02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

265. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég held að hv. síðasti ræðumaður þurfi að finna hinum stóru orðum sínum stað. (StJ: Hann mun gera það.) Kannske gerir hann það. Ég vil halda því fram að þjónusta Pósts og síma hafi stórlega aukist á undanförnum árum. Það eru náttúrlega alvarlegar ásakanir ef trassaskapur, eins og orðað var, af hálfu Pósts og síma hefur orðið til þess jafnvel að slys hafa orðið o.s.frv. Þetta eru stór orð sem ég vona að hv. þm. finni stað.

Hér hefur verið kvartað undan því, að þegar sjálfvirkt hefur verið orðið við margar stöðvar, þá hefur þeim verið lokað eftir ákveðinn tíma. Ég hygg að það láti nærri að þetta séu um 30 stöðvar. Kvörtun barst í ráðuneytið um þetta s.l. vetur. Ég lét þá athuga á tiltekinni stöð, þar sem ekki var búið að loka, í útgerðarplássi nokkuð stóru hér á landi og reyndar var það gert á tveimur, um hve mikla notkun væri að ræða eftir kl. 5, á þeim tímum sem um var deilt. Það reyndust vera að meðaltali tvær hringingar í viku. Ég verð því að segja það alveg eins og er, að þetta var ákaflega dýr þjónusta sem þarna var um að ræða. Ég óskaði þá eftir því að opnaðir yrðu gjaldsímar sem menn gætu komist í. Það hefur verið gert. En sá tíðarandi er nú hér, að þeir endast varla nema nokkrar vikur, þá er búið að eyðileggja þá. Ef hægt er að komast að þeim þar sem þeir eru ekki í vörslu eða einhver hefur eftirlit með þeim, þá virðast þeir bókstaflega eyðilagðir og er illt til þess að vita.

Það getur vel komið til greina að auka þjónustu á þessum 30 stöðum. Ég hygg að flestir þessara staða séu í svipuðum flokki hvað þessu viðvíkur. En að sjálfsögðu kostar það peninga. Menn þurfa bara að meta það, hvort rétt er þá að hækka gjaldskrár Pósts og síma til þess að standa undir slíkum kostnaði.

Við rekstur Pósts og síma er lögð mjög mikil áhersla á sparnað. Það er í gangi athugun eftir athugun til að reyna að draga úr útgjöldum og flestir þessir liðir koma að einhverju leyti þar undir. Ég tek hins vegar undir það, sem hér kom fram, að það er vitanlega ákaflega bagalegt ef ekki er unnt að komast í síma, t.d. í vertíðarplássum. Það þarf vitanlega að reyna að leysa það mál.

En varðandi það mál sem hér er rætt er lausnin í raun og veru augljós. Við getum náttúrlega fellt niður þetta sérstaka gjald í gegnum hnútstöðvarnar. T.d. þannig að sama gjald verði fyrir alla sem hringja inn á Akranes eða í aðra viðskiptastaði. En þá verður, til að halda tekjum símans, að hækka gjaldið í þéttbýlisstöðunum. Við skulum gera okkur fulla grein fyrir því. Hins vegar segir Póstur og sími að sá þrándur sé enn í götu að tækin leyfa ekki þá miklu umferð. Það má að sjálfsögðu ýta því til hliðar og segja sem svo: þá verður erfiðara að komast í samband, en gjaldið verður hins vegar það sama. Þetta er núna til athugunar.

Ég er einnig að láta athuga hvort til greina komi að fara ekki alveg svona í þessi mál, heldur skipta landinu í viðskiptasvæði. Þetta hefur verið athugað, en það koma satt að segja upp ýmis vafatilfelli. Sú spurning vaknar, hvort póstur og sími eigi að koma viðkomandi notanda í viðskipti hér eða þar. Það er víða svo, að notendur í einni sveit skipta við tvo mismunandi staði. Þetta hefur komið fyrir á Norðurl. e., þessi spurning kom fram hér á Suðurlandi, hvort á að flokka bændur við Hellu eða Hvolsvöll, svo að ég nefni dæmi. Þetta er ekki auðleyst. Auk þess kjósa margir sem þar búa að hafa viðskipti við Selfoss. Málið er ekki algerlega augljóst.

Hitt vil ég svo leggja áherslu á, að samskipti Pósts og síma við notendur eru náttúrlega ákaflega mikilvæg. Og mér finnst satt að segja heldur lítið gert úr því hér, hve mikil breyting hefur orðið á þessu sviði öllu upp á síðkastið. Við höfum samþykkt á hinu háa Alþingi að koma sjálfvirkum síma á alla staði á landinu á næstu fjórum árum. Við þá áætlun var fyllilega staðið s.l. sumar, meira að segja svo vel að það kann að vera unnt að stytta þetta tímabil. Það er eflaust rétt, sem kom fram hér áðan hjá hv. 3. þm. Austurl., að óánægja ríkir í kringum Egilsstaði hjá fólki sem ekki er á fyrra hluta eða fyrstu árum þessarar áætlunar. En staðreyndin er náttúrlega sú, að það er ekki hægt að koma öllum á fyrstu árin á fimm ára áætlun.

Ég vil jafnframt gera grein fyrir því hér, að ég hef einmitt fyrir örfáum dögum skipað svonefnt póst- og símamálaráð, sem á að vera samgrh. og samgrn. til aðstoðar og ráðuneytis, ekki síst í samskiptum pósts og síma við notendur. Það er um svo viðamikil og mörg mál að ræða í þeim samskiptum, að ég tel ákaflega æskilegt að fleiri menn fjalli um þau. Þetta póst- og símamálaráð mun einmitt taka fyrir málefni eins og þau sem hér hefur verið drepið á. Starfsmönnum Pósts og síma er að sjálfsögðu skylt að veita þessum mönnum hverjar þær upplýsingar sem þeir óska eftir og vinna hverja þá áætlun og athugun sem póst- og símamálaráð óskar eftir.