30.11.1982
Sameinað þing: 23. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

60. mál, rafvæðing dreifbýlis

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Þetta eru orðnar nokkuð langar umr. um þetta mál og er vissulega ástæða til þess að það sé rætt hér. Það er eitt atriði, sem ég vil ekki láta hjá líða að leiðrétta, sem fram hefur komið hér í máli manna að nokkurs misskilnings gætir um. Það er í sambandi við hlutdeild Byggðasjóðs í sambandi við þetta efni og óskir sem frá Framkvæmdastofnun komu á liðnu vori.

Upphaf athugana Byggðasjóðs varðandi þetta var erindi, sem iðnrn. sendi til Framkvæmdastofnunar og Byggðasjóðs, ég má segja veturinn 1980–1981, með ósk um það að athugað yrði að Byggðasjóður kæmi inn í lausn þessa máls, vegna þess að sýnilega miðaði fremur hægt með þeim fjárveitingum sem fengjust árlega hér í þinginu. Það komu ekki nein afdráttarlaus viðbrögð frá Framkvæmdastofnun eða stjórn Byggðasjóðs um málið. Þó var farið yfir þetta sameiginlega af nefnd, þar sem Framkvæmdastofnun átti fulltrúa og iðnrn., og sett upp ákveðin röðun af þeim hópi, hvernig að þessu yrði staðið. Það var nokkuð önnur röðun heldur en fram kom hjá orkuráði á sama tíma. En á þetta reyndi ekki frekar vegna þess að fjárframlög komu ekki frá Byggðasjóði. Þetta var ítrekað á s.l. vetri. Ég hef nú ekki gögnin hér við höndina, en ég hygg að það hafi verið í maímánuði, eftir að lánsfjárlög voru afgreidd hér á hv. Alþingi, að ósk kom frá Framkvæmdastofnun um að Framkvæmdasjóður — ekki Byggðasjóður, heldur Framkvæmdasjóður — mætti taka lán upp á talsvert stórar upphæðir til nokkurra sundurgreindra verkefna, þar á meðal vegna sveitarafvæðingar upp á röskar 12 millj. kr. að mig minnir. Ég var að vona að á bak við þetta erindi fælist það viðhorf og sú afgreiðsla hjá stjórn Byggðasjóðs, að hann óskaði eftir þessari lántöku og ætlaði sér að standa undir fjármagnskostnaði ef lánið yrði heimilað. Við eftirgrennslan málsins hjá framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar kom í ljós að svo var ekki. Hér var ekki um að ræða að biðja um það að bæta í lántökur í þessu skyni og það tengt fleiri erindum.

Þegar þetta lá fyrir var ekki talið fært að verða við þessum óskum og þeim pakka, ef svo má nefna það, sem þarna kom fram af hálfu Framkvæmdasjóðs í sambandi við lántökur. Þó má vera að undantekningar hafi verið gerðar í sambandi við vegamál. Ég vil ekki neitt um það fullyrða. En í framhaldi af þessu óskaði ég eftir því við fjárlaga- og hagsýslustofnun og fjmrn. að þessir aðilar veittu Byggðasjóði heimild til lántöku að upphæð 2 millj. kr. vegna þess sem Byggðasjóður stæði undir fjármagnskostnaði af, til þess að unnt væri að ljúka á þessu ári við tvö tiltekin verkefni, sem eru efst á skrá Orkuráðs frá því í mars og raunar líka frá 14. apríl s.l., þ.e. Selárdalslínu í Vestur-Barðastrandarsýslu og Njarðvíkurlínu í Norður-Múlasýslu, en til þess að ljúka mætti þessum verkefnum, sem varða átta jarðir, hefði þurft þessa lántöku. Þessi lántökuheimild var framsend til stjórnar Byggðasjóðs og hefur legið þar fyrir frá því snemma í septembermánuði. Viðbrögð hafa engin komið frá stjórn Byggðasjóðs við þessu. Hef ég þó ítrekað ýtt á eftir afgreiðslu málsins við Framkvæmdastofnun og stjórnarmenn Byggðasjóðs hafa ekki alls fyrir löngu fengið þetta erindi hver og einn, til að þeir hefðu það handa á milli. En svar hefur sem sagt ekki komið.

Það er því ekki rétt, sem hér hefur komið fram í umr., m.a. frá hv. 4. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Norðurl. e., að Byggðasjóður hafi verið að óska eftir lántöku á liðnu vori í þessu skyni. Því miður lá málið ekki þannig. Betra hefði verið að sú hefði verið reyndin, því allt hefði verið léttara undir fæti ef Byggðasjóður hefði ætlað að standa undir þessu.

