02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

265. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Örstutt aths. Auðvitað verður Póstur og sími eins og aðrir í þjóðfélaginu að spara eftir því sem unnt er án þess þó að draga úr þjónustu, a.m.k. ekki að verulegu marki. Starfsmenn Pósts og síma eru einhvers staðar nálægt 2000. Launakostnaður er því mikill og allt sem sparast þar er auðvitað gott. En það verður að gerast með fyllsta tilliti til notendanna. Það má ekki draga of mikið úr þjónustu. Stundum er hægt að setja upp sjálfsala í staðinn fyrir vakt og annað því um líkt. Það er sums staðar hægt með sæmilegu móti að hafa sjálfsala í sjoppum o.þ.h. Það er víða gert.

Það sem kannske vill stundum á bresta er að tekið sé fyllsta tillit til starfsfólksins sem er verið að segja upp. Það má flytja það til, bíða með uppsagnir, flytja það til í störfum og annað því um líkt. Það er hægt að gera þetta með meiri lipurð en stundum hefur verið gert. Ég er alveg sammála hv. þm. Stefáni Jónssyni um það.

En varðandi neyðartilfellið í Vestmannaeyjum, þá kemur það mér dálítið spánskt fyrir sjónir vegna þess að ég hélt að stöðin í Vestmannaeyjum væri betur búin en allar aðrar stöðvar á landinu með varaorku, miklu betur búin en stöðvar hér á Reykjavíkursvæðinu. Vegna sæsímastöðvarinnar hefur hún varaorku. Hún getur keyrt í 24 tíma án þess að fá nokkurs staðar að ögn af rafmagni. Auk þess er hún með neyðarsenda og sjálfstýringu fyrir aðra senda. Hún er með neyðarvélar og neyðargeyma í Sæfellsstöðinni, sem geta keyrt sólarhring eftir sólarhring án raforku sem aftur á móti er ekki til á Klifi. Þar er ekki varavél. Að vísu er til rafstrengur upp, en ef rafmagnslaust er hjá Rafveitunni, þá er náttúrlega ekki rafmagn þar heldur. Það hlýtur að hafa verið einhver tilviljun ef þeir sendar sem nauðsynlega þurfti að nota í þessu tilviki, í sambandi við þetta slys, hafa allir verið á Klifi, því að nú eru þessir sendar víðar. Það eru sendar á Háfelli og við Reynisfjall. Það eru víða sendar sem Vestmannaeyjaradíó hefur yfir að ráða, þannig að ég held að þetta geti a.m.k. ekki verið viljandi trassaskapur hjá yfirvöldum Pósts og síma, heldur hljóti það að vera röð af tilviljunum, ef þetta hefur komið upp á.