að sjúkratryggingar greiða ekki fyrir tannviðgerðir almennt nema að einhverju og oft öllu leyti þó fyrir börn og ellilífeyrisþega. Vitað er þó, að einmitt dýrar tannholdsaðgerðir, gullfyllingar og brúarsmíð eru einmitt mjög algengar aðgerðir í þeim aldursflokkum sem ekki er greitt fyrir af sjúkratryggingum. Er þessi leið ekki síst valin nú með tilliti til þess að þátttaka hins opinbera er nánast engin í greiðslum fyrir þann fjölda sem þarf á meiri háttar tannviðgerðum að halda, en veigrar sér við því og gerir það stundum alls ekki vegna kostnaðar sem fólkið treystir sér ekki til að standa undir. Í þessu frv. er lögð til ný leið og gerð tilraun til að létta á þessum kostnaði eins og frekast er mögulegt gegnum skattakerfið.

Eðlilegt er að spurt sé hver þessi skattaívilnun eigi að vera. Því er til að svara, að skattstjóri setur sjálfur skilyrði og reglur um ákvæði 66. gr. Þess vegna metur hann hver skattaívilnun á að vera í þessu tilfelli sem öðrum sem 66. gr. kveður á um.

Ég skal ekkert úr því draga að stundum getur verið erfitt að setja reglur og skilyrði um það ákvæði, sem nú er í 66. gr. skattalaganna, og geri ég ráð fyrir að oft verði að meta hvert einstaki tilfelli, því að aðstæður manna eru auðvitað mjög mismunandi og ekki hægt að setja löggjöf um hverf einasta tilfelli sem fundist getur. Ég hef undir höndum þær viðmiðunarreglur sem ríkisskattstjóri hefur gefið út vegna framkvæmdar 66. gr. Sýnist mér að í þeim sé ekki um ákveðnar upphæðir að ræða, heldur verði gefnar út viðmiðunarreglur fyrir hvern lið um sig, þ.e. skilyrði sem uppfylla þarf til að umsókn um lækkun tekjuskattsstofns komi til greina. Einstaka liðir gefa þó vísbendingu um hver skattaívilnun á að vera eins og er um 2. lið. Þegar á framfæri manns er barn sem haldið er langvinnum sjúkdómi, fatlað eða vangefið og veldur framfæranda verulegum útgjöldum, þá er í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra sett fram að ívilnunin skuli að hámarki nema sömu fjárhæð og barnalífeyrir samkv. 14. gr. laga um almannatryggingar. Sýnist mér því að oftast sé lagt í vald skattstjóranna sjálfra hver ívilnunin er, en þeim séu þó settar skorður að því leyti að umsækjandi verði að uppfylla ákveðin skilyrði. Stundum er sett fram í reglunum tekjuviðmiðun eða hliðsjón af skattframtali, en sjaldnast ákveðin nein upphæð vegna einstakra ákvæða 66. gr., enda eru aðstæður manna mismunandi og rétt að slíkt ákvæði búi við sveigjanleika í framkvæmd til að hægt sé að meta frekar einstök tilfelli miðað við mismunandi aðstæður og greiðslugetu.

Þegar borin eru saman ákvæði þau sem nú heimila skattstjóra að lækka tekjuskattsstofn ef gjaldþol skattaðila skerðist verulega og það ákvæði sem nú er lagt til að bætist við 66. gr. held ég að varla verði sagt að það ákvæði, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, sé erfiðara í framkvæmd en þau ákvæði, sem fyrir eru, og einnig hitt, að varla verður því mótmælt að þetta ákvæði, sem í frv. felst, getur ekki síður skert greiðsluþol skattgreiðanda en önnur ákvæði 66. gr. laganna. Í síðustu mgr. 66. gr. tekjuskattslaganna segir svo, með leyfi forseta:

„Nánari ákvæði nm skilyrði fyrir framangreindum ívilnunum skulu sett af ríkisskattstjóra. Skattstjóri getur veitt ívilnanir samkv. þessari grein án umsóknar. Ákvörðun skartstjóra samkv. þessari grein má skjóta til ríkisskattstjóra sem tekur endanlega ákvörðun í málinu. Ríkisskattstjóri skal sérstaklega fylgjast með ívilnunum, sem skattstjórar veita samkv. þessari grein, og sjá til þess að samræmis sé gætt og réttum reglum fylgt.“

Samkv. þessu er ljóst að skattstjóri setur ákveðin skilyrði fyrir ívilnun og er ekki rétt að binda í þessu ákvæði fremur en öðrum í 66. gr. hver ívilnun skuli vera. Hugsa mætti sér þó, að viðmiðunarreglur vegna þessa ákvæðis verði við það miðaðar að taka skuli til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns þegar um er að ræða dýrari tannaðgerðir en vanalegar tannviðgerðir, þ.e. gullfyllingar, krónu- og brúaraðgerðir svo og meiri háttar tannholdsaðgerðir.

Ég vil leyfa mér að leggja til að málinu verði vísað til heilbr.- og trn. að lokinni þessari umr.