30.11.1982
Sameinað þing: 23. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

60. mál, rafvæðing dreifbýlis

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að þessi till. skuli hafa verið lögð hér fram á hv. Alþingi. Og það eru sannarlega nokkur tímamót í þessu máli að það skuli vera 10 þm. Framsfl. sem flytja till. Allir eru þeir nátengdir sveitum og dreifbýli og vita mætavel hvar þar kreppir skórinn að. Ég vil mega lita svo á að hér sé alvara á ferð, þetta sé viðleitni þessara hv. þm. allra til þess að þoka áfram sanngjörnu en mikilvægu máli fyrir þá aðila sem það snertir.

Ég ætla að vísu ekki að leyna því, að eftir að hafa hlýtt á ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar, fóru að vakna með mér efasemdir um að menn legðu eins mikinn þunga á þetta mál og tillögugerðin gerir ráð fyrir. Hann gerði m.a. að umræðuefni stöðu málsins í fjvn. Því ætla ég að sleppa. Ég ætla hins vegar að minna á að í till. Orkusjóðs til fjvn. er gert ráð fyrir að þetta verk verði unnið á næsta ári, ef ég man rétt, og að hluta til fyrir lánsfé. Ég held satt að segja að annað sé ekki sæmandi ef menn vilja sýna virkilegan áhuga í þessum efnum. Ég geri ekkert með það hvort hægt er að tína einhverja fleiri aðila inn á vissar línur til þess að breyta röðun framkvæmda, heldur hitt að reynt verði að takast á við þetta viðfangsefni í einu lagi og ljúka því. Nógu lengi er það búið að dragast.

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, sá þm. sem á undanförnum árum og um langa tíð hefur sýnt þessum málum hvað mestan áhuga, hefur hér gert grein fyrir því hvernig málið hefur borið að á undanförnum þingum og við fjárlagaafgreiðslu. Ef mér bregst ekki minni, þá féll þó þar úr eitt atriði sem er ákaflega mikilvægt.

Hæstv. orkuráðh. Hjörleifur Guttormsson hefur nefnilega leitað eftir liðsinni við fjárlagagerð. Hann hefur leitað eftir því og beint þeim tilmælum til fjvn. Alþingis, í umr. hliðstæðum þessum, að reynt yrði að taka nokkuð myndarlega á þessu verkefni við fjárlagagerð. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Tillögur, sem Þorv. Garðar Kristjánsson hefur flutt, hafa verið felldar. En nú hefur hæstv. iðnrh. sannarlega fengið svar við sinum fyrri liðsbónum hér á Alþingi. Honum hefur að sjálfsögðu ekki nægt það að við sjálfstæðismenn stæðum með þessu máli, að því er ég hygg allir sem einn, það hefur ekki nægt. Nú hafa hins vegar bæst í hópinn tíu framsóknarmenn, meira en hálfur þingflokkur Framsfl. Og hvað er þá að? Ég vek athygli á því að tveir fjvn.menn Framsfl. eru flm. að þessari till. Dettur nokkrum manni með fullu viti í hug að menn leggi hér fram þáltill. um framkvæmdir í tilteknu máli, sem að hálfum hluta á að ganga frá við næstu fjárlagagerð, og þeir muni síðan ekki standa við þá afgreiðslu? Það verður fróðlegt að fá vitneskju um það. Ég verð að segja það, að miðað við mín persónulegu kynni af þessum hv. þm., m.a. 1. flm. þessarar till., get ég ekki látið mér detta til hugar að nokkur slík staða komi upp. Menn geta þess vegna í rauninni bókað það — og hv. þm. Guðmundur Bjarnason getur sleppt öllum úrtölum í sambandi við fjárlagagerð í þeim efnum — að svo fremi sem framsóknarmenn meina það í alvöru að þetta verk eigi að vinna á tveimur næstu árum, þá verður þó a.m.k. að fjármagna fyrri hlutann, þ.e. þær framkvæmdir sem verða unnar á árinu 1983, á næstu fjárlögum.

En ég vil nú vona, m.a. með tilliti til þess sem hér hefur komið fram og með tilliti til tillagna Orkusjóðs um lántöku og með tilliti til ábendinga og orða hæstv. iðnrh., að menn stígi nú þetta skref að fullu og verkið verði unnið á árinu 1983.

Það er rétt að geta þess til að fyrirbyggja misskilning í þá átt að mínum brýningum og ábendingum í sambandi við þennan tillöguflutning fylgi einhverjar pólitískar meiningar, að ég lit svo á, og mæli þá fyrir munn þeirra alþm. sem telja sig sérstaklega fulltrúa hinna dreifðu byggða landsins síns og setja það framar mjög mörgu öðru að íslenskar sveitabyggðir geti haldist, að þetta mál sem slíkt standi utan og ofan við allt pólitískt þras og flokkadrætti. Í þessum efnum eigum við samleið. Nú hafa tíu þm. Framsfl. kastað teningnum í þessu máli að því leyti, að þeir hafa lýst því yfir með þessum tillöguflutningi að við næstu fjárlagagerð ætli þeir a.m.k. að standa að því að unnt verði að ljúka þessari óunnu sveitarafvæðingu, sem till. gerir ráð fyrir, á næsta ári. Og það hvarflar ekki að mér að þeir víki frá þeirri yfirlýsingu.