Nú hefur stjórn Byggðasjóðs heimild til 2 millj. kr. lántöku til að bæta þarna í, og það er búið að bíða eftir svari stjórnar Byggðasjóðs við því hvort hún ætlar að nota þessa heimild í ár, til þess að unnt verði að standa undir kostnaði við tengingu átta jarða, lagningu Selárdalslínu vestra og Njarðvíkurlinu eystra. Þá fækkaði jörðum á skrá orkuráðs frá 14. apríl s.l. úr 32 í 24, sem þá væru eftir. Þetta tel ég nauðsynlegt að fyrir liggi, svo að ekki ríki um þetta efni misskilningur. Og ég vænti þess enn að jákvæð viðbrögð komi frá stjórn Byggðasjóðs varðandi þetta efni.

Svo ætla ég til frekari skýringar aðeins að draga saman hver er stærð viðfangsefnisins. Í vor voru þetta 32 jarðir með innan við 6 km meðaltalsfjarlægð. Þessi listi mun styttast með tengingu Selárdals og þeirra jarða sem þar eru, því að framkvæmdinni má heita lokið þó að eftir standi vandi vegna þess, að hún hefur kostað meira en gert var ráð fyrir. En ég vænti að sá vandi verði leystur fyrir lok þessa árs, og óskin til Byggðasjóðs tengdist m.a. lausn hans. Þá standa eftir 24 jarðir.

Samkv. fjárlaga frv. er gert ráð fyrir að ráðstafa megi 3,5 millj. kr. á næsta ári til þessa verks umfram það að tengja jarðir við eldri veitur. Eitthvað mun þessu því miða áfram. Þetta er þó sennilega ekki hærri upphæð en sem svarar til að tengja fjórar jarðir eða svo við samveitur, því að eins og fram kom hér hjá hv. þm. Jóni Árm. Héðinssyni kostar þetta fé, þetta er nokkuð dýrt, sérstaklega fyrir einangraðar jarðir. Upphæðin var á verðlagi í mars fyrir þessi 32 býli 16 345 700 kr. nákvæmlega reiknað. Í því erindi sem við sendum frá iðnrn. til fjmrn. í sambandi við fjárlagagerð var gert ráð fyrir að til að leysa þennan vanda á einu ári þyrfti 22 millj. kr. á verðlagi næsta árs. Við það bættust svo 8 millj. vegna tengingar við eldri veitur og 2 millj. vegna einkarafstöðva. Samtals voru það 32 millj. vegna sveitarafvæðingar.

Þá eru utan við þetta 25–30 jarðir sem ekki hafa enn verið tengdar við samveitu. En við skulum hafa í huga að þrátt fyrir allt eru engir sem eiga þess ekki kost með sæmilegu móti að búa við rafmagn til sveita á Íslandi, þó þeir séu ekki tengdir samveitum. Eins og hér kom fram hjá hv. þm. Jóni Árm. Héðinssyni þá eiga menn — að vísu ekki alveg ókeypis, en á mjög hagstæðum kjörum — aðgang að fjármagni til að kaupa olíurafstöðvar. Það eru allnokkrir sem við það búa, að vísu með meiri tilkostnaði en ella væri, fyrir utan Hólsfjallabyggðina, en þar hefur verið gengið frá sérstökum kjörum sem Hólsfjallabúar hafa notið, sem betur fer, um nokkurra ára skeið. Á vanda þessara jarða þarf að líta.

Þetta vænti ég að hafi skýrt vissan þátt, sem virtist eitthvað á reiki, í sambandi við þátttöku Byggðasjóðs í málinu. Ég vona að Byggðasjóður sjái sér fært að sinna þessu máli, þó með lántökum verði, ef hann er reiðubúinn að standa undir fjármagnskostnaði og dreifa því á nokkurn tíma. Hins væri einnig óskandi, að hægt verði að bæta í þá upphæð sem gert er ráð fyrir samkv. fjárlagafrv. í þessu skyni, þannig að lengra miði á næsta ári í þessu efni.

Hv. 4. þm. Vestf. minntist hér á fyrirspurn sem ekki kom til umr. í dag. Það var síðasta fsp. á dagskrá og ég hafði ekki búið mig sérstaklega undir að svara henni hér. Þó er henni í rauninni auðsvarað. Það er rétt að taka fram að það er samkv. lógum iðnrh. sem á að staðfesta tillögur orkuráðs. Hvort lagafyrirmæli eru formsatriði eða ekki, það getur menn greint á um. Hvað sem öðru liður eru það lög sem kveða á um það. Og það voru vissar ástæður fyrir því að ég hef dregið að staðfesta afgreiðslu orkuráðs. Ég ætla ekki að fara meira út í það. Það liggur engin óvild að baki því verkefni sem þar blasir við heldur þvert á móti vonin um að hægt væri að tryggja aukið fjármagn til þess fyrir árslokin. Og það er tryggt að fyllilega verður nýtt — og sýnilega meira en fullnýtt það fjármagn sem til ráðstöfunar er í þessu skyni samkv. fyrirliggjandi heimildum fjárlaga í ár.