29.11.1982
Neðri deild: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Við flytjum á þskj. 102, ég og hv. 1. þm. Vestf., frv. til laga um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þetta lagafrv. snertir einn þátt í hinum flóknu lögum um álagningu þessara skatta, þ.e. hvernig meta skuli fasteignir sem eignarskattsstofn þegar fasteignir eru notaðar til íbúðar.

Fasteignir eru eignarskattsstofn bæði ríkis og sveitarfélaga. Ríkið leggur á eignarskatt, en sveitarfélögin leggja á fasteignaskatta. Í báðum þessum tilvikum eru fasteignir metnar sem skattstofn á gildandi fasteignamatsverði, en fasteignamatsverð er endurskoðað á hverju ári. Í lögum um fasteignamat og fasteignaskráningu segir að þetta mat skuli miðað við það gangverð sem líklegt er að fasteignir mundu hafa í kaupum og sölum. Þetta ákvæði, þ.e. að miða skuli við gangverð eða kaup- og söluverð íbúða, hefur leitt til þess að í sumum sveitarfélögum hefur fasteignamatsverð íbúða hækkað mun meira en nemur hækkun launa venjulegs launafólks, þannig að skattbyrði bæði eignarskatts og fasteignaskatta þyngist stöðugt. Þetta frv. fjallar eingöngu um eignarskattinn, en ekki um fasteignaskattana, þannig að ég mun halda mig við eignarskattinn. Skattbyrði vegna hans er nú orðin æðimikil þar sem greitt er 1.2% af eignarskattsstofni umfram fyrstu 150 þús. kr. og leigulóðir eru reiknaðar sem eign í þessu sambandi.

Í grg. með þessu frv. eru tilgreindar hækkanir á fasteignamati umfram laun undanfarin fjögur ár. Skal ég ekki lesa það sem í grg. stendur um þetta efni, en það er ljóst af því sem þar segir og hv. þm. geta lesið, að fasteignamatið hækkar mun meir en almenn laun. Þessi munur hefur þó aldrei orðið meiri en verður um áramótin sem fram undan eru.

Fasteignamat á lóðum er talið munu hækka um 65% hér í Reykjavík, en á íbúðarhúsnæði um 78% um næstu áramót. En því er spáð, að á sama tíma muni kauptaxtar launþega hækka um 50% og vísitala framfærslukostnaðar um 50%. Af þessu má sjá að eignarskattar og fasteignaskattar reyndar líka munu á næsta ári hækka mun meir en nemur almennum launatekjum í landinu. M.ö.o. mun skattbyrði vegna þessara skatta þyngjast á öllum almenningi.

Þetta frv. gerir ráð fyrir að reynt sé að sporna gegn þessari þróun. Það gerir ráð fyrir að fasteignir, sem notaðar eru til íbúðar, skuli sem skattstofn eignarskatts ekki hækka meir á milli ára en nemur hækkun skattvísitölu. Við gerum okkur grein fyrir að íbúðir eru að sjálfsögðu þær eignir sem eru skattskyldar hjá langstærstum hópi almennings. Almenningur, venjulegur launamaður, á yfirleitt ekki miklu meira af skattskyldum eignum en sína íbúð, sitt hús, í mesta lagi bíl, og þess vegna gefur auga leið að þessi gífurlega hækkun á eignarskatti og fasteignaskatti á milli ára, sem verið hefur á hverju ári undanfarin fjögur ár, kemur æ þyngra niður á öllum almenningi í þessu landi.

Ég hef eingöngu tekið fram tölur um fasteignamatsverð í Reykjavík. Ég geri mér grein fyrir að fasteignamatið er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum og yfirleitt mun lægra eftir því sem fjær dregur Reykjavík þannig að skattbyrðin er að þessu leyti vægari en á þessu svæði. Þó eru ýmsir staðir á landinu þar sem þróunin er í mjög svipaða átt og þá á ég einkum við stærri kaupstaði. Í þessu frv. er ekki tekið á því vandamáli, sem nú fer vaxandi, en það er sá mikli munur sem er á fasteignamati íbúðarhúsa og lóða eftir hverfum innan sama sveitarfélags eða eftir sveitarfélögum vegna þess hve matið er mismunandi eftir ætluðu markaðsverði. Sannleikurinn er sá, að það er að verða æðimikill munur á skattbyrði fólks eftir því hvar það býr vegna mismunandi fasteignamats. Um það er ekki fjallað í þessu frv. Það er sérstakt mál sem þarf að taka til sjálfstæðrar athugunar.

Grundvöllur þessa misréttis er að sjálfsögðu sá, að í lögunum um fasteignamat er reiknað með að miða eigi við gangverð íbúðarhúsnæðis eða fasteignar þegar eignir eru metnar sem skattstofn. Ég tel að sú regla sé að mörgu leyti óeðlileg. Sannleikurinn er sá, að langmestur hluti almennings lítur alls ekki á sínar íbúðir sem kaup- eða söluvarning, heldur fyrst og fremst sem athvarf, sem íbúð sem fólk lifir og býr í, en hugsar sér ekki að selja til að hagnast á því. Þess vegna er óeðlilegt, að mínu mati, að miða fasteignamat við kaup- og söluverð. Það er hins vegar annað mál, eins og ég gat um áðan, sem ekki er tekið sérstaklega á í þessu frv.

Það sem við leggjum til í þessu frv. er að sett sé þak á þær miklu hækkanir sem orðið hafa á fasteignamati íbúða, þegar það er notað sem skattstofn fyrir eignarskatt, og að þakið sé miðað við skattvísitölu, en það er sú vísitala sem ríkið sjálft notar í öðru sambandi og því ekki óeðlilegt að við hana sé miðað í þessu tilviki einnig.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og fjh.- og viðskn.