02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

265. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í fáum orðum sagt má segja að þetta mál, sem nú er spurt um, hafi verið til athugunar á milli samgrn. og Pósts og síma þann tíma sem ég hef gegnt embætti samgrh. nú. M.a. ritaði ég póst- og símamálastjóra 9. júlí s.l. og innti eftir því hvenær stofnunin teldi að umrætt lagaákvæði, sem er að vísu stefnt að, gæti komið til framkvæmda. Ég tel að það sé nokkuð upplýsandi í þessu sambandi að lesa það bréf, sem mér barst 3. sept. frá stofnuninni, með leyfi forseta:

„Með tilvísun til bréfs samgrn., dags. 9. júlí 1982, varðandi lagaákvæði. „Stefnt verði að því við gjaldskrárgerð, að sömu gjöld gildi innan hvers svæðisnúmers, og skal ákveðið í reglugerð, hvenær framkvæmd þess ákvæðis kemst á“ skal eftirfarandi tekið fram:

Framangreind stefnumörkun um gjaldtöku símtala innan hvers svæðisnúmers veldur mikilli grundvallarbreytingu á gjaldskrá stofnunarinnar. Þá vaknar sú spurning hvort hér sé átt við símtöl milli símstöðva innan svæðisnúmersins eða á það við öll símtöl innan svæðisins og þá líka innanstöðvarsímtöl, samanber höfuðborgarsvæðið. Nú er gjaldtaka innan svæðisins auk innanstöðvartaxtans núll sem hér segir: 91–svæðið: einn taxti, 0; 92–svæðið: einn taxti, 1; 93–svæðið: þrír taxtar, 1, 2 og 3; 94-svæðið: tveir taxtar, 1, 2; 95–svæðið: þrír taxtar, 1, 2 og 3; 96–svæðið: þrír taxtar, 1, 2 og 3; 97-svæðið: þrír taxtar, 1, 2 og 3; 98–svæðið: einn taxti, 0, og 99–svæðið: tveir taxtar, 1 og 2.

Skal upplýst að fljótlega eða seint á næsta ári verður af tæknilegum ástæðum að gera eitt svæðisnúmer fyrir 98 og 99 og þá afnema svæðisnúmer nr. 99.

Ennfremur segir í síðustu mgr. 11. gr. nefndra laga: „Að því skal stefnt, að tekjur samkv. gjaldskrá nægi til að rekstrarjöfnuður náist, miðað við að rekstur og fjárfestingar fari eftir meginstefnu 1. mgr. 3. gr. og fyllsta aðhalds sé gætt“. Af þessu leiðir væntanlega, að núverandi taxtar hækka eða lækka eftir atvikum innan sjö svæðisnúmera. Og ef sama á að gilda um öll svæðisnúmerin, hvað verður þá gert með innansvæðistaxtann 0 á höfuðborgarsvæðinu? Með hliðsjón af framansögðu er samgrn. beðið að marka stefnuna, því erfitt er að koma auga á jöfnuð í þessu tilliti“.

Samgrn. svaraði þessu bréfi strax 22. sept. s.l. og segir í því bréfi m.a., með leyfi forseta: „Að sjálfsögðu er átt við að einn taxti verði innan svæðis. T.d. innan 93-svæðisins aðeins taxti 1“ o.s.frv. Í þessu bréfi er ekki afstaða til þess, hvort það á að vera sami taxti á öllum svæðum, en sú stefna mörkuð að það eigi að vera einn taxti innan eins svæðisnúmers.

Ég lét einnig senda þá fsp. sem nú er til umr. til póst- og símamálastofnunar og fékk svar frá stofnuninni sem því miður upplýsir ekki nægilega það sem um er spurt. Í þessu svari, sem dags. er 4. nóv. s.l., segir svo m.a.:

„Með tilliti til bréfs samgrn., dags. 29. okt. s.l., varðandi fsp. Alexanders Stefánssonar alþm. á þskj. 49, 2. tölul., skal eftirfarandi tekið fram:

1. Orðalagið að sömu gjöld innan hvers svæðisnúmers verður að túlka nánar. Hvaða gjöld er átt við? Hvort eru það innanbæjartaxtar eða langlínutaxtar innan svæðisins? Hafa hv. alþm. hugsað sér að settur verði einn og sami taxti milli síma hvar sem er á svæðinu sem um ræðir?

2. Gjaldtaka um „hnútstöðvar“ eða greinistöðvar fer eftir ákvörðun samgrn., sbr. í síðast í bréfi dags. 7. sept. 1981. Til skýringar skal bent á dæmi frá Snæfellsnesi. Nú er í gildi sami dagtaxti með 60 sekúndna skreflengd milli þessara staða: Hellissandur, Ólafsvík, Grundarfjörður, Stykkishólmur, Búðardalur, Reykjanes og Saurbær í Dölum, en til fjarlægari staða eru tveir aðrir taxtar eftir fjarlægð með skrefalengd 18 sekúndur og 12 sekúndur á dagtaxta. Nætur- og helgidagataxtinn er 50% af dagtaxta eins og kunnugt er“.

