02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

265. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda um nauðsyn enn frekari jöfnunar símgjalda og um leið tek ég undir að við höfum þar vissulega náð mikilsverðum árangri. En betur má ef duga skal. Í máli fyrirspyrjanda kom einmitt fram hversu hár hlutur símnotenda á landsbyggðinni er enn þá í afnotagjöldum, þrátt fyrir það sem áunnist hefur og þrátt fyrir það, sem víða hefur verið sagt, að menn hafi þarna farið allt of geyst í sakirnar og níðst allt um of á þéttbýlinu í þessu efni. Ég tek undir það einnig með honum, að vissulega hlýtur það að vera lágmarkskrafa að sama gjald ríki innan svæðis. Ég trúi því svona mátulega að þetta kerfi okkar sé ekki orðið það fullkomið að það þoli það fullkomlega.

En ég vildi aðeins víkja að því, og það var mitt erindi upp í ræðustólinn, hversu þröngt og erfitt er um vik fyrir fólk að komast í síma úti á landi miðað við þann langa lokunartíma sem gildir hjá stöðvunum þar. Ferðafólk og sjómenn kvarta mjög undan þessu vegna þess að ekki hefur verið séð fyrir því að símaþjónusta væri þá til staðar einhvers staðar annars staðar. Þetta var mjög áberandi eystra núna á síldarvertíðinni, þegar sjómenn áttu í miklum erfiðleikum, bæði um helgar og á kvöldum, að ná sambandi til síns heima. Þetta hefur áður verið rætt hér á Alþingi, m.a. í fsp.-tíma, og er engin leið að gera nánari grein fyrir því hér, en hér er um óviðunandi ástand að ræða. Lágmarkið er að ferðafólk, og ég tala nú ekki um sjómenn, gefi með tiltölulega hægu móti náð heim til sín um helgar eða á kvöldin. Það er lágmarkskrafa sem ég hlýt að gera fyrir hönd þeirra sem undan þessu hafa kvartað.