24.11.1982
Neðri deild: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

16. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það eru stjórnmálasamtök, sem enn eru ekki til, sem valda þessu hugarangri hjá hv. 3. þm. Reykv. En það er augljóst að hugarangur þjakar hann í ræðu sinni í dag. Hann sagði í tveimur setningum af hverjum þremur að ég hefði þetta og ég hefði hitt, ég þar og ég hér. Hann nefndi að ég hefði sagt að Framkvæmdastofnunin væri forspillt, vextir í Byggðasjóði 29%, verðbólgan nálægt 70 %.

Í myndum af lánum í síðustu ársskýrslu eru langstærstu litareitirnir þaðan sem þm. í stjórninni sitja. Og þá eru kommissararnir inni líka. Ég þarf ekki að segja meir.

Ég sagði að lög væru brotin af stjórnvöldum. Ég á við lög um verðtryggingarmál. Ég hef margsagt þetta áður. Þetta veit allt þingið. Hvað eru menn að tala um? Hæstv. ráðh. Svavar Gestsson stóð hér í ræðustól um daginn og sagði: Við erum að hugsa um að fara að breyta lögunum um Seðlabankann. En þeir fara ekki aftur þeim. Þetta eru lögin. Hvernig á maðurinn á götunni að hlýða lögum um hitt og þetta, eignarrétt t.d., þegar ríkisstjórn hegðar sér svona? Þetta eru lög, 33. gr. svokallaðra Ólafslaga.

Hv. þm. sagði að ég hefði sagt að bankaráðsmenn ákveði vexti. Hv. þm. er bara ruglaður og hissa. Ég sagði það aldrei. Það sem ég sagði var það að hinar almennu leikreglur um lánskjör eru ákveðnar af Alþingi, af alþm. þegar þeir sitja í þinghúsinu sem löggjafar. En svo eru sömu menn að lána út sértæk lán eftir sömu lögum. Það er þetta sem er kjarni málsins og þessar væmnu athugasemdir eins og sérstakur trúnaðarmaður Alþingis hér og þar, ég veit ekki hvað menn meina með slíkri lágkúru.

Ég vil aðeins geta þess vegna athugasemdar hv. þm. Karvels pálmasonar að í dag er starfandi á launum frá Alþingi svokölluð stjórnarskrárnefnd. Hún er þessa dagana að vinna lagastörf. Hún hefur launaðan ráðgjafa, Gunnar G. Schram, sem er að vinna lagavinnu.

Þetta er sama hugmyndin og í lögunum frá 1928 um lagaráðgjöf til handa Alþingi. Og væntanlega er það ekki óeðlilegt heldur hinn rétti gangur mála, að markaðri stefnu sé skilað til þessa vinnuhóps sem síðan er látinn vinna málið. Við þessar aðstæður eru það auðvitað að minni hyggju afar nákvæm vinnubrögð.

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. bar það á mig að ég hefði verið með í umfjöllun um valdakerfismálin órökstuddar dylgjur. Það segir hann alltaf og ævinlega. Ég hef nú rökstutt að það eru ekki dylgjur heldur sannleikur. Og á því er grundvallarmismunur.