Síðan fylgir með gjaldflokkatafla sem ég sé ekki ástæðu til að ræða eða lýsa hér.

Eins og kemur fram í þessu bréfi virtist stofnunin enn ekki hafa gert sér grein fyrir því við hvað var átt, þrátt fyrir bréf rn. sem ég las áðan. Ég ræddi þegar við póst- og símamálastjóra og benti honum á fyrra svar rn. frá 22. sept. Að mínu mati er tvímælalaust átt við að einn taxti sé innan svæðisins alls. Hins vegar má um það deila hvort er ætlast til þess að sami taxti sé innan allra svæða. Ég óskaði eftir því við stofnunina enn einu sinni að hún léti mér í té áætlun um hvernig megi nálgast og hvenær þá ná þessu ákvæði laga. Það hef ég ekki fengið í hendurnar enn.

Hitt vil ég svo segja, sem öllum má vera ljóst, að ef sá taxti sem gildir innan þéttbýliskjarna á viðkomandi svæði, sem er 1. taxti, á að gilda fyrir allt svæðið hlýtur sá taxti að hækka ef tekjur stofnunarinnar eiga að vera óbreyttar. Þetta þurfum við að hafa í huga.

Í öðru lagi er lögð á það áhersla og fullyrt af póst- og símamálastjórninni, að verði langlínutaxti innan svæðis lækkaður eitthvað í áttina við innanbæjartaxta á viðkomandi svæði muni umferð um símalínur þess svæðis stórlega aukast og kerfið sé ekki í stakk búið nú til að taka við svo auknu álagi á milli fjarlægari staða. Ég tel einmitt að í svari Póst- og símamálastofnunarinnar þurfi þetta að koma fram: Hvað telur stofnunin að efla þurfi mikið búnað símstöðva á svæðinu og jafnvel fjölga línum til þess að unnt sé að framkvæma þessa taxtabreytingu með þeirri auknu umferð sem henni kann að fylgja?

Um 2. liðinn, „hnútstöðvarnar“, verð ég að segja að mér sýnist í svari Póst- og símamálastofnunar nokkuð farið framhjá málefninu. Það er að vísu rétt að samgrn. staðfestir gjaldskrá, en ég minnist þess ekki að annað hafi verið staðfest en lagt er til af Póst- og símamálastofnun. Því má segja að það sé nánast formsatriði í rn.

Á hitt vil ég þó benda, að þessar „hnútstöðvar“ hafa í raun og veru fækkað gjaldsvæðum og sameinað allstór svæði um eitt gjald. Hins vegar hafa þær víða orðið milliliður milli notandans og t.d. verslunarmiðstöðvar, sem viðkomandi notandi var iðulega áður í beinu sambandi við. Ég hef margsinnis rætt þetta við Póst- og símamálastofnunina og tel að kvartanir notenda í þessu sambandi séu á rökum reistar, en svarið er það, að til að beina öllum símnotendum beint inn á t.d. verslunarstað þurfi mjög mikla fjölgun á línum og miklu meiri búnað í stöð. „Hnútstöðin“ er m.ö.o. greinistöð sem tekur við mörgum notendum og greinir þá eftir miklu færri linum í símakerfi landsins. Fyrir barðinu á þessu hafa einhverjir orðið. Þeir hafa þar með tengst „hnútstöð“, en voru áður í beinu sambandi við viðskiptamiðstöð sína, þangað sem mesta umferðin iðulega liggur.

Þessar „hnútstöðvar“ eru nú 20. Ég hef óskað eftir að skoðað verði hvernig þetta megi lagfæra. Ýmsar hugmyndir hafa verið ræddar, m.a. að lækka eða jafnvel fella niður fastagjald og taka þá eingöngu eftir notkun. Það mundi ekki ná að jafna það sem hér er um að ræða, en gæti þó haft áhrif í rétta átt.

Ég hef ekki tíma til að fara ítarlegar út í þetta mál, bjallan hringir, en ég vil taka fram að það er unnið jafnt og þétt að því að jafna kostnað á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Að mínu mati hefur mikið áunnist. Eins og ég vonandi fæ tækifæri til að upplýsa seinna eru nú í fyrsta sinn orðin jafnmörg skref á milli dreifbýlis utan Reykjavíkur og Reykjanessvæðisins og á Reykjavík- og Reykjanessvæðinu, þ.e. mánaðarskref eru orðin um 11 millj. á báðum þessum svæðum. Í því felst að sjálfsögðu mikill jöfnuður, sem ég er tilbúinn að ræða síðar.