20.10.1982
Neðri deild: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

26. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Í framhaldi af ræðum þeirra hv. 1. þm. Vestf. og hv. 6. landsk. þm. er það auðvitað alveg ljóst, sem fram kom hjá þeim báðum, að þetta eru fyrstu brbl. eftir sumarið sem lögð eru fram hér á hinu háa Alþingi. Það hafa nú verið hinar réttu leikreglur í þessum efnum, að í fyrsta lagi setja ríkisstjórnir brbl., og þær hafa rétt tl þess og við því er ekkert að segja, en í öðru lagi er hitt, að í upphafi næsta þings á eftir leggja ráðherrar þessi brbl. fram. Það má út af fyrir sig þakka hæstv. sjútvrh. fyrir það framlag og þá kurteisi og þá virðingu fyrir þinginu og þingræðinu sem hann hefur sýnt í þessum efnum. En fyrir vikið, og ég ætla ekki að ræða olíugjald til fiskiskipa sérstaklega, vil ég hins vegar mjög taka undir það, sem fram hefur komið h já hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og Karvel Pálmasyni, að það hafa verið gefin út önnur brbl. og um þau brbl. hefur verið ágreiningur, t.d. opinberlega á milli andstæðra afla efnislega um þetta atriði hér í þinginu, og við erum í óvissu um þau — erum út af fyrir sig ekki í neinni óvissu um það mál, sem ráðh. hér hefur talað fyrir, en þetta skiptir máli. Það skiptir máli fyrir mann, t.d. hér í Reykjavík, sem hefur 8 þús. kr. á mánuði, hvort af honum verða teknar 800 kr. 1. des. Þetta skiptir máli. Og það er ekki hægt að hafa manninn í óvissu um hvort í launaumslagi hans verður 800 kr. eða 900 kr. eða 1000 kr. meira eða minna 1. des. Mér er ljóst að hæstv. sjútvrh. sem slíkur ber auðvitað aðeins ábyrgð á sínum málaflokki strangt til tekið og formlega talað, en eins og fram kom hjá ræðumönnum báðum áðan er hann einnig aðili að ríkisstj. Það er ekki spurt um þau brbl. sem ráðh. hefur lagt fram og talaði fyrir áðan, þó svo það skuli strengilega tekið fram og undirstrikað að honum bera þakkir fyrir hans verknað. Hann hagar sér þinglega rétt í þessum efnum. En hagi hann sér þinglega rétt haga einhverjir aðrir sér þinglega rangt, og þeir sem haga sér þinglega rangt eru þeir sem hafa gefið út brbl. um laun, ekki um olíuverð til fiskiskipa heldur laun, en leggja þau ekki fram, því að óvissa 8 þús. kr. mannsins eða 12 þús. kr. mannsins eða 20 þús. kr. mannsins magnast stöðugt því nær sem líður. Vegna þess að þetta eru brbl. útgefin, sem hér er verið að mæla fyrir, og ég undirstrika þakklæti til sjútvrh. fyrir hans verknað í þeim málaflokki sem hann ber ábyrgð á, þá langar mig, engu að síður, til að spyrja hann formlega: 1. Veit hann hvenær þau brbl. sem mesta athygli hafa vakið — eðlilega því að þau snerta flesta — verða lögð fram? 2. Veit hann í hvorri deildinni þau verða lögð fram? Og 3. Viti hann það ekki, er þá ekki ótrúlegur trúnaðarbrestur í ríkisstj. ef formaður Framsfl. og formaður Alþb. hafa ekki þann aðgang að hæstv. forsrh. að geta spurt hann hvar og hvenær á að leggja þessi brbl. fram? Ég vil taka það fram, að ég lít svo til að þetta sé jákvæð spurning því að þetta er hrós í garð hæstv. sjútvrh. fyrir hans þinglegu gjörðir að því er hans málaflokka snertir, en því miður, og t.d. hér í Reykjavíkurkjördæmi, eru margir sem spyrja um launin sín og þeir vilja vita: Á hverju eigum við von í jólamánuðinum? Eigum við von á 10% meira eða minna? Þess vegna, hæstv. ráðh., skiptir þetta svo marga svo miklu máli. Og í framhaldi af þeim brbl. sem hæstv. ráðh. hefur talað fyrir í dag ítreka ég þessar spurningar og bið um skýr og undanbragðalaus svör.