02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

265. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 49 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. um framkvæmd laga um stjórn og starfrækslu póst- og símamála. Fsp. hljóðar þannig:

„1. Hvað líður framkvæmd 11. gr. laga um stjórn og starfrækslu póst- og símamála frá 13. maí 1977 þar sem segir í 2. mgr.: „Stefnt verði að því við gjaldskrárgerð, að sömu gjöld gildi innan hvers svæðisnúmers, og skal ákveðið í reglugerð, hvenær framkvæmd þessa ákvæðis kemst á“?

2. Hvernig og eftir hvaða reglum framkvæmir Landssíminn gjaldtöku símtala í gegnum svokallaðar „hnútstöðvar“, sem settar hafa verið upp víðs vegar um land í sambandi við framkvæmd lagningar sjálfvirks síma um landið samkv. lögum frá 18. maí 1981?“

Það sem að baki þessum fsp. býr er í fyrsta lagi sá mikli mismunur sem er á símgjöldum víðs vegar um landið. Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt er hér um að ræða mjög mikið óréttlæti. Að vísu hafa verið stigin stór skref til jöfnunar á síðustu árum og ekki síst í sambandi við lækkun taxta á langlínusamtölum milli landshluta, sem er mjög mikilvægt atriði, en samt sem áður er niðurstaða þessara mála enn í dag sú, að landsbyggðin greiðir yfir 60% af símgjöldum til Pósts og síma þrátt fyrir þann mikla jöfnuð sem búið er þó að gera. Með lögum um stjórn og starfrækslu póst- og símamála er ákveðið stefnt að því að jafna þetta út og þótti eðlilegt við setningu laganna og þykir eðlilegt enn að stefna að því að sömu gjöld gildi innan hvers svæðisnúmers. Þetta hefur dregist. Þessi fsp. er hér lögð fram vegna þess að ekki hafa fengist nægjanlega góð svör við því hvert stefnir í þessum málum.

Í öðru lagi er það þannig, að samkv. lögum um lagningu sjálfvirks síma, sem samþykkt voru hér á Alþingi 18. maí 1981, var gerð 5 ára áætlun sem unnið hefur verið eftir. Ber því vissulega að fagna að allar líkur eru til þess að áætlunin standist þannig að símnotendur um landið verði komnir í sjálfvirkt símsamband innan þriggja ára héðan í frá. En það hefur valdið talsvert mikilli óánægju að í sambandi við framkvæmd á þessu ákvæði hafa verið settar upp hinar svokölluðu „hnútstöðvar“. Þær gera það að verkum að á svæðum sem þær þjóna þarf fólk að greiða jafnhátt verð fyrir eina mínútu og þarf að greiða fyrir 6 mínútur í venjulegum skrefum. Þetta hefur valdið óánægju og póst- og símamálastjórn hefur ekki getað gefið svo viðhlítandi svör við kvörtunum vegna þessa að átta megi sig á í hverju þetta misræmi liggur. Fsp. er sett fram í framhaldi af því að árangurslaust hefur verið reynt að fá bein svör við að hverju sé stefnt í þessum málum.

Það mætti tala hér lengi um þessi símamál. M.a. hefur komið upp sú spurning hvort póst- og símamálastjórn hafi athugað fleiri valkosti til að jafna aðstöðu fólks í landshlutum að þessu leyti til. M.a. hefur komið upp sú hugmynd, að e.t.v. væri hægt að stiga þetta skref með því að miða við hin svokölluðu þjónustusvæði, þannig að allir innan sama þjónustusvæðis greiddu sama gjald. Það má vel vera að sú aðferð geti komið að gagni í þessu sambandi, en allavega þarf að vita hvert stefnir í þessum málum því að ég tel að það sé ótvíræð stefna að þarna verði dregið úr misrétti.

Ég vænti þess að í svari hæstv. samgrh. komi upplýsingar um þessi mál.