19.10.1982
Sameinað þing: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

13. mál, stefna í flugmálum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég nenni ekki að fara að ræða hér um þingsköp, en mér þykir það dálítið endasleppt að láta þessari umr. lokið og að þeir menn sem óskað er eftir að séu hér viðstaddir, flutningsmennirnir sjálfir, og virðist ekki stór krafa, hafi ekki látið svo litið að vera í salnum. Hitt harma ég þó enn meir, að þær fáu spurningar, sem ég lagði hér fram og óskaði eftir að yrði svarað, hafa ekki fengið þá eðlilegu málsmeðferð að þeim væri svarað. Í sjálfu sér er hugsanlegt að þar komi til skilningsleysi hv. 6. þm. Norðurl. e. og mun ég láta á það reyna í einni spurningunni, þ.e. hversu mikið í prósentum telur hann að hefði þurft að hækka flugfargjöldin? Þetta er einföld spurning. Þessu ættu menn að geta svarað beint. Menn, sem hafa hugsað jafn mikið um þessi mál, mættu gjarnan hafa svar við þeirri spurningu. Hv. flm. talar um það að hann þekki til vestra því að hann sé fæddur á Ísafirði. Í sjálfu sér er það ekki nema góðra gjalda vert. Það breytir aftur á móti engu um þá staðreynd, að landshættir gera það allerfitt að gera flugvöll af nægilegri gæðakröfu á Ísafirði, eins og þarft væri og ég vildi að væri gert. Og þegar menn varpa fram billegum rökum, eins og þeim að láta í það skina að ég geri ráð fyrir daglegu þotuflugi frá Holti í Önundarfirði, þá eru það rökþrota menn sem þannig svara. Þeir koma sér undan því að ræða það sem um er spurt og svara því málefnalega.

Það liggur ljóst fyrir að sú stefna sem hér er verið að leggja til yrði til stórkostlegrar bölvunar fyrir hagsmuni vestfirðinga gagnvart flugmálum. Þetta veit meiri hluti þjóðarinnar vegna þess að hún þekkir land sitt, en hv. flutningsmenn hafa því miður ekki gert sér grein fyrir